Í febrúar eiga ÍSALParar von á heimsókn frá fjórum Ítölum, sem eru meðlimir í Alpaklúbbi Písa.
Þessi heimsókn er fyrsti liðurinn í samstarfi klúbbanna tveggja og standa væntingar til þess að heimsóknir verði framvegis árlegar, þ.e. að við hýsum hóp annað hvert ár og sendum svo hóp hitt árið til Písa.

Þann sjötta febrúar koma til landsins hinir galvösku Giovanni, Vitaliano, Mauro og Fransesco og verða þeir hér á landi til 13.febrúar og taka meðal annars þátt í Ísklifurfestivali klúbbsins.
Við vonumst til að þeir kynnist félögum úr klúbbnum vel og myndi tengls við ÍSALPara sem skilja eitthvað eftir sig. Þess vegna óskum við eftir þátttöku félagsmanna í að gera dvöl þeirra hér sem eftirminnilegasta.
Í fyrsta lagi vantar okkur gistingu fyrir þá (það er ekki skilyrði að þeir gisti allir á sama stað).
Búið er að redda gistingu fyrir kappana 7.-12.febrúar, en enn vantar gistingu fyrstu og síðustu nóttina, þ.e. mánudaginn 6.febrúar og sunnudaginn 12.febrúar.
Í öðru lagi vantar okkur klifurfélaga fyrir þá, a.m.k. þriðjudaginn 7.feb og miðvikudaginn 8.feb. Ef til vill fimmtudaginn 9.feb líka, en það veltur á því hversu snemma þeir vilja fara austur á festivalið.
Í þriðja lagi óskum við eftir fólki sem er til í að bjóða þeim í mat, morgunmat eða kvöldmat einhvern dag vikunnar eða sýna þeim miðbæinn eða annað áhugavert í Reykjavík að kvöldi 7. og 8. febrúar.
Á næsta ári sendum við hóp til Písa og umsóknir þeirra sem leggja verkefninu lið hér heima ganga fyrir.
Endilega setjið ykkur í samband við stjórn ef þið getið lagt eitthvað af mörkum, hvort sem það er lítið eða mikið. Einnig má hafa beint samband við Helga í gegnum Feisbúkk eða tölvupóst (helgidvergur hjá gmail)