Humarkló

Mynd: Sigurður Hrafn Stefnisson

Leið upp á Humarkló í Heinabergsfjöllum.

Aðal erfiðleikarnir felast í seinustu 10m eða svo. Ca 5.8 en í lausu bergi þar sem erfitt er að vita hverju á að treysta.

FF: Björgvin Richardsson, Guðni Bridde og Valdimar Harðarson, júní 1991

 

HUMARKLÓIN – Eftir Björgvi Richardsson

Tæpum tveim mánuðum eftir að við stóðum saman á tindi Karlsins var stefnan aftur sett á óklifin tind. Að þessu sinni var það Humarklóin í Heinabergsfjöllum sem varð fyrir valinu. Heinabergsfjöll eru austan Skálafellsjökuls í suðaustanverðum Vatnajökli og blasa við frá Höfn í Hornafirði í norðvestri. Um tindinn vissum við lítið, höfðum aðeins séð af honum óljósa mynd. Við vissum hvar hann var á landakortinu. En við vissum að hann var óklifinn. Það var nóg.


Föstudagskvöldið 21. júní héldu fimm jeppar af stað úr Reykjavík. Við vorum níu alls, allt félagar í hjálparsveitinni utan ljósmyndararnir Sigurður og Hekla. Á Skálafellsjökli voru skíðamennirnir hengdir aftan í bílana og síðan ekið sem leið lá inn jökul. Það voru þokuslæður meðfram fjöllunum sem skiptu okkur svo sem ekki miklu máli þar sem leiðin var föst inni í tækjunum og því ekið eftir tölvuleiknum. En á útsýnisstaðnum okkar á brún Kálfafellsdals var líka skýjað og það var miklu verra mál. En það var hvort eð er komið kvöld í þetta. Eins gott að sofa og sjá hvort morgunsólin myndi ekki fæla þessar skýjadræsur á brott.

Fagur morgunn og allir dolfallnir yfir útsýninu að vanda. Það er sama hvað maður kemur oft þarna, aldrei er nóg starað. Nú voru jepparnir orðnir fjórir en ferðalangarnir jafn margir. Leiðin lá upp á Breiðubungu, ég þóttist viss um að þaðan mætti finna færa leið niður að Humarklónni. Ekki vissum við til þess að nokkur hefði farið þessa leið áður. Það hafði verið reynt við Humarklóna áður, en þá höfðu menn komið gangandi að henni neðan frá. Þar sem við vorum búnir að uppgötva kosti jeppanna sem burðardýra, vildum við sjá hversu langt við kæmumst þarna megin frá. Ekki það að skíðin voru með ef allt þryti. Við vorum ofar skýjum sem fylltu dalina alveg upp í tólf hundruð metra hæð. Framundan var slétt snjóbreiðan og síðan að fikra sig niður með tindum og hnjúkum að Humarklónni. Valdimar Harðarson var að venju með í för og lýsir þessum hluta leiðarinnar þannig:

Þarna vorum við stödd, í veðri eins og það gerist best, skýjum ofar á Vatnajökli og þeystum áfram á meðan þeir sem voru niðri á jafnsléttu fengu að húka í rigningu. En gamanið stóð ekki lengi því skömmu síðar keyrðum við aftur niður í þokuna. Þegar ekið er á jökli sem þessum felst aðalhættan í sprungum sem leynast undir snjónum. Eftir stuttan akstur í þokunni komum við inn á sprungusvæði. Björgvin, sem er manna reyndastur í akstri við þessi skilyrði, var á öflugasta bílnum og fór hann fyrstur. Fór hann létt með að leiða okkur í gegnum svæðið og stuttu seinna vorum við aftur komin á lygnan sjó…En þá blasti við okkur annað vandamál. Framundan var þrjú hundruð metra löng brekka og það töluvert brött. Aftur fór Björgvin á undan til að troða slóð og ekki var þess lengi að bíða að hann hyrfi inn í þokuna. Þarna tók einn bíllinn upp á því að bila svo nauðsynlegt reyndist að skilja hann eftir þar til við kæmum til baka. Hinir tveir bílarnir siluðust hægt upp brekkuna en skyndilega heyrðist í talstöðinni “ég er búinn að finna hana.” Það var Björgvin sem var kominn upp úr skýjunum og að Humarklónni.
“Er hún kleif” kallaði ég á móti.
“Bíddu bara þangað til þú sérð hana.”
Það fyrsta sem ég sagði þegar ég kom upp úr þokunni og sá tröllasmíðina var “Glætan”.

Aldrei þessu vant hafði kortið verið rétt. Ég hafði fundið leiðina að Humarklónni með því að fylgja því sem mér fannst líklegasta leiðin samkvæmt korti, með aðstoð Loransins. Í svarta þoku, á slóðum sem maður hafði aldrei komið á áður og enginn farið á vélknúnu ökutæki, hefði engan undrað þó eitthvað hefði valdið því að ekki fyndist fær leið allt að Humarklónni. En þar sem við stóðum á brúninni norðan tindsins og horfðum yfir að honum, gátum við ekki annað en verið dolfallin yfir þessari náttúrusmíð. Tindar Humarklóarinnar eru í raun þrír, sá hæsti sem er í miðið stendur stollta áttatíu metra yfir jöklinum í kring. Hinir tveir eru talsvert lægri, en allir eru þeir samtengdir með háum og bröttum skörðum. Að vanda er bergið móberg, en það sem gerir Humarklóna sérstaka, er stuðlabergsgangur sem gengur í gegnum hana miðja. Er gangurinn heldur veðraðri en móbergið og myndar skoru sem nær til toppsins og klífur hann í tvennt. Myndast þar eins og kló á humri sem er einnkennismerki tindsins og skýring á nafngiftinni sem rakin er til danskra mælingamanna.

Við vorum sammála um það félagarnir að tindurinn væri óárennilegur. Í besta falli nokkurra daga verkefni. En það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem mönnum lýst illa á verkefnin fyrirfram, en komast svo að raun um annað þegar á reynir. Við ákváðum allavega að reyna. Ég þjösnaði bílnum yfir nokkrar sprungur í viðbót og bakkaði svo eftir skafhrygg upp að Humarklónni. Nær en í þrjátíu metra fjarlægð var ekki hægt að komast, en strákarnir sættu sig við það. Með okkur Valda ætlaði Guðni Bridde að klifra að þessu sinni. Við röltum að veggnum þar sem gangurinn byrjar í honum að austanverðunni. Valdi reyndi sig við vegginn sem virtist vera kleifur. Eftir svona hálftíma sáum við hinsvegar að þetta myndi taka mun meira en daginn. Guðni reyndi næst við hrygginn að sunnanverðu en varð frá að snúa fljótlega. Ég var næstur í röðinni og ákvað að skoða tindinn betur áður en ég færi að klifra. Með því að brölta upp klettafláa og snjóskafla tókst mér á auðveldan hátt að komast upp í skarðið norðan við aðaltindinn. Það nær svo hátt að í raun var ég hálfnaður upp tindinn. Næstu metrar litu ekki illa út svo að ég fríklifraði tíu metrum ofar. Þetta virtist vera hægt. Það voru ekki nema þrjátíu metrar eftir á tindinn og með því að hliðra eftir syllu mátti komast að stuðlabergsganginum að vestanverðu, fara upp hann upp í klóna og þaðan á smá stöllum upp á topp.

Strákarnir komu fljótlega, þungir mjög af klifurbúnaði. Við settum inn nokkrar festur og ég hliðraði eftir syllunni. Þetta var allt frekar laust og hættulegt, en frekar auðvelt. Fljótlega komst ég inn í skoruna og strákarnir fylgdu á eftir. Nú var komið að þeim að leiða klifrið. Valdi fékk heiðurinn og eftir að hafa rutt yfir okkur nokkru magni af lausu bergi, var hann kominn efst í ganginn.

Þá tók við klifur í fúnu móberginu upp til vinstri þar til ég kom á stóra syllu austan megin á klónni, um tíu metra fyrir neðan hærri toppinn. Þar festi ég línuna tryggilega svo Guðni og Björgvin gætu komið upp eftir henni. Nú var aðeins eftir að klifra þessa síðustu tíu metra, en þeir voru þeim ókosti búnir að brattinn var um níutíu og þrjár til fimm gráður eða aðeins meira en lóðrétt. Fékk ég góðfúslegt leyfi félaga minna til að leiða þessa spönn og reyndist hún töluvert erfiðari en virtist í upphafi. Um fimmtán mínútum síðar stóð ég fyrstur manna á hæsta tindi Humarklóarinnar í Heinabergsfjöllum.

Við Guðni vorum snöggir upp til Valda. Toppurinn var sæmilega rúmgóður fyrir okkur þrjá, það var hægt að setjast niður og virða fyrir sér útsýnið. Við vorum í heiðskíru og mjög fallegu veðri, en aðeins hundrað metrum fyrir neðan okkur var hvít skýjabreiðan eins og álfahula yfir öllu umhverfinu. Við vissum að beggja vegna við tindinn voru skriðjöklar, en við sáum aðeins annað slagið niður til þeirra undir skýjabreiðuna er hún lyfti sér örkotsstund frá fjallshlíðunum. Sannkölluð fjallaveröld þar sem tindar fjallanna á hryggnum sem við vorum á og handan við næstu skriðjökla stóðu uppúr skýjunum og snjóbreiða Vatnajökuls að baki. Guðna tókst að troða löppinni inn í sprungu sem klauf tindinn að ofan þannig að við fengum ágætis tryggingu fyrir okkur þarna uppi. Ég stóð upp fyrir myndavélarnar, tyllti öðrum fæti á tindinn og stóð rólega upp. Tindurinn var mjög laus í sér og eingöngu pláss fyrir einn fót á hæsta steini. Þetta vakti lítinn fögnuð félaga minna, eitt feilspor og við blasti áttatíu metra fall án viðkomu niður í jökul. En myndirnar voru góðar, Siggi ljósmyndari kláraði víst hálfa filmu á meðan ég stóð upp.

Eftir frasann okkar Valda sigum við niður. Við komumst niður í tveim sigum, fyrst niður í skarðið á milli tindanna og síðan nánast beint niður í bíl. Allt gekk eins og í sögu, en degi var tekið að halla og mál að huga að næturstað. Það lá þó ekki fyrir okkur að setjast að strax, úr því að við vorum komin á Vatnajökul vildu menn nota ferðina og skoða meira. Við ókum því upp á Breiðubungu og síðan allt austur í Goðahnúka. Miðnætursólin sá til þess að halda okkur vakandi, síbreytileg rauðleit tilbrigði ljóss og skugga á mörgum fegurstu fjöllum landsins, Herðubreið, Kverkfjöll, Snæbreið og Goðahnúkar auk alls norðaustur hálendisins. Grillið var að sjálfsögðu sett upp og sverar steikur snæddar við komu í Goðahnúka. Fljótlega tók þó draumalandið við, suma dreymdi ófarna tinda en aðrir byltu sér með sólbrenndar axlir.

Heimferðin var jafn ljúf, það er fátt yndislegra en líða áfram á skíðum í sólskininu, áreynslulaust aftan í bílunum. Með öll þessi fjöll fyrir augum með síbreytilega ásjónu eftir sjónarhorni og sólargangi, getur fjallamaðurinn ekki annað en glaðst í hjarta sínu yfir mikilfengleika náttúrunnar. Og í góðra vina hópi er fátt sem hægt er að óska sér frekar. Varla nema von að erfitt sé að bíða eftir næstu ferð, hvert sem hún nú verður.

 

Crag Öræfi, Austur og Suðursveit
Sector Heinabergsfjöll
Type Alpine
Markings

3 related routes

Humarkló

Leið upp á Humarkló í Heinabergsfjöllum.

Aðal erfiðleikarnir felast í seinustu 10m eða svo. Ca 5.8 en í lausu bergi þar sem erfitt er að vita hverju á að treysta.

FF: Björgvin Richardsson, Guðni Bridde og Valdimar Harðarson, júní 1991

 

HUMARKLÓIN – Eftir Björgvi Richardsson

Tæpum tveim mánuðum eftir að við stóðum saman á tindi Karlsins var stefnan aftur sett á óklifin tind. Að þessu sinni var það Humarklóin í Heinabergsfjöllum sem varð fyrir valinu. Heinabergsfjöll eru austan Skálafellsjökuls í suðaustanverðum Vatnajökli og blasa við frá Höfn í Hornafirði í norðvestri. Um tindinn vissum við lítið, höfðum aðeins séð af honum óljósa mynd. Við vissum hvar hann var á landakortinu. En við vissum að hann var óklifinn. Það var nóg.

(more…)

Bólstaðafoss WI 4

Leið upp Bólstaðafoss í Heinabergsfjöllum, milli Heinabergsjökuls og Fláajökuls.

75m há leið sem er bröttust efst.

FF: Einar Rúnar Sigurðsson, Óskar Arason og Rory Harrison, 30. janúar 2019

 

Óvænta akkerið WI 3

Leið upp gil rétt vestanmegin við Bólstaðafoss, vestan við Fláajökul.

Möguleiki á mismunandi útgáfum í efri hluta, meðal annars strompur hægra megin í gilinu.

FF: Rory Harrison, 5. des 2018, WI 2 -3

Leave a Reply