Bændaglíma WI 4
Mynd óskast
Ofan við fyrsta bæinn fyrir austan Pöstin en þar býr mjög skapmikill bóndi.
Fyrsta spönn WI3+, 35m, önnur spönn var lét 50m hliðrun með smá mosaklifri en einnig er hægt að klifra bratt kerti beint upp en það var ekki vel frosið þetta skiptið, þriðja spönn var WI4, 35m.
Sagan á bakvið nafnið er sem sagt þannig að við fórum af stað með það að markmiði að kanna ís á nýjum slóðum undir Eyjafjöllum. Ég (Freyr) hafði farið niður gljúfur á þessum slóðum um sumarið (canyoneering, en það er önnur saga) og litist vel á möguleika fyrir ís. Við fengum leyfi fyrir könnunarferðinni í gljúfrinu en í stuttu máli var um sneypuför að ræða, enginn ís sem heita mátti klifurvænlegur. Lítið annað að gera en að fara út aftur og halda áfram að svipast um. Þá sáum við að skammt undan reyndist vera ís uppi í fjallsbrún. Ókum við sem leið lá til að nálgast ísinn og frá bílnum séð sýndist okkur sem það myndi þá mögulega rætast úr ferðalaginu eftir allt saman. Við lögðum bílnum á plani við rúllustæðu, græjuðum okkur aftur af stað og upp í átt að ísnum. Allt var í stakasta lagi, bara allir glaðir með að hafa fundið ís eftir allt saman.
Á einhverjum tímapunkti í stansinum þegar Örvar er að horfa í kringum sig rekur hann augun í hvar bóndi nokkur á Massey Ferguson sem skömmu áður hafði verið að sækja rúllur í stæðuna þar sem við lögðum bílnum, bílnum hans Örvars, virðist vera hættur við að eiga meira við rúllurnar en er þess í stað farinn að sýna bílnum hans Örra meiri áhuga. „Hvað er í gangi þarna niðri“? Massey Ferguson er núna með rúllugreipina tóma og alveg niðri við jörðina. Hægt og rólega færist hann nær bílnum. „Er hann að“? „Ekki er hann að fara að færa bílinn minn“!? Ótal sinnum hefur manni fundist maður vera varnarlaus þegar hangið er í stansi í ísklifri. En oftast hefur það verið vegna kulda eða íshruns, í þetta skiptið var það vegna Massey Ferguson. Við gátum akkúrat ekkert gert í stöðunni nema að horfa á. Þegar greipin er komin alveg undir bílinn sjáum við hvernig henni er lyft rólega… En svo stoppar allt. Bóndi snarast út. Gengur heim að bæ. Bílinn var ekki hreyfður en það er útilokað að við sleppum af hlaðinu án þess að Massey Ferguson leyfi okkur það. Við klárum klifrið. Ekkert annað í stöðunni, þannig lagað. Stoltir og ánægðir með nýja leið göngum við svo niður.
Niðurlútir og skömmustulegir og skýtnir bönkum við upp á bænum. „Já góða kvöldið, við erum eiginlega fastir hérna niðri á plani hjá þér“ . „Nú já“? „Ehh, já, hérna ég sé ekki betur en það sé mögulega búið að leggja dráttarvélinni aðeins of nærri bílnum okkar“. .. Því næst vorum við látnir heyra það! Það væri auðvitað argasti dónaskapur að vaða bara um annarra manna land og láta eins og maður ætti það. Það hefði nú ekki verið neitt vandamál að leyfa klifur í fossinum en það væri ólíðandi að við hefðum ekki einu sinni bankað upp á og látið vita af ferðum okkar! Ok! Point taken, en geturðu núna komið með og fært Massey Ferguson og rúllugreipina undan bílnum? Það vildi hann og gerði svo að lokum. Samningaviðræður báru sem sagt þann árangur að við komumst í burtu á óskemmdum en skelkuðum fólksbílnum og munum aldrei aftur klikka á því að banka upp á og taka spjallið.
FF: Örvar A. Þorgeirsson, Bergur Einarsson, Freyr Ingi Björnsson, 04. jan. 2001, 120m
Klifursvæði | Eyjafjöll |
Svæði | Pöstin |
Tegund | Ice Climbing |
Merkingar |