Eftir að ég og Katrín vorum búin að klifra leiðina Jóka Póka í Skarðshorni árið 2015 byrjaði Katrín að viðra þá hugmynd við mig að reyna að klifra Heiðarhorn, Skarðshorn og Skessuhorn á einum degi. Þetta hefur tvisvar verið gert áður, fyrst af Palla Sveins og Guðmundi Helga árið 1993 og svo af Robba og Sigga árið 2008. Mér leist strax vel á þetta verkefni enda er klifrið í Skarðsheiði skemmtileg blanda af fjallamennsku, alpaklfri og ísklifri.
Ári seinna ákváðum við að leggja í verkefnið, stefnan var sett á apríl en þar sem Katrín átti að skila meistararitgerðinni sinni í apríl þá gekk okkur illa að finna dagsetningu. Loks gafst tími til þess að fara þann 30 apríl. Veðurspáin var í besta falli ágæt en þar sem við vorum að renna út á tíma ákvaðum við að drífa okkur.
Við lögðum af stað úr bænum klukkan 04:00 og í bílnum á leiðinni virtum við fyrir okkur skýið sem huldi Skarðsheiðina og dalalæðuna sem skreið niður hlíðarnar. Þetta leit ekki alveg nógu vel út, en við vorum spennt fyrir verkefninu og komin á fætur þannig að við urðum allavega að kíkja á þetta. Þegar við vorum búin að keyra upp slóðan ánorðanverðri Skarðsheiðinni og komin að veðurstöðinni á Miðfitjarhól þá var svarta þoka yfir öllum leiðinum. Það var verra því hvorugt okkar hafði klifrað Heiðarhorn áður og það átti að vera fyrsti tindurinn hjá okkur. Við tóku 20 mínútur þar sem við leituðum að myndum af Jónsgili svona til þess að geta ýmindað okkur hvar í fjallinu leiðin væri. Allt í einu opnaðist smá gluggi og við sáum hvar leiðirnar voru og gátum byrjað að labba.
Gangan upp að leiðinni gekk vel og við vorum komin undir leiðinna klukkan 07:00. Klifrið gekk vel en ég stóð í þeirri trú að þetta ætti að væri bara auðvelt snjóklifur með auðveldum íshöftum. Eitthvað var ég að vanmeta þess leið þar sem þriðja spönnin bauð upp á 10 metra snís/ísfrauð haft sem var eflaust mis erfitt, frá WI3 upp í WI4+, en eini tryggjanlega leiðin upp var WI4+ sem var upp við klett sem tók við bergtryggingum. Til þess að gera þetta enn betra þá var ísinn morkinn og laus frá klettinum. Svo tók 4 og síðasta spönnin við sem var 20-30 metra auðklifranlegt snís/ísfrauð með hengju í lokin. Maður gat sett inn skrúfur til þess að róa taugarnar, efa að þær hefðu haldið falli en það var auðvelt að koma fyrir góðum snjóhælum. Hengjan var óklifranleg á löngum kafla en við náðum að rata á einn af þessum fáu stöðum þar sem hægt var að moka sig í gegnum hana.
Við vorum bæði komin upp á topp á Heiðarhorni klukkan 10:40 en þar tók við matarpása þar sem ég fékk mér Búllu borgara. Borgarinn rann ljúflega niður og við fórum að fikra okkur meðfram toppnum í átt að Skarðshorni. Það var blindaþoka þarna uppi og það var ákveðin heppni að ég hefði verið í Skarðshorni um mánuði fyrr því ég gat fundið track í GPS úrinu sem við gátum labbað inn á. Gangan yfir tók okkur lengri tíma en við heldum og þegar viðvorum komin að Skarðshorni byrjaði að snjóa. Niðurgöngugilið austan við Skarðshorn er ein af þessum brekkum sem þú rétt nærð að labba beint niður en þú ert alltaf með lífið í lúkunum því brattinn er þannig að ef þú dettur þá eru litlar líkur á að þú náir að stoppa þig. Það var niðurdrepandi að hugsa til þess á leðinni niður að maður þyrfti síðan að labba aftur niður þessa brekku seinna sama dag.
Við vorum komin fyrir neðan leiðina um 12:00 bæði frekar mikið búin á því. Fyrsta spönn í Dreyra var orðin skuggalega þunn og ákvaðum við því frekar að fara leiðina Sóley sem sameinast að vísu Dreyra. Þar sem við þurftu að gefa í ákvaðum við að ég tæki fyrstu spönn og myndi reyna að ljúka henni á hlaupandi tryggingum, það endaði með því að við tókum örugglega um 20 metra erfitt klifur á hlaupandi tryggingum. Eftir stutta pásu í fyrsta stansi lagið Katrín af stað í aðra spönn en þá gerðist það sem allir ísklifrarar óttast, Katrín datt eftir 4 metra án þess að vera búin að setja inn tryggingu. Fall beint í megintryggingu sem samanstendur af tveimur skrúfum í morkinn ís hljómar einfaldlega bara ekki nógu vel. Stansinn var efst í snjóbrekku beint fyrir neðan nokkuð lóðrétt haft, Katrín lenti því í snjóbrekkunni í svipaðri hæð og akkerið og rann þaðan 4 metra niður fyrir akkerið með hausinn á undan.
Katrín stóð nánast strax upp og sagði að það væri allt í lagi með sig, hún hélt ennþá á báðum öxunum og klifraði upp til mín. Í adrenalínvímunni vildi hún fara strax aftur af stað og leiða spönnina en eftir stutta pásu þegar adrenalínið var aðeins farið að renna af henni kom í ljós að hún hafði meitt sig töluvert í ökklanum. Eftir að hafa tekið smá tíma til þess að jafna okkur og fullvissa okkur um að Katrín væri ekki mjög slösuð tókum við þá ákvörðun um að klára upp leiðina frekar heldur en að síga niður. Ég leiddi því næstu spönn en þegar Katrín kom upp í annan stans heimtaði hún að fá að leiða 3 spönn. Katrín gerði stans upp á Skarðshrygg, undir frauðinu sem yrði venjulega síðast spönn upp á topp. Þegar ég kem upp til hennar þá er verkurinn í ökklanum búin að aukast töluvert og við tókum þá ákvörðun að beila út úr leiðinni og segja þetta gott í dag.
Við tókum okkur matarpásu áður en við gengum niður, búlluborgari nr. 2 var ekki síðri heldur en sá fyrri (ætli þeir séu til í að sponsera mig?). Þegar við vorum búin að borða þá var verkurinn í ökklanum hjá Katrínu búin að aukast enn meir og það orðið nokkuð augljóst að við tókum rétta ákvörðun um að segja þetta gott í dag. Ég þurfti að síga Katrínu niður brattasta hlutan af niðurgöngugilinu og haltrið út í bíl tók 3,5 klst. Ég nýtti tímann til þess að rölta undir leiðina og reyna að finna snjóhæl og ískrúfu sem duttu af beltinu hennar Katrínar við fallið. Snjóhællinn fannst en ekki skrúfan.
Þó að við höfum bara klárað tæplega tvær leiðir af 3 þá er þetta einn erfiðasti klifurdagur sem ég hef upplifað. Engu að síður þá erum við bæði spennt til þess að gera aðra tilraun seinna og klára verkefnið.
Á mánudeginum fór Katrín til læknis og þá kom íljós að hún hafði öklabrotnað. Katrín fær því hörkutólaorðuna fyrir að klára upp leiðina og labba niður í bíl.
Ottó Ingi Þórisson
03.05.2016
Geggjað flott hjá ykkur, alvöru full on dagur og allir í nokkurn veginn heilu lagi heim.
Hörkutól! Gott að ekki fór verr!
Naglar, vel gert bæði tvö. Gott að ekki fór verr.