Eftirförin
Staðsetning: Vesturveggur Trönu í Eyjadal, norðan Móskarðahnjúka.
AI2 M4, 300 m. FF: Andri Bjarnason og Sveinn Friðrik Sveinsson, 14. apríl 2017.
Leiðin hefst við lítið sker neðst í hlíðinni. Klifrað upp nokkur höft, um 100 metra, uns dregur úr brattanum næstu 150 metra. Lokakaflinn liggur hægra megin upp greinilegan höfuðvegg efst í fjallinu (lykilkafli). Þar voru tvær hreyfingar af M4, annars léttara klifur.
Fyrstu 150 metrarnir voru einfarnir, næstu 100 m á hlaupandi tryggingum og síðustu 50 m í fastri spönn.
Tryggt var með hnetum, öxum og snjóankeri.
Aðkoma: Ekið inn Svínaskarðsveg og þurfti að fara yfir nokkra skafla sem voru krefjandi fyrir 38″ jeppa. Síðan gengið upp gil innarlega í Svínadal sem liggur milli Móskarðahnjúka og Trönu. Áhugavert væri að skíða norður af Móskarðahnjúkum í leiðina. Þriðji möguleikinn væri að ganga inn Eyjadal.
Leiðin dregur nafn sitt af atburði sem átti sér stað á þessum slóðum þann 18. október, 1942. Þá hafði orrustuflugvél Bandamanna veitt þýskri Junkers 88 herflugvél eftirför og þær skipst á skotum. Jafnvel er talið að þær hafi rekist saman með þeim afleiðingum að stél þeirrar þýsku skemmdist. Eftirförinni lauk með þeim afleiðingum að sú þýska fórst í hlíðinni, skammt ofan við gilið sem við gengum upp úr Svínadal, og létust allir þrír áhafnarmeðlimir. Lík þeirra voru jarðsett í kirkjugarðinum í Brautarholti, en síðar flutt í Fossvogskirkjugarð. Í gilinu má enn finna brak úr vélinni, þó snjórinn hafi hulið það þegar við vorum á ferð.
Heimild: http://www.ferlir.is/?id=6114
Fleiri myndir úr frumferðinni má finna hér
Klifursvæði | Esja |
Svæði | Eyjadalur |
Tegund | Alpine |
Merkingar |