Kerling

Eftir stofnun Íslenska alpaklúbbsins var þessi drangi fyrsta frumferðin sem að var farin í nafni klúbbsins og um það birtist lítil fréttagrein í öðru tölublaði af Ísalp fréttabréfinu.

Þar segir: Kerlingin í Kerlingarfjöllum var klifin helgina 29.-30. október af Helga Benediktssyni, Arngrími Blöndahl og Arnóri Guðbjartssyni. Þeir voru rúma 5 tíma að klifra upp og lá við að þeir klifu í hring á leiðinni upp. Hæðin á Kerlingunni reyndist vera um 23m brekkumegin en nálægt 30m hinu megin. Hún er úr móbergi og hefur ekki verið klifin áður, að því að bezt er vitað. Þeir félagar skildu kræklóttan fleyg eftir uppi á toppnum.

Ári síðar var Kerlingin endurtekin og birtist á forsíðu sjöunda tölublaðs Ísalp fréttabréfsins.

Þar er klifrinu lýst aðeins nánar: Kerlingin er gerð úr þursabergi, sem er mjög laust í sér, og verða fleygafestur þar af leiðandi mjög ótryggar. Nauðsynlegt er að nota stiga við hluta klifursins, vegna þess, hve handfestur eru fáar og ótryggar.
Við byrjuðum á austurhlið klettsins, og var þar fyrir um 5 m hár veggur, þverhníptur. Fyrir ofan hann varð fyrir sylla, og fikruðum við okkur þaðan nokkra metra upp stalla , en fórum þó ávalt lítið eitt til hliðar, réttsælis. Þá varð fyrir okkur veggur ca. 70° brattur, en sléttur eins og sópað stofugólf. Rákum við þar tvo fleyga beint inn í steininn, en þeir voru ekki fastari en svo að þeir rétt héldu þyngd eins manns.
Þegar þessi veggur varð á enda, komumst við á gríðarmikla syllu í 20m hæð, en þar fyrir ofan var slúttandi veggur um 4-5 m hár, og var bergið í honum líkt og jökulruðningur, samþjöppuð möl, sem molnaði við hamarshögg. Þarna stöldrum við lengi við og reyndum árangurslaust að finna leið framhjá. Reyndum við marga fleyga þarna, en þeir bognuðu flestir. Að lokum komum við lengsta fleygnum okkar inn, reyndar svo kyrfilega, að erfiðlega gekk að losa hann síðar.
Eftir að þessi hindrun var yfirunnin, var greið leið upp á topp, en toppur klettsins er tvíklofinn, og kemst aðeins einn maður fyrir á þeim hærri í einu.

Frá 1977 og næsta áratuginn um það bil var mjög vinsælt að fara á Kerlingu. Eftirfarandi skopmynd birtist í 21. tölublaði Ísalp fréttaritsins.

FF: Helgi Benediktsson, Arngrímur Blöndahl og Arnór Guðbjartsson 30. október 1977

Klifursvæði Kerlingarfjöll
Svæði Kerling
Tegund Alpine

Kerlingarfjöll

Kerlingarfjöll eru fjallgarður á hálendi Íslands, nálægt Kili og mitt á milli Langjökuls og Hofsjökuls. Kerlingafjöll eru nefnd eftir dranga við Kerlingartind sem heitir Kerling.

Á Kerlingafjallasvæðinu er aðeins ein klifurleið þekkt, en það er á drangan Kerlingu.

 

Vegvísir WI 4+

Leiðin er vinstra megin á svæði 2

Vegvísir er níutíu metra IV-V gr. (IV+) ísfoss í botni Blikdals í Esjunni. Fossinn var klifraður i fjórum stuttum spönnum. Aðalerfiðleikarnir fólust í tveimur litlum Þökum og lengd leiðarinnar. Þegar fossinn er í góðu ástandi er hann með skemmtilegustu leiðum sem hægt er að klifra, segir Páll Sveinsson, annar þeirra sem leiðina fóru. Mestar líkur eru á að leiðin sé í góðu ástandi seinni hluta vetrar eftir snjólétt tímabil.

FF: April 1991, Páll Sveinsson og Guðmundur Helgi Christensen.

Leið n1 á mynd

 

Klifursvæði Esja
Svæði Blikdalur
Tegund Ice Climbing

Bland í poka

Leið 26, nákvæm staðsetning er óljós en þarna rétt til hægri eru rifin þrjú.

Blönduð klifurleið vestan við leið nr. 31 (Miðrif)  og vestasta rifið (30b). Alvarleg spönn þar sem brattur klettakafli er klifinn á þunnum mosa.

FF: Páll Sveinsson og Snævarr Guðmundsson 25.02. 1990, Gráða IV+, ís

Klifursvæði Esja
Svæði Búahamrar - Rifin
Tegund Alpine

Kannan WI 4

Leið merkt inn sem 11a

Leiðin liggur upp gil vinstra megin við leið nr. 12. (Lauganípugil vestara). Hún byrjar í stuttu 4. gr. íshafti, síðan tekur við snjóbrekka upp að stuttu 3. gr. klettahafti, að lokum tekur við snjógil upp á brún. Leiðin er um 200 metra löng.

FF: Haraldur Örn Ólafsson, Ingimundur Stefánsson og Stefán S. Smárason, febrúar 1990

Klifursvæði Esja
Svæði Vesturbrúnir
Tegund Ice Climbing

NA-hlíð Kirkjunar

Tindaborg (1695 m) er tindur sem skagar upp úr ísfallinu í Svínafellsjökli, mitt á milli Hvannadalshnúks og Hrútfjallstinda. Tindurinn er einnig þekktur sem Fjallkirkja eða Tröllkirkja á meðal fjallamanna. Þessi tindur er aðeins fær í vetraraðstæðum þegar að snjór og ís hafa myndast á Kirjunni. Oft duga þessar vetraraðstæður fram í maí en þegar að bergið er bert verður veggurinn ókleifur vegna þess hver lélegt bergið er í tindinum.

Aðkoman um Svínafellsjökul fer upp austan megin á honum, yfir skriðuna sem nú er komin á hann og upp austan megin við ísfallið, þar hafa einhver teymi tjaldað en vel gerlegt er að fara upp og niður á einum löngum degi. Stefnt er á vinstri (vestari) hlið Kirkjunar og farið norður fyrir.

Einnig er hægt að koma að Tindaborg frá Hvannadalshnúk, þá er gengið norður fyrir Hnúkinn og þaðan beint niður að Kirkjunni.

Þriðja leiðin að Kirkjunni er að fara frá Dyrhamri og vestur fyrir Hnúkinn.

Myndin hér að neðan sýnir leiðina frá Svínafellsjökli á Hvannadalshnúk með viðkomu við Kirkjuna

Í fréttabréfi Ísalp númer 10, segir:

Var það allerfitt klifur upp NA -hlíðina, 100m háan ísvegg. Voru þeir félagar 4 1/2 klsti úr tjaldstað, í um 400 m hæð á Svínafellsjökli, upp að Kirkjunni. Klifrið tók síðan 4 tíma og notuðu þeir ísskrúfur til tryggingar enda meðalhalli brekkunar 60-70°.

Þessi leið var um tíma erfiðasta ísklifurleið á íslandi og var fyrst til að fá fjórðu ísklifurgráðuna

Í ársriti Ísalp frá 1989, bls 18 er leiðin á Kirkjuna talin upp sem klassísk leið og góð ferðasaga gefin.

FF: Arngrímur Blöndahl, Arnór Guðbjartsson og Helgi Benediktsson, 1.04 1979

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Tindaborg
Tegund Alpine

Granni WI 3

Leið númer 53/55 á mynd

Leiðin er beint á móti Grafarfossi sjálfum en nær að fá aðeins minni sól þar sem að hann snýr betur.

Flestir láta sé nægja að klifra bara fossinn sjálfan sem sést á myndinni en einnig er hægt að elta gilið sem klifrað er upp í. Viðtekur að mestu snjóklifurleið með stöku íshöftum

WI 2/3, 650 m ef farið er alla leið.

FF: Jón Geirsson og Snævarr Guðmundsson, 06.03 1983

Klifursvæði Esja
Svæði Grafarfoss
Tegund Ice Climbing

Grafarfoss WI 4+

Grafarfoss er breitt ísþil undir Kistufelli í Esjunni. Allmörg afbrigði af fossinum hafa verið farin en þau hafa ekki fengið nöfn og teljast því ekki sér leiðir.

Venjulega er bílnum lagt nálægt bænum Kistufell (sjá kort) og gengið þaðan. Gangurinn að fossinum er 20-30 mínútur. Athugið að vegirnir hér geta verið torfærir þegar mikið hefur snjóað.

Útgáfurnar af Grafarfossi eru á bilinu WI4-WI5 og veltur þetta á leiðarvali og aðstæðum hverju sinni. Fossinn snýr ekki alveg í suður en fær samt töluverða sól og á ísinn það til að bakast og verða illtryggjanlegur á köflum. Fossinn er oft svolítið blautur í miðjunni og sökum sólarinnar vill drjúpa úr honum í efri hlutanum.

Upprunalega útgáfan er lengst til hægri í kverkinni (númer 1 á yfirlitsmynd), telst það afbrigði vera um WI4 og er um 65 m. Fossinn er almennt brattari í miðjunni og leiðirnar 2-5 því jafnan erfiðari. Nettur hellir er oft notaður sem stans í afbrigðum 2 til 4.  Fyrir þá sem vilja fá sem mestan tíma á ísnum þá er leið 6 valin og hægt að stýra erfiðleikagráðunni niður eða upp á við.

Boltað sigakkeri er í berginu efst og er það merkt á yfirlitsmynd með bókstafnum A. Til að síga alla leið niður þarf tvær 70m línur en oftast er hægt að komast í snjóröndina og úr mesta brattanum með 60m línum sem teygðar eru til hins ítrasta. Í gljúfrinu safnast mikill snjór sem kemur sér illa þegar paufast er að fossinum en kætir jafnan þegar sígið er niður á 60m línum.

FF: Björn Vilhjálmsson og Einar Steingrímsson, 20.12 1980.

Klifursvæði Esja
Svæði Grafarfoss
Tegund Ice Climbing

Myndbönd

Orginallinn

Græn lína á mynd.

Sjá aðkomulýsingu hér 

Suðaustan á Ingimundi, klifrað upp í augljósa gróf sem leiðir upp í sprungu austan megin við hátindinn. Komið upp á milli beggja tindanna á toppnum.

FF: Stefán Steinar Smárason, Haraldur Örn Ólafsson og Guðmundur Eyjólfsson, 17.07 1988, dótaklifur, tvær spannir 5.6

Klifursvæði Eyjafjöll
Svæði Ingimundur
Tegund Alpine

Mundi

Rauð lína á mynd.

Sjá aðkomulýsingu hér 

Vestan við upprunalegu leiðina og lítið eitt strembnari. Fylgir stöllum inn í áberandi stromp og þaðan upp á góða syllu. Síðan er farið upp víða sprungu og klaufina austan megin við toppinn. Efsti hluti leiðarinnar er sameiginlegur upprunalegu leiðinni

FF: Stefán Steinar Smárason og Leifur Örn Svavarsson sumarið 1989, dótaklifur, tvær spannir 5.6

Klifursvæði Eyjafjöll
Svæði Ingimundur
Tegund Alpine

S fyrir Stratos

Gul lína á mynd.

Sjá aðkomulýsingu hér 

Vestasta leiðin á Ingimundi. Nokkuð augljós S-laga sprunga, ca. í miðjum Ingimundi vestanverðum, er klifruð. Síðan er farið upp sprungu sem liggur upp á toppinn vestan megin við hærri tindinn.

FF: Björn Baldursson og Stefán Steinar Smárason, sumarið 1991, dótaklifur, tvær spannir 5.8

Klifursvæði Eyjafjöll
Svæði Ingimundur
Tegund Alpine

Mjóni WI 4+

Sextíu metra ísfoss af gráðunni IV – V (IV+) gráðu. Ísfossinn samanstendur af tveimur mjóum tíu metra ískertum sem standa hvort upp af öðru, eftir það er strembið klifur upp íshröngl. Ísfossinn var klifinn um áramótin 90-91. Fossinn er á milli Skagfjörðsskála og göngubrúarinnar yfir Krossá í Þórsmörk.

FF: Páll Sveinsson og Guðmundur Helgi Christensen. 1990-1991

Mjóni

 

Klifursvæði Þórsmörk
Svæði Skagfjörðsskáli
Tegund Ice Climbing

SA veggur Miðfellstinds

Mynd og nánari staðsetning óskast

Í ársriti Ísalp frá 1990 segir:

Miðfellstindur í Skaftafellsfjöllum páskana ’90 var Miðfellstindur (1430 m) klifinn af þeim Leifi Erni Svavarsyni og Hjörleifi Finnssyni. Fóru þeir upp suðurhlíðina sem telst 3. gráða og er 400 m löng og liggur leiðin upp stutt íshöft og snjóbrekkur.

FF: Leifur Örn Svavarsson og Hjörleifur Finnsson, páskar 1990, gráða 3, 400 m

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Miðfellstindur
Tegund Alpine

Svínshaus

Mynd óskast

Hátindur Svínakambs sem liggur á milli Tindaborgar og Dyrhamars. Klettadrangur, klifrið upp á hann er meira klettaklifur en ísklifur.

Svínshaus er 30m há hlettaspíra sem stendur upp úr Svínakambi og nær í 1550 m hæð. Klifrað er af einhverju leiti á ís en mest á bergi. Í frumferðinni náðist bara að setja inn eina millitryggingu, lykkja (slingur) utan um nibbu.

FF: Björgvin Richardsson og Óskar Þorbergsson, páskar 1983, gráða IV

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Svínakambur
Tegund Alpine

Neðri Dyrhamar

Númer 1 á mynd, lægri af þessum tveim tindum og fjær Hvannadalshnúk

Neðri Dyrhamar er erfiðari uppferðar en sá efri því að það er ekki hægt að ganga upp á hann, heldur verður að klifra þar upp.

Í fréttabréfi Ísalp nr. 27 segir:

Jón Geirsson og Snævarr Guðmundsson héldu upp í Öræfajökul um páskana. Fóru þeir upp á skírdag og bjuggu til snjóholu á Hvannadalshrygg, þar sem þeir gistu um nóttina. Á föstudaginn langa lögðu þeir til atlögu við Neðri-Dyrhamar, sem hafði aldrei verið klifinn áður. Þetta var ísklifur í miklum bratta með lóðréttum íshöftum. Tryggingarnar voru slakar. Klifrið tók rúmlega klut. Síðan þurftu þeir að síga niður á snjópollum. Að sögn Jóns og Snævars er þetta mjög alvarlegt klifur og mun erfiðara en Kirkjan.

Norður hliðin á Tindaborg eða Fjallkirkjunni var á þessum tíma erfiðasta ísklifurleiðin á Íslandi og var gráðuð sem IV klifur. Við þessa ferð hefur Neðri Dyrhamar um tíma tekið sessinn sem erfiðasta ísklifurleið á Íslandi og má þá draga ályktun að klifrið hafi verið IV+ eða V, án þess að erfiðleikagráðu hafi verið hent niður.

Til að komast að neðri Dyrhamri er annaðhvort hægt að koma frá Hvannadalshnúk eftir hryggnum og hliðra undir Efri Dyrhamar eða hægt er að koma upp Hvannadalshrygginn neðan frá. Í þessari frumferð var Neðri Dyrhamar klifinn á norðurhliðinni, þar sem hann er lægstur og árennilegastur.

FF: Jón Geirsson og Snævarr Guðmundsson, páskar 1983.

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Dyrhamar
Tegund Alpine

Efri Dyrhamar

Efri Dyrhamar er númer 2 á myndinni, hærri og nær Hvannadalshnúk.

Efri Dyrhamar er yfirleitt ekki strembinn uppferðar frá norðurhliðinni, þar sem hann er lægstur, oft er vindskafinn snjóhryggur alla leið upp á topp, svo að oft þarf ekki einu sinni að klifra til að komast á tind Efri Dyrhamars.

Þarna hefur þó verið klifrað upp í erfiðari aðstæðum en lítið af heimildum finnst um það klifur eða hvort að það hafi verið á annari hlið en norðurhliðinni

Algengast er að ganga frá Öræfajökulssléttunni, undir Hvannadalshnúk og elta þar hrygginn upp á Efri Dyrhamar. Einnig er hægt að koma eftir Hvannadalshryggnum, hliðra undir Neðri Dyrhamar, fram hjá Dyrunum og svo hliðra undir Efri Dyrhamar, þar til komið er að norðurhliðinni.

FF: Helgi Benediktsson leiðsögumaður og hópur, 06.08 1978

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Dyrhamar
Tegund Alpine

Leiðangur niður austurströnd Grænlands

Fyrirhuguð leið Grænlandsleiðangurs 2017

Nú reyna nokkrir fjallamenn og Ísalparar að skíða og kite-a niður austurströnd Grænlands, um 1200 kílómetra leið á 40 dögum. Þetta eru þeir Leifur Örn Svavarsson, Hallgrímur Magnússon, Einar Stefánsson, Tómas Júlíusson og Skúli Magnússon. Afrek hópsins eru m.a. hæstu tindar allra heimsálfa, þrír Everest farar, báðir pólarnir og umtalsverð reynsla hjá EFTA dómstólnum.

Þeir sem til þekkja vita að þessir menn eru allir miklir meistarar og leynast gullkorn á borð við þessi í leiðangursblogginu:

„Each of us did bring one day of food and Hallgrímur had his food bag yesterday giving us beef filé for dinner and a luxury dinner today. Now, Skúli is baling pancakes for us for desert. We will be two weeks into he expedition before we have to start eating normal, dried expedition food.“

„Our philosophy is to continue to struggle for the next two weeks or so and then we will take stock of the situation, think about how we are doing and if there is whiskey, we will certainly last the whole journey.“

Einnig ætla þeir félagar mögulega að klífa óklifna tinda sem þeir sjá á leiðinni og mögulega hæsta fjall Grænlands.

Vonandi gengur sem allra best hjá þeim, hægt er að fylgjast með leiðangursbloggi hér: http://expeditions.mountainguides.is/

Súlutindur

Súla (694 m) stendur vestan megin í Skeiðarárjökli. Súlutindur er fallegur 60 m hár tindur en er víst úr alveg gífulega rotnu og ótraustu bergi.

Tindurinn hefur aðeins verið klifinn einu sinni, lýsing teymisins var: Ekki reyna þetta!

FF: Ari Hauksson,  Björgvin Richardsson, Jón Haukur Steingrímsson og Valdimar Harðarson, sumar 1990.

SÚLA 1990 – Eftir Björgvin Richardsson

Einn af frægari klettadröngum landsins er Súla í Súlutindum. Ferðamenn sem stóðu við Lómagnúp og horfðu yfir Skeiðarársand, þegar Skeiðará og Gígja ólmuðust fram með miklu jakareki, hafa eflaust hvílt augun á vatnsflaumnum og skondrað sjónum til Súlutinda. Súlutindar standa næst sporði Skeiðarárjökuls að vestan og halda honum í horfinu þeim megin. Súla, sem tindarnir draga nafn sitt af, er sextíu metra hár drangur sem stendur í einu skarðinu er myndast hefur í tindaranann. Ekki eru nú berglögin merkileg til klifurs þarna, eins og víða annars staðar í nágrenninu skiptast á blágrýtis- og móbergslög ýmiskonar, með grotnum millilögum og innskotum í bland. Súla stendur fremst á rana sem gengur út frá fjallinu. Hægt er að ganga í kringum hana á stalli sínum, allavega þeir sem ekki eru mjög lofthræddir. Stallurinn hallar frá berginu og víða er laust undir fæti. Allt að þrjú hundruð metra fall niður í jökul eða skriður eru ekki beint vænlegur kostur, þannig að betra er að fara varlega.

Við félagarnir þekktum Súlu eingöngu af afspurn þegar við ákváðum að reyna að klifra hana í fyrsta skipti. Eitthvað höfðum við frétt af öðrum sem höfðu reynt sig við hana. Ekki höfðu þeir sömu nú komist langt og skyldist okkur að þar væri mest lausu bergi um að kenna. Við töldum okkur alvana við slíkar aðstæður og ætluðum að taka þetta með trompi. Í haustferð hjálparsveitarinnar var ekið sem leið lá í Núpsstaðaskóg, en þaðan er tveggja tíma ganga að Súlu. Nokkrir félagar fylgdu með sem ekki ætluðu að klifra, en voru óspart notaðir sem burðarmenn. Nokkur búnaður fylgdi með í ferðinni, fimm klifurlínur, talsvert magn fleyga og annarra festingartóla og mikið af spottum til að bregða utan um snaga og steina. Við vorum álíka þungir og veðrið, þegar við komum að Súlu var komin slydda og hráslagalegt veður. Klifrið hófum við samt sem áður en gekk hægt. Kristján Maack klifraði með mér og fékk þann heiður að hefja klifrið.

Fyrsta haftið er áberandi breiðasti hluti súlunnar, um tuttugu metra hátt. Gert úr einhverju sem mætti sjálfsagt kalla móberg en er mikið brotið. Upp komst Kristján og á stóra öxl sem stóð út úr, tilvalin til að skipta um fyrsta mann. Ég fékk þann heiður að taka næstu spönn. Hliðraði eftir syllu og spennti mig inn í gróf á milli tveggja rifa sem voru viðkomu eins og rauðamöl. Enda þorði ég ekki að ýta fast við þeim, þetta dúaði allt saman. En upp á næstu syllu komst ég með harmkvælum og þarnæstu meira að segja líka. Er þangað var komið taldist okkur til að við hefðum klifið um fjörtíu og fimm hæðarmetra. Vegalengdin var þó töluvert lengri. En þetta var líka búið að taka átta klukkutíma í leiðinda veðri. Nú voru ekki nema fimmtán metrar eftir upp á topp. En þeir voru ansi strembnir.

Hugtakið laust berg fær alveg nýja vídd á Súlu. Fram að þessu höfðum við verið að klifra í venjulegu lausu íslensku bergi. En síðustu fimmtán metrarnir á Súlu eru martröð fjallamannsins. Við reyndum eins og við gátum að finna færa leið en varð lítið ágengt. Það var sama hvað togað var í, allt lét undan. Það er í raun alveg með ólíkindum að þessi hluti Súlu skuli standa undir eigin þyngd. Ekki var heldur mikið öryggi yfir aðgerðum okkar, við þorðum varla að setjast í tryggingar þær sem við höfðum þó komið inn. Engin sylla var til að standa á, aðeins flái sem hægt var að halla sér uppað. Ekki margt hægt að gera í stöðunni. Eða eins og góður maður skrifaði nokkru síðar:

“En þar sem við stóðum norpandi efst í súlunni, skíthræddir vegna lélegra trygginga og grjóthruns og alveg að koma myrkur, varð okkur ljóst að ekki yrði þessi ferð til fjár og héldum því niður með skottið lafandi”.

Þremur árum síðar vorum við búnir að gleyma lausu berginu og hengifluginu fyrir neðan. Harðir á því að við værum orðnir miklu klárari en síðast og færum létt með þetta núna. Var haldið af stað í annað sinn. Aftur hlupu sveitarfélagar undir bagga með aðföng, en í þetta sinn var veður eins gott og hægt var að hugsa sér. Í sól og sumaryl vorum við snöggir að komast jafn hátt og síðast. Jón Haukur Steingrímsson hafði bæst í hópinn og saman komum við inn eins miklu af festingum og við gátum undir síðasta hjallanum. Síðan var farið í að reyna að finna færa leið upp það litla sem eftir var. En þrátt fyrir góðan vilja og margar tilraunir sá Súlan við okkur aftur. Allt sem tekið var á kom út og það eina sem vannst var að gera leiðina brattari með því að moka hálfgerðan stall í hlíðina.

En það er ekki í orðaforða okkar að gefast upp. Ári síðar vorum við komnir upp í Súlu í þriðja sinn. Kristján var ekki með í þetta sinn, en ásamt okkur Jón Hauk voru þarna þeir Ari Hauksson og Valdimar Harðarson. Nú átti að gera úrslitatilraun. Eitt af því sem hafði háð okkur hvað mest við toppatilraunirnar var lausa bergið. Ekki eingöngu vegna þess hvað það var ótryggt til klifurs, heldur miklu frekar að varla var nokkur leið að koma inn festingum sem gætu haldið ef sá sem var að klifra félli niður. Nú átti að gera allt sem hægt var til að gera toppatilraun öruggari. Við skildum Valda eftir á næstu syllu fyrir neðan og settum inn fleyga og hnetur og lykkjur um steina. Þetta var tengt upp á þann stað sem við höfðum komist hæst áður með stálvír. Þar uppi settum við síðan inn allt það sem hægt var til tryggingar. Við vorum að vona, að ef forgöngumaður dytti, gætu þeir tveir sem næst sátu stöðvað fallið. Ef ekki átti stálvírinn niður á næstu syllu að gera það og fallið á öllum þremur átti því ekki að verða nema fimmtán metrar í viðbót. Við myndum allavega ekki lenda niðri í jökli. Jón Haukur var best stemmdur til klifurs þennan daginn og var því sjálfkjörinn til að reyna við toppinn. Hann var lengi að munda sig við upphafið og týndi út hvern steininn á fætur öðrum eins og sannur jarðfræðingur áður en hann lagði af stað. Hann segir sjálfur svo frá:

Ári síðar. Ætlar þú að byrja eða á ég að prófa fyrst? Yngri fyrir eldri var svarið, nokkrum hreyfingum seinna var ég kominn út á hornið þar sem fyrri tilraunum lauk. Grjótið hafði lítið breyst síðan síðast, en eitthvað var meira komið inn af tryggingum þar sem strákarnir sátu. Eftir um klukkutíma grjótnám úti á horninu voru tvær litlar hnetur komnar inn á milli steina sem ekki var hægt að losa með berum höndum, steinarnir voru ekki fastari en svo að með litlu átaki hefði verið hægt að losa þá. En til þess átti helst ekki að koma. Efstu fimmtán metrarnir eru úr fremur smágerðu kubbabergi, sem auðveldlega er hægt að tína í sundur. Allt var þetta spurning um eina hreyfingu og svo var ekki aftur snúið. Úti á horninu sá ég ekki framhaldið, en við vissum að það væri ekki alveg lóðrétt fyrir ofan og hlyti því að vera léttara. Eftir að hafa talið í mig kjark voru tvær snöggar hreyfingar og þá faðmaði ég 80° brattan hrygg úr kubbabergi. Blóðið nánast fraus þegar ég byrjaði að taka í hugsanlegar handfestur því allar enduðu þær 300 metrum neðar í Skeiðarárjökli. Í góða stund stóð ég á viðnáminu og jafnvæginu einu saman, það var bókstaflega ekki hægt að taka í neitt. Eftir drjúgan tíma var ég búinn að moka holur fyrir handfestur, ennþá var ekki hægt að taka í neitt, í stað þess ýtti ég mér áfram á höndunum. Það mátti reyndar ekki seinna vera því fótfesturnar voru rétt að liðast í sundur undan öllu bröltinu í mér. Á þennan hátt náði ég smátt og smátt að mjakast upp eftir hryggnum, með því að moka út handfestur og ýta mér upp á þeim áður en fótfesturnar liðuðust í sundur. Um þrjá metra undir toppnum breytti um berggerð, þar voru stærri steinar og smá stallur sem hægt var að standa á án þess að vera með lífið gjörsamlega og bókstaflega í lúkunum. Þar náði ég að koma inn fyrstu hnetunni sem hugsanlega gat haldið falli. Þaðan var nánast formsatriði að komast upp á toppinn. Toppurinn er sundurlaus grjóthrúga sem hæfir ágætlega að sitja klofvega á, eftir smá púst sveiflaði ég línunni tvo hringi í kringum toppinn og batt allt fast, “það skiptir þá minna máli í hvaða átt maður dettur fram af þessu hrúgaldi”. Smá hvíld meðan hjartað hægði á sér og svo ógurlegt öskur. Strákarnir sögðu seinna að þeir hefðu haldið að ég væri á leiðinni niður ásamt nokkur hundruð kílóum af grjóti.

Þegar við Ari heyrðum stríðsöskrið ofanfrá, litlum við skelfdir hvor á annan, hafði hann komist upp eða var hann að detta? Við kýttum í herðarnar eins og svo oft áður og héldum fast í línuna. Við vorum búnir að vera þarna vel á annan tíma í stöðugu grjóthruni. Fláinn sem við vorum á var ekki skjólbetri en svo fyrir grjóthruninu frá Jón Hauk að steinarnir lentu stundum á tánum á okkur, sem voru sem betur fer vel varðar inni í plastskónum. En drengnum hafði tekist langþráð ætlunarverk, hann var kominn á toppinn. Skömmu síðar var hann búinn að tryggja línuna og við gátum lagt af stað. Þegar ég klifraði upp til hans varð mér um og ó. Ég skildi vel af hverju allt þetta grjótmagn hafði streymt niður fjallið undan honum, þarna stóð varla steinn yfir steini. Eða eins og Jón Haukur hafði kallað, skömmu áður en hann kom á sjálfan tindinn: “Ég held að það sé hægt að horfa í gegnum hana.”

Svipurinn á félögum okkar, þeim Ara og Valda var líka ekki beint frýnilegur þegar þeir komu upp línuna, líkt og við Jón Haukur voru þeir skíthræddir við bergið, það var sama hvar maður rak sig í, allsstaðar hrundi eitthvað niður. Það skyldi það í raun enginn hvernig Jón Haukur hafði farið að þessu, öll eðlisfræðilögmál mæltu gegn því að hægt væri að klífa þennan síðasta hluta.

Við nutum stundarinnar, komnir á langþráðan tind Súlu. Kannski var sigurgleðin mest, þegar úti í skarðinu birtust félagar okkar, sem höfðu aðstoðað við burðinn en skroppið í göngutúr að Grænalóni í millitíðinni. Mikil fagnaðaróp rufu fjallakyrðina.
Eftir hefðbundnar toppamyndatökur var síðasti, og jafnframt einn hættulegasti hluti ferðarinnar þó eftir, að komast niður. Ég leit á Valda og spurði hvað hann langaði mest til núna. Svarið sem kom er orðið að hálfgerðum frasa hjá okkur við svipaðar aðstæður síðar: “Komast niður aftur”. Að síga sextíu metra nær lóðrétt niður, í mjög lausu bergi, er langt frá því að vera hættulaust. Alltaf er hætta á því að línan ýti við lausum steinum og hendi þeim niður. Við sigum niður efsta hlutann og stoppuðum á syllunni þar sem Valdi hafði beðið. Á leiðinni tókum við út allar festurnar sem við höfðum sett inn. Það var ekki sjón að sjá stálvírinn. Þetta var sex millimetra stálvír, þríþættur. Tveir þættir af honum voru í sundur og einn hékk á bláþræði. Það var ljóst að hann hefði ekki haldið neinu falli. Grjóthrunið hafði farið svo illa með hann að hann hefði hrokkið í sundur við minnsta álag.

En við komumst niður í tveimur sigum til viðbótar. Það var þó ekki fyrr en við stóðum á hryggnum hjá félögum okkar í öruggri fjarlægð frá drangnum að við önduðum léttar og þorðum að slaka á. Þó hann hryndi allur núna gæti hann ekki skaðað okkur. Sigurvíman bjó lengi með okkur og það var kannski eins gott að tveggja stunda gangur var niður í Núpsstaðaskóg að tjöldunum til að losna við allt adrenalínið. Það sem okkur þótti þó best var að þurfa aldrei aftur að klífa Súlu, þeim kafla var lokið.

Við vorum ekki kallaðir landsliðið í drulluspíruklifri fyrir ekki neitt – taki nú aðrir við!

Klifursvæði Öræfi, Vestur
Svæði Skeiðarárjökull
Tegund Alpine