Hraundrangi
Gefnir hafa verið út tveir leiðavísar um Hraundranga, annar er frá 1981 og birtist í 19. tölublaði af Ísalp tímaritinu en hinn er frá 2009 og birtist í ásriti sama ár.
Eina breytingin á milli þeirra er að árið 2007 bættist við vetrarleið sem liggur upp NV hrygg Hraundranga, en að öðru leiti er klassíska leiðin sú sama.
Tindurinn hefur líklega í upphafi verið nefndur Drangi og er enn kallaður Drangi Hörgárdalsmegin en hefur svo síðar meir verið kenndur við bæinn Hraun í Öxnárdal og þess vegna verið nefndur Hraundrangi en fjallið sjálft er kennt við Drangann og nefnist Drangafjall.
Einhverstaðar má sjá vísað til allrar drangaraðarinnar sem Hraundranga eða Hraundrangar nefndir í fleirtölu en þetta er rangt með farið, Hraundranginn er aðeins einn þó svo að það séu margir drangar á Drangafjalli, margir þeirra eru ónenfdir. Sjá hér.
Um tvær leiðir er að velja þegar gengið er upp að Hraundranga. Sunnan megin úr Öxnadal eða norðan megin úr Hörgárdal. Tveir fyrstu hóparnir sem fóru á Drangann gengu frá bænum Hrauni í Öxnadal, upp vesturhlíðar Einbúa yfir svokallaðan Stapa og upp skriðurnar í skarðið, sem lægst ber á hryggnum. Hæðamismunur á þessari leið er um 850 m og er áætlaður göngutími um 2-3 stundir.
Hin leiðin liggur frá bænum Staðabakka í Hörgárdal en göngubrú er yfir Hörgá, rétt fyrir neðan bæinn. Þegar komið er yfir brúna liggur ein samfelld brekka upp að Dranganum. Hæðamismunur er um 700 m, áætlaður göngutími er um 2-3 stundir.
Þegar komið er upp á brún austan við drangann er best að gera línur og annan klifurbúnað tilbúinn. Eitthvað er af gömlum fleygum í Dranganum en það eru sennilega bestu tryggingarnar sem hægt er að koma inn á leiðinni, bergið er mjög laust í sér alla leið!
Klifirið sjálft er um 70 m og er frekar létt framan af upp stóra gras og mosastalla en eftir um 25m klifur er komið að fyrri lykilkafla leiðarinnar, þar sem þarf að vanda hand og fótfestur. Á stallinum ofan við þennan kafla var millistans en hann var færður ofar þar sem að hann hélt ekki fleygum lengur. Rúmum 10 m hærra er komið að sæmilega traustu akkeri þar sem hægt er að gera millistans og tryggja upp.
Rétt áður en komið er upp á toppinn er komið að síðari lykilhreyfingu klifursins. Hér er bergið orðið nokkuð gott og þægilegt er að kom fyrir tryggingu áður en lagt er þar upp.
Toppakkerið er traust, sigkarabínur, slingar og vírar utan um stóra grjótblokk og þaðan er 2-3 m smáskrölt upp á blátoppinn. Best er að senda einn í einu upp síðustu metrana því það er þröngt og einmannalegt á toppnum.
Þægilegast er að síga niður í einu sigi á tveimur 70 m línum en einnig er hægt að síga í millistansinn og þaðan niður í skarðið.
FF: Finnur Eyjólfsson, Nicholas Clinch og Sigurður Waage, 05.08 1956
Hraundrangi átti 60 ára uppferðar afmæli árið 2016. Þá sló Sigurður Waage til og fékk sér sitt fyrsta tattú og var það af dranganum, Fékk það þó nokkuð mikla fjölmiðlaumfjöllun:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/04/fekk_sitt_fyrsta_hudflur_88_ara/
http://www.ruv.is/frett/fekk-ser-hudflur-i-tilefni-klifurafreks
http://www.visir.is/g/2016160809550/fagnar-afreki-med-tattui
Í frumferðinni tók gangan að Dranganum um þrjár klukkustundir, klifrið tók um sjö stundir. Þeir tryggðu alls 15 sinnum og það tók þá allt upp í hálftíma að komast eina hreyfingu. Eftir stutta viðdvöl á toppnum sigu þeir niður aftur og héldur til Akureyrar eftir alls 18 stunda ferð.
Næsta ferð upp á Drangann varð ekki fyrr en 1977, rúmum tveim áratugum seinna. Voru þar á ferðinni Helgi Benediktsson, Pétur Ásbjörnsson og Sigurður Baldursson. Klifrið sjálft tók þá um fimm tíma og ferðin sjálf um 13 stundir.
Uppferðasagan er vel skráð og varðveitt allt fram til 2010 en það var gert með gestabók sem lá í kassa á toppnum, ásamt Ísalp pela af malt viskí.
Klassíska leiðin er rauða punktalínan á hægri myndinni.
Crag | Hörgárdalur |
Sector | Hraundrangi |
Type | Alpine |
Markings |
Video