Kambshryggur
Leið númer 16a á mynd
AI3 M3/4, 600 m. FF: Andri Bjarnason, Freyr Ingi Björnsson, Sveinn Friðrik Eydal Sveinsson, 2.maí 2021.
Leiðin liggur úr Kaldárdal, austan við Skessuhorn, upp klettabelti í upphafi og fylgir síðan löngum og áberandi hrygg á Miðfjallskamb. Veiklekar í neðsta klettabeltinu voru eltir upp á hrygginn og honum síðan fylgt að langmestu leyti alla leið upp á topp.
Mestu erfiðleikarnir voru í mixhöftum í byrjun leiðar, sérstaklega í fyrstu spönn, og í næstsíðustu spönn við toppinn. Ís var víða að finna en yfirleitt býsna þunnur. Þá var töluvert mikið af snjóklifri í leiðinni.
Fyrsta spönnin hefst í augljósum veikleika beint undir hryggnum, þar sem snjótunga teygir sig
upp í klettabeltið. Klifrað var upp stromp sem var alveg ís- og snjólaus í fyrstu spönn. Síðan var
hliðrað eilítið til vinstri í annarri spönn og eftir það mátti finna rennur með ís upp í gegnum
bröttustu höftin. Klettaveggurinn var klifinn í þremur 40-70 metra spönnum.
Eftir það tók við snjóklifur upp hrygginn, upp á flatan koll fyrir neðan toppahrygginn. Sá hluti var
farinn á hlaupandi tryggingum. Því næst einfarið upp hrygginn að klettahafti. Þar tók við önnur af áhugaverðustu spönnum dagsins, hliðrun af ís, yfir stutt klettahaft í þunnan ís þar fyrir ofan,
ótryggjanlegt. Alvarlegasti og flottasti staðurinn í leiðinni. Ein spönn til viðbótar upp á topp.
Samtals voru um 100 metrar upp toppahrygginn í föstum spönnum. Engin hengja til að angra
okkur þann daginn.
Klifrið var því þrjár fastar spannir í byrjun, löng hlaupandi spönn, ótryggður kafli, og loks tvær
lokaspannir, samtals um 600 klifurmetrar og 400 metrar í hækkun. Líklega með lengstu leiðum í
Skarðsheiði.
Tryggt var með bergtryggingum (hnetur, vinir, fleygar,), skrúfum, snjóhæl og ankeri. Tryggingar voru vandasamar á köflum en heilt yfir í lagi, fyrir utan kafla í fyrstu spönn á toppahrygg.
Aðkoma er frá vegi 507, Mófellsstaðavegi. Ekið er austur fyrir Mófellsstaði og beygt til suðurs við Kaldá, að vestanverðu. Slóða fylgt nokkur hundruð metra þar til slóðinn hverfur. Gengið upp með Kaldá að vestanverðu á stíg sem er á köflum ógreinilegur. Síðan er eru hryggir eltir upp að byrjun leiðar.
Niðurleið okkar var austur Skarðsheiði alla leið á Mórauðahnúk og svo til vesturs niður á stíginn við Kaldá.
Klifursvæði | Skarðsheiði |
Svæði | Kaldárdalur |
Tegund | Alpine |
Merkingar |