Bláfjöll 2012-13

Home Umræður Umræður Skíði og bretti Bláfjöll 2012-13

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #58144
    0801667969
    Meðlimur

    Sunnudagur 27 jan kl 1300

    Það var fróðlegt að fara um Fjallið í morgun. Allur fíni púðursnjórinn er að mestu kominn í gríðar stóra harðpakkaða skafla þar sem hann hefur fundið eitthvað skjól í veðurofsanum. Drottningargilið var t.a.m. óþekkjanlegt frá deginum áður. Orðið að þröngu djúpu gili með stórri hengju í norðurbarminum. Það er þó eitthvað af lausu efni í SV hlíðum og dældum í skjóli.

    Allur þessi efnisflutningur og flekamyndun kallar á varkárni í vesturhlíðum.

    Þessi rólegheitar norðanátt sem vonast var eftir lætur eitthvað á sér standa. Spám ber illa saman og ég hef á tilfinningunni að þetta haldi áfram að verða austanstæð átt með tilheyrandi leiðindum. Bæði fyrir skíðafólk og ísklifrara sem bíða eftir meiri kulda.

    En þrátt fyrir allt þá er snjórinn merkileg efni sem gaman er að fylgjast með ekki síst í rysjóttu tíðarfari. Og veturinn er nú rétt að byrja.

    Kv. Árni Alf.

    #58148
    0801667969
    Meðlimur

    Miðvikudagur 30 jan 2013 kl:11:00

    Er að verða alltof sannspár. Það lagðist í austan átt sem gerir opnun hér nánast ómögulega. Alveg sama hvað vindur á láglendi er lítill. Opnuðum hér á mánudaginn í hálfgerðu skítviðri, bálhvassri norðanátt, með það upp á vasann að það myndi lægja þegar liði á daginn. Öllum spám bar saman um það.

    Þess í stað tók að snjóa og bætti í vind þegar leið á daginn. Auk þess að snúast í austlægari átt. Endaði með því að ekki ein einasta lyfta gekk. Lokuðum því rétt fyrir kvöldmat í arfavitlausu veðri.

    Í gær var hér bálhvasst en það merkilega gerðist að það sá til sólar um kaffileytið. Fór því í smá rúnt í gullfallegu veðri, lágarenningi og miklum lausum snjó norðan við skíðasvæðið. Skoðaði leifar snjóflóða sem hafa að líkindum fallið s.l. fimmtudag. Sum hver ansi mikil sem ná vel niður á sléttlendið þarna. A.m.k. gullfallegt um að litast þegar sólin lætur sjá sig.

    Spurning hvort það sé ekki skynsamlegra að færa sig í Skálafellið meðan þessi austan belgingur ræður ríkjum. Sjáum hvað setur.

    Kv. Árni Alf.

    #58152
    0801667969
    Meðlimur

    Föstudagur 1. feb. 2013 kl: 15:00

    Gengur hér á með dálitlum éljum. Dálítill strekkingur að austan uppi á Fjalli. Búin að vera talsverð snjóblinda en sést til sólar þessa stundina.

    Færið er fínt í brautum en utanbrautarfærið er eriðara. Vindskafið dót með alls konar ívafi. Hér var ágætis dagur í gær, bjart, hægviðri og færi í brautum fínt.

    Spáin segir að það hvessi duglega með kvöldinu. Illviðri af austri í nótt og framan af degi á morgun.

    Kv. Árni Alf.

    #58154
    0801667969
    Meðlimur

    Sunnudagur 3 feb. kl: 9:00

    Hérna er bjartviðri og suðvestan gola. Hérna var blindbylur af suðvestri/vestri í nótt og fram á morgun. Mestallan lausan snjó hefur því tekið úr Fjallinu. Hann má hins vegar finna í norður og austurhlíðum sem frekar lítið er af á svæðinu. Þannig er utanbrautarfærið ekkert sérstaklega spennandi.

    Þar sem snjór safnast fyrir falla gjarnan snjóflóð. Þannig hafa tvö snjóflóð fallið í Elborgargilinu sennilega í nótt enda safnast snjór þar ágætlega í þessari átt.

    Annars verður líklega komin hér blindbylur um tvöleytið ef eitthvað er að marka spár. Lokum því líklega snemma.

    Kv. Árni Alf.

    Update kl: 14:30

    Komin svarta bylur og búið að loka öllu.

    #58159
    0801667969
    Meðlimur

    Þriðjudagur 5 feb. 2013 kl: 13:30

    Hér er léttskýjað, smá norðan gola og fimm stiga frost. Fallegt að litast um eftir norðvestan hretið í gær. Hekla, Eyjafjallajökull og Skjaldbreiður eru þarna í dálítilli fjarlægð. Svo er að sjá að talsvert hvasst sé á Eyjafjallajökli og Heklu. Einhverjar strókar frá þessum fjöllum. Kannski tómt rugl í mér. Kannski sé bara farið að gjósa enn eina ferðina.

    Hér er allt talsvert vindbarið og utanbrautafæri eftir því. Það hefur bætt talsvert mikið í snjó hér svo varla er hægt að kvarta. Eðal færi í troðnum brautum.

    Suðaustan gjólu spáð á morgun svo það er um að gera að nýta daginn. Hvort sem menn fara á skíði eða gera eitthvað annað á fjöllum.

    Kv. Árni Alf.

    #58163
    0801667969
    Meðlimur

    Fimmtudagur 7 feb. 2013 kl: 12:30

    Hér var suðaustan strekkingur í gær sem versnaði þegar á daginn leið með talsverðri snjókomu. Fórum í Skálafellið um fjögur leytið. Þar var logn og því keyrðar æfingar þar um kvöldið í frábæru veðri og færi.

    Í nótt og morgun hefur sett niður mikið púður í hægri sunnan átt. Skíðafærið því ansi gott. Nú er komin hér vestan átt með gullfallegu veðri inn á milli élja.

    Gallinn er sá að hún er það mikil að hún rífur púðrið úr Fjallinu með gríðarlegu kófi upp á Öxl. Þegar kófið minnkar getum við væntanlega opnað Fjallið.

    Kóngsgilið verður ekki troðið vegna tímaskorts svo það ætti að verða eitthvað eftir af púðrinu, líka í troðnum leiðum.

    Spáð suðaustan slagveðri með hlýindum næstu tvo daga svo það er um að gera að nota daginn.

    Kv. Árni Alf.

    #58174
    0801667969
    Meðlimur

    Mánudagur 11 feb. 2011 kl: 17:30

    Allur krapablámi helgarinnar horfinn og farið að frysta. Hér er opið en búin að vera leiðinda snjóblinda og grámyglulegt í mestallan dag. Reikna með að utanbrautarfærið sé ekkert merkilegt enda lítið snjóað og ég hálf skíðalaus eftir að fór að frysta.

    Kv. Árni Alf.

    #58178
    0801667969
    Meðlimur

    Þriðjudagur 12 feb. 2012 kl: 17:00

    Fékk áminningu frá Kalla Ingólfs rétt áðan að hafa ekki uppfært „heimasíðuna“. Hér hefur verið heiðríkja, nánast logn og tveggja stiga frost þar sem sólbráðar nýtur ekki.

    Færið í brautum alveg hreint eðal og utanbrautar er þetta bara þokkalegt. Ekkert púður en smá föl ofan á ekki svo hörðu lagi. A.m.k. margir búnir að vera utan brautar það sem af er degi.

    Gönguskíðabraut liggur nú út á Heiði og inn í Kerlingardalinn ca. 10 km.

    Nú þegar sólin lækkar flugið herðir frostið sem er bara besta mál. Lofa alls ekki eins fallegum degi á morgun.

    Kv. Árni Alf.

    #58182
    0801667969
    Meðlimur

    Miðvikudagur 13 feb 2013 kl. 15:00

    Aldeilis orðið fallegt veðrið. Nánast dottið í logn og sólin vermir hér allt upp. Dimmt yfir í austri en bjart í vestri.

    Fjandi gott færi í brautum. Góðir skíðamenn fara létt með færið utan brauta.

    Mæli með gönguskíðabrautinni út á Heiði.

    Kv. Árni Alf.

    #58185
    0801667969
    Meðlimur

    Fimmtudagur 14 feb 2013 kl: 13:30

    Er að létta til. Gullfallegt veður. Logn, frost tvö stig, þar sem sólbráðar nýtur ekki. Dimmt yfir í austri, bjart í vestri. Skýjabakkinn er að hopa austur á bóginn.

    Frábært færi í troðnum leiðum og alveg skíðandi utan brauta. Ekkert snjóað á okkur s.l. daga. Mjög margir mættir á gönguskíði uppúr hádegi. Göngusporið út á Heiði og inn í Dal lagt í morgun.

    Lítur út fyrir góðan útivistardag. Einhverjar blikur á lofti hvað veðrið varðar næstu daga. Endilega nýta daginn. Er meðan er.

    Kv. Árni Alf.

    #58189
    0801667969
    Meðlimur

    Föstudagur 15 feb 2013 kl: 14:00

    Stekkingur af norðaustri. Bætir líklega í frekar en hitt þegar líður á daginn. Hætt við að brekkurnar ofan til í Fjallinu verði orðnar glerjaðar þegar líður á daginn. Allt fína efnið fýkur burtu og eftir situr klakinn.

    Annars er bjart yfir og gott skyggni til allra átta og bara hressandi að fá smá gjólu í andlitið.

    Að venju voru ýmsar kempur ungar og gamlar mættar á gönguskíði hér snemma í morgun. Býsna mikil gróska í göngkuskíðamennsku bæði í og utan brauta. Sumir eru að hita upp fyrir gönguskíðaferðir vetrar- og vorsins.

    Kv. Árni Alf.

    #58190
    0801667969
    Meðlimur

    Laugardagur 16 feb. 2013 kl: 11:00

    Hér er skýjað og austan strekkingur sem á að færast í aukana uppúr hádegi. Annars er hér ágætis færi.

    Gaman að skoða myndavélarnar á heimasíðunni „skidasvaedi.is“ og bera saman svæðin. Í Skálafelli er heiðskýrt, sól og austan 2m/s. Í Bláfjöllum er austan 9m/s og skýjað. Þetta er svona dæmigerður Skálafellsdagur.

    Framundan er svo suðaustan slagveður a.m.k. út næstu viku ef eitthvað er að marka spár.

    Kv. Árni Alf.

    #58191
    0801667969
    Meðlimur

    Sunnudagur 17 feb 2013 kl:08:30

    Rættist úr deginum í gær. Létti til og varð úr bara nokkuð fallegur dagur.

    Ánægjulegt að sjá hversu þéttsetnar barna-og byrjendalyftur, ásamt töfrateppi hafa verið undanfarna daga. Aldrei áður man ég eftir að fólk hafi verið að mæta með börn og byrjendur í miðri viku og að kvöldlagi í svona miklum mæli.

    Kannski tíðarfarið hafi hér eitthvað að segja. Fólk loks farið að átta sig á að það verður að nota þá fáu daga sem gefast?

    Ekki skýrir töfrateppið eitt og sér þessa aukningu eða hvað?

    Annars byrjaði ekki að snjóa að ráði hér fyrr en um sexleytið í morgun. Hviður alveg upp í 30 m/s. A.m.k. kominn svarta bylur. Hlýnar og lægir seinni partinn. Ágætt að huga að snjóflóðahættu.

    Annars verður vikan votviðra og vindasöm. Nægur snjór á lager. Þetta er nú einu sinni Ísland.

    Kv. Árni Alf.

    #58216
    0801667969
    Meðlimur

    Þriðjudagur 5 mars kl: 10:00

    Eftir óvenju langvinna og mikla hláku, tveggja vikna látlaust austan hvassviðri og mjög mikla rigningu þá slotaði þessu s.l. laugardag. Á sunnudeginum var unnið í ýtingum og í gærmorgun voru helstu skíðaleiðir tilbúnar til opnunar.

    En það er farið úr öskunni í eldinn. Í stað suðaustan slagveðurs var komin brjáluð norðanátt með fimbulkulda. Núna er hér 13 stiga frost og fer í hviðum yfir 20 m/s. Dálítið kuldalegt.

    Í dag verður keyrt snjó í barnabrekkurnar kringum skálann. Svona til að fullkomna þetta.

    Á morgun er spáð snarvitlausu veðri af NA. Kosturinn er að það er einhver snjókoma í þessu.

    En í stuttu máli. Fjallið er tilbúið og bíður þess að verða opnað þegar veður leyfir. Fimmtudagurinn lítur þokkalega út.

    Ekki hefur verið unnið í göngubrautinni en hún ætti að komast inn fljótlega.

    Kv. Árni Alf.

    #58228
    0801667969
    Meðlimur

    Mánudagur 11 mars 2013

    Náðum loks að opna í gær eftir vikulangt rok úr ýmsum áttum. Hart færi í troðnum brautum. Reyndar er þetta frábært færi svona fyrsta klukkutímann. Svo skíðast þetta niður og verður glerhart.

    Utanbrauta er víða glerhart og leiðinlegt þó finna megi lænur með mjúkum snjó þó ekki sé hann skemmtilegur nema í sólbráðinni.

    Annars mæli ég með göngubrautinni. Frábært í þessu fína veðri.

    Kv. Árni Alf.

    #58233
    0801667969
    Meðlimur

    Miðvikudagur 13 mars 2013 kl:13:00

    Himneskt veður. Sól, stafalogn og nýsnævi yfir öllu. Sannarlega sólbrúnkuveður.

    Þetta nýsnævi er nú bara örþunnt lag sem lagar „lúkkið“ á Fjallinu.

    Færi í troðnum brautum er örlítið blautt og mjúkt, vorkennt, sem er bara besta mál. Utan brauta er ekki jafn hart og var en samt ekkert til að elstast við.

    Í svona dásemdarveðri er fátt betra en renna sér í göngubrautina og fara út á Heiði og inn í Kerlingardal.

    Kv. Árni Alf.

    #58234
    0801667969
    Meðlimur

    Fimmtudagur 14 mars kl: 14:00

    Snjóaði talsvert í nótt og morgun og jafnfallið púður yfir öllu Fjallinu. Það hefur því snjóað yfir móa og mela. Rosalega fallegt að sjá en þetta er bölvaður svikasnjór. Stórvarasamt færi. Hins vegar er helvíti gott utanbrautarfæri.

    Stóra málið er bara að vita hvar er örugglega snjór undir í þessu eðalfæri. Kringum Kónginn er alveg öruggt niður að staur 7. Þá er best að byrja að sveigja út í Kóngsgilið.

    Eingöngu Norðurleiðin var troðin í morgun svo það er fínt púðurfæri í öllum öðrum leiðum.

    Búið að vera blint í morgun og snjóað talsvert en eitthvað er að birta. Gullfallegt og gott veður þegar sólin nær að smeygja sér í gegn. Stafalogn.

    Ef menn ætla að nýta púðrið borgar sig að mæta fyrr en seinna. Annars eru bestu aðstæðurnar ofan við Suðurgil. Smá rúntur alltaf að koma sér út í Kóng aftur.

    Engin göngubraut lögð í dag. Bilaður troðari.

    Kv. Árni Alf.

    #58238
    0801667969
    Meðlimur

    Föstudagur 15 mars 2013 kl:12:30

    Bongóblíða. Færið enn fjandi gott og fjári fallegt á fjöllum. Troðarinn kominn í lag og göngubrautin komin inn.

    Kv. Árni Alf.

    #58242
    0801667969
    Meðlimur

    Mánudagur 18 mars 2013 kl: 10:45

    Það er enn sama rjómblíðan. Frostið átta stig og því talsvert hlýrra en verið hefur. Góðri helgi lokið með góðri aðsókn, sérstaklega barna og byrjenda.

    Það er mikið af nýliðum í skíðamennskunni þennan veturinn. Mestu raðirnar eru í barnalyftunum. Svona akkilesarhæll Bláfjalla þennan veturinn. Veit bara á gott.

    Ótrúlega mikið af ævagömlum búnaði í umferð og lífleg viðskipti með notaðan búnað heyrir maður. Auðvitað kaupir fólk notaðan búnað þegar það er að byrja. Ekki fyrir hvítan mann að kaupa nýtt.

    Annars hefur utanbrautarfærið verið ævintýralega gott alveg frá því snjóaði á fimmtudeginum. Best geymda leyndarmál Bláfjalla í dag er Eldborgarvæðið. Þar er óskíðað púður og hvergi grjót undir. Ekki til mannskapur til að keyra lyftuna þar svo menn verða að ganga upp.

    Þetta er væntanlega síðasti dagur í púðri í bili því það hvessir í nótt. Þetta breytist fljótt í vindbarinn fleka. Endilega nota síðasta uber góða daginn í bili.

    Kv. Árni Alf.

    #58265
    0801667969
    Meðlimur

    Föstudagurinn Langi 29 mars 2013 kl: 8:30

    Hér hefur snjóað talsvert s.l. tvo sólarhringa. Utanbrautar/og brettafæri er því orðið flott á nýjan leik.

    Þessa stundina er fínt veður en það gæti gert dimm él í dag.

    Í gær ekki hægt að keyra stólalyftu og var svæðið því kringum skála eingöngu opið.

    Merkilegt nokk þá hefur þetta ekki verið gert áður.

    Mikill fjöldi fólks lét sjá sig og allir skemmtu sér vel í misgóðu veðri.

    Vara menn við snjóflóðahættu í vestur- og norðurhlíðum.

    Kv. Árni Alf.

    #58269
    0801667969
    Meðlimur

    Miðvikudagur 3 apríl 2013 kl:10:00

    Jæja. Nú skín sól í heiði. Veðrið alveg hreint dásamlegt. Það er komið vor í þetta.

    Hér tókst að hafa opið alla páskana, þeim lang fjölmennustu sem ég man eftir. Þrátt fyrir rysjótt veður.

    Það frystir á nóttinni en fer vel yfir frostmarkið yfir daginn. Sólbráðin er orðin býsna öflug. Utanbrautarfæri er því fjári gott seinni part dags.

    Kv. Árni Alf.

    #58279
    0801667969
    Meðlimur

    Laugardagur 6 apríl 2013 kl: 10:00

    Það er kominn bullandi vetur í þetta allt saman aftur. Hér snjóaði drjúgt í gærdag og nótt. Hér er núna þriggja stiga frost, smá ofankoma og það skefur duglega upp á Fjalli. Skyggni frekar takmarkað svo þetta er svo sem ekkert spennandi í dag.

    Fyrr í vikunni sáu menn hér furðulegt fyrirbæri. Snemmmorguns þá snjóaði í smá hita, gerði svonefnda hundslappadrífu (mjög stórar blautar snjóflyksur) í logni sem myndaði þunnt snjólag. Það er svo sem ekki í frásögur færandi. Svo tók að gjóla sæmilega. Þá byrjuðu að myndast litlir boltar sem rúlluðu hér niður skíðaleiðir og stækkuðu og stækkuðu á leiðinni niður. Þeir stærstu svona metri í þvermál. Hálf óhuggulegt að fá Fjallið rúllandi á móti sér. Það mátti hins vegar berja hendinni í gegnum þetta án þess að finna fyrir neinu. Sem sagt mestmegnis loft. Veit einhver hvað svona fyrirbæri heitir?

    Kv. Árni Alf.

    #58280
    Sissi
    Moderator

    Skemmtilegt, takk fyrir að smella alltaf inn þessum frábæru póstum hérna.

    Veðurstofan er með pistil um þetta fyrirbæri, ekkert sérstakt nafn samt. Spurning um að þú skírir þetta bara?

    http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1477

23 umræða - 26 til 48 (af 48)
  • You must be logged in to reply to this topic.