Vilborg Arna kláraði málið með glæsibrag síðastliðinn sunnudag.
Þetta var ekki gefins hjá henni og skrifuðu menn um mikinn vind á fjallinu. Vilborg og Tenji Sherpa þurftu að hætta við tilraun sína 20. maí og bíða í 4. búðum eftir færi. Þau lögðu svo aftur í hann og komust á toppinn. Skv. fésbókarsíðu hennar gekk allt vel.
Vilborg reyndi við fjallið 2014 og 2015 en þurfti frá að hverfa í bæði skiptin vegna jarðskjálfta og snjóflóðs.
Þetta þýðir að Vilborg hefur lokið tindunum sjö, er fyrst íslenskra kvenna á Everest, auk þess að vera eina konan sem hefur einfarið 8 þúsund metra tind (Cho Oyu) og pól (Suðurpólinn) ef fréttaritara skjátlast ekki.
Við óskum Vilborgu til hamingju og bendum á greinina í síðasta ársriti fyrir þá sem vilja lesa meira um þessa öflugu fjallakonu. Einnig er hægt að skoða heimasíðu hennar, og facebook.