(Leiðbeiningar neðst)
Um nokkurt skeið hafa heimasíðumál klúbbsins verið í lamasessi og var það fyrsta verkefni nýrrar stjórnar, þegar hún tók við í febrúar 2015, að ráða bót á þeim. Við lögðum upp með nokkur markmið:
Í fyrsta lagi langaði okkur að koma upp rafrænum gagnagrunni um ís- og alpaklifurleiðir á Íslandi, enda er það eitt af hlutverkum Alpaklúbbsins að halda utan um og varðveita sögu fjallamennsku á Íslandi. Í stað þess að finna upp hjólið var valin sú farsæla lausn að byggja síðu í samstarfi við Klifur.is, en þar má nú þegar finna leiðarvísi um klettaklifur á Íslandi. Nú þegar hafa tæplega 400 leiðir verið skráðar í gagnagrunn ÍSALP og ljóst að aðgengi að leiðaupplýsingum er orðið betra en nokkru sinni fyrr. Nú er einnig komið haldreipi fyrir ráðvillta erlenda klifrara sem eiga í vandræðum með að hafa upp á ársriti Alpaklúbbsins frá 1988 til að skoða leiðaúrvalið í Skarðsheiði o.s.frv.
Í öðru lagi bundum við vonir við að bjarga spjallþráðum af fyrri heimasíðum klúbbsins, enda mikilvæg heimild um starf klúbbsins og afrek klúbbfélaga í gegnum árin. Þetta tókst og á síðunni er nú hægt að fletta í gegnum umræður Ísalpara allt frá árinu 2002. Að vísu vantar enn umræðuna tvö síðastliðin ár, en með svolítilli handavinnu mætti bjarga henni fyrir horn. Með því að smella á stækkunarglerið á forsíðunni er hægt að leita í spjallinu.
Ný innlegg birtast á forsíðu síðunnar og á það bæði við um fréttir/tilkynningar og þegar ný leið eða klifursvæði eru skráð í gagnagrunninn. Hugmyndin á bak við það er að halda forsíðunni lifandi og að fljótlegt sé að sjá hvort eitthvað nýtt sé að „frétta“.
Frábær nýjung er dálkurinn „Nýjustu aðstæður“, en þar er komin góð og fljótleg leið til að miðla fréttum af ísklifuraðstæðum innan klúbbsins. Fréttir af aðstæðum eru skráðar sem athugasemd við tiltekna leið og birtist hún þá í aðstæðudálknum á forsíðunni. Við settum inn nokkur dæmi til glöggvunar. Dálkurinn er dálítið furðulegur eins og er, en það verður lagað!
Heimasíðuna er bæði hægt að hafa á íslensku og ensku. Skipt er á milli tungumála neðst á síðunni (í footernum). Til stendur að setja ársrit ÍSALP frá upphafi inn á síðuna á .pdf formi. Sennilega verða þau höfð ókeypis og opin almenningi.
Síðuhönnuður er Jafet Bjarkar og kunnum við honum bestu þakkir fyrir gott samstarf.
Að endingu óskum við klúbbfélögum til hamingju með síðuna!
f.h. stjórnar, Helgi Egilsson, formaður ÍSALP.
Leiðbeiningar:
- Ef þú áttir aðgang að gömlu síðunni er hann vonandi til ennþá (einhverjir notendur týndust í spamhaug). Til að endurvekja aðganginn ferðu í Skrá inn og síðan Týnt lykilorð? og skráir inn netfangið þitt. Þá verður nýtt aðgangsorð sent á það netfang. Ef þú manst ekki hvaða netfang þú notaðir er hægt að finna út úr því með því að hafa samband við einhvern með admin aðgang, eða senda póst á stjorn hja isalp.is
- Nýir notendur fara í Skrá inn og Nýskráning.
- Til að skrifa inn á spjallið er farið í „+Nýtt“ efst á skjánum vinstra megin.
Frábærar fréttir! Mætti samt ekki vera með skráningu skíðaleiða líka?
Smári
Jú. Það væri frábært. Kannski við reynum að bæta því við í næstu lotu! Þetta var ágætispakki til að byrja með.