Suðurhlíð og SA-hryggur Snóks
Af bröttu smátindunum í Esjufjöllum er Snókur (1304 m) mest áberandi. Nafnið er dregið af efsta hluta stafntrés í báti.
Árið 1980 reyndu nokkrir félagar í Ísalp að klífa Snók að sumarlagi, en urðu frá að hverfa, einkum vegna lélegs bergs. “Eins og myglað brauð”, sögðu þeir.
Á páskum 1982 tóku sex félagar í Ísalp sig til og ákváðu að reyna við Snók. Þeir höfðu bækistöðvar í sálum Jöklarannsóknarfélagsins á Breiðamerkursandi og í Esjufjöllum.
Klifurleiðin lá frá stórum kletti fyrir miðri suðurhlíðinni, á ská (80 m) til vinstri upp að mjóum drang eftir brattri snjóbrekku. Þaðan tryggði hópurinn (í tveimur línugengjum) tvær spannir; þá fyrri aftur á ská upp en nú til hægri (50° ísbrekka), yfir að ísfláa við SA-hrygginn. Seinni spönnin var með lágum íshöftum á sjálfum hryggnum og nægu lofti til beggja handa. Síðasti áfanginn (spönnin) var auðveld ganga upp breikkandi koll Snóks.
Sigið var beint fram af suðurvanga Snóks og klifið snarbratt áfram að klettinum stóra og eitt snjóakkeri goldið fyrir. Í skálanum biðu páskaegg og koníaksdreitill eftir 7 klukkustunda dagsferð.
Hæð leiðar: 100 m (80 m)
Aðkoma: Um Breiðarmerkurjökul og Vesturdal, alls um 10 klst. á jökli.
Klifurtími: 1,5-2 klst.
Gráða: PD, 2(snjór/ís), 3 spannir
Fyrst farin: Páskar 1982, Anna Guðrún Líndal, Ari Trausti Guðmundsson, Hreinn Magnússon, Höskuldur Gylfason, Magnús Guðmundsson og Óskar Knudsen.
Crag | Öræfajökull |
Sector | Esjufjöll |
Type | Alpine |
Markings |