Ísalp meðlimurinn Matteo Meucci hefur hafið verkefnið „Matteo’s 100 Challenge“. Verkefnið gengur út á það að hann ætlar að klifra 100 leiðir í vetur, ýmist ís-, mix- eða alpaklifur og svo ætlar hann að toppa verkið með því að hlaupa 100 km ultra maraþon næsta sumar.
Klifurhluta verkefnisins fylgja nokkrar reglur, eða viðmið sem Matteo setti:
1. Hann má ekki hafa klifrað leiðina áður, hún verður að vera ný fyrir honum.
2. Hver leið telur bara einu sinni, það má ekki klifra sömu leiðina oft.
3. Eins mikið af frumferðum, FF (e. First accent FA) og mögulegt er.
Matteo ákvað að ráðast í þetta verkefni í tilefni af því að hann verður fertugur núna í byrjun árs 2017 og er þetta hans leið til að halda afmælisveislu og að sýna að þó að hann sé að eldast, þá er það engin hindrun þegar kemur að klifri, hlaupum og almennri hreyfingu.
Ísalp ætlar að styðja við bakið á Matteo í þessu verkefni, ásamt öðrum samtökum og fyrirtækjum.
Viðtal við Matteo má lesa á heimasíðu Íslenskra fjallaleiðsögumanna
Í vetur má fylgjast með verkefninu á instagam undir myllumerkinu #rockicerun