Upp á síðkastið virðist það hafa færst í aukana að klifrarar verði varir við nýja múrbolta af ýmsum toga á ótrúlegustu stöðum, oftar en ekki boltar sem hafa engan augljósan tilgang. Ekki er nóg með það að þessir boltar eru villandi og síður en svo öruggir í öllum tilfellum, heldur eiga þeir líka til að finnast á svæðum þar sem boltun er óheimil. Þ.a.l. viljum við koma eftirfarandi áherslum á framfæri, og fara fram á að fólk kynni sér rétt og vönduð vinnubrögð við uppsetningu klifurleiða og almenna boltun í náttúru Íslands:
- Fá leyfi hjá landeigendum/hagsmunaaðilum! Sama hver tilgangur boltunar er, eru það óhjákvæmilega landeigendur sem eiga síðasta orðið um boltun á þeirra landi (hvort sem landeigendur eru ríkið eða einkaaðilar). Því er nauðsynlegt að öðlast tilskilin leyfi áður en lagt er í að bora fyrir boltum.
- Þó svo að tiltekið svæði sé þegar boltað (t.d. sportklifursvæði) þýðir það ekki að enn sé leyfi fyrir að reka inn fleiri bolta, og þarf því að ganga úr skugga um að slíkt sé enn leyfilegt.
- Stranglega bannað er að bolta á friðlýstum svæðum, nema skírt leyfi hafi verið fengið fyrir boltun á slíku svæði.
- Á sumum svæðum er almennt samþykki um að halda boltalausum (t.d. Stardalur og Gerðuberg) og verða því allir boltar fjarlægðir fyrirvara- og undantekningalaust nema breyting hafi orðið á slíku samkomulagi.
- Þekkja og hafa reynslu af öruggri boltun! Margskonar vinnubrögð, misörugg, þekkjast við boltun í ýmsum tilgangi, og nauðsynlegt er að fólk kynni sér RÉTT og VÖNDUÐ vinnubrögð, sér í lagi á svæðum þar sem fólk gæti í gáleysi reitt sig á tryggingar í öðrum tilgangi en þær voru settar upp fyrir. Greinargóðar leiðbeiningar og siðferðisreglur við boltun í íslensku bergi má finna í viðamikilli grein Jóns Viðars Sigurðssonar frá 2012, sem hægt er að nálgast á PDF formi með eftirfarandi tengli, og mælum við eindregið með að allir sem hafa hug á að bolta hérlendis kynni sér hann sem og að öðlast reynslu frá reyndum leiðasmiðum: https://klifurhusid.is/wp-content/uploads/2012/04/Boltun-klifurlei%C3%B0a.pdf
- Ekki reka inn bolta sem hafa áhrif á þegar uppsettar klifurleiðir! Aðeins ætti að bolta í námunda við klifurleiðir ef tilgangur þess er að auka öryggi í þeirri klifurleið, t.d. ef skipta þarf út gömlum boltum (að sjálfsögðu í samráði við frumfarendur eða umsjónafólk). Annað getur verið villandi, verið klifrurum til vandræða og jafnvel skapað hættu ef slíkt er ekki vel ígrundað.
- Er nauðsynlegt að koma fyrir varanlegum tryggingum? Oft er nóg í boði af öruggum náttúrulegum tryggingum sem gera boltun óþarfa. Á þetta sérstaklega við á svæðum þar sem dótaklifur er stundað, og oftar en ekki er mjög óvinsælt meðal klifrara að leiðir séu boltaðar sem eru auðtryggðar á öruggan hátt með náttúrulegum tryggingum. Sömuleiðis er ekki í lagi að bolta klifurleiðir sem þegar hafa verið klifraðar með slíkum tryggingum, nema frumfarendur hafa gefið leyfi fyrir slíku.
Annars vonum við að sumarið hefur nýst klifrurum vel, og er frábært að sjá allar þær nýju og gömlu leiðir sem settar eru upp og haldið við á víð og dreif um landið. Það er einmitt ástæða þess að við viljum áfram sjá góð vinnubrögð og halda öllum á góðu nótunum, svo við getum haldið áfram á sömu braut í framtíðinni 😉