Grafarfoss WI 4+
Grafarfoss er breitt ísþil undir Kistufelli í Esjunni. Allmörg afbrigði af fossinum hafa verið farin en þau hafa ekki fengið nöfn og teljast því ekki sér leiðir.
Venjulega er bílnum lagt nálægt bænum Kistufell (sjá kort) og gengið þaðan. Gangurinn að fossinum er 20-30 mínútur. Athugið að vegirnir hér geta verið torfærir þegar mikið hefur snjóað.
Útgáfurnar af Grafarfossi eru á bilinu WI4-WI5 og veltur þetta á leiðarvali og aðstæðum hverju sinni. Fossinn snýr ekki alveg í suður en fær samt töluverða sól og á ísinn það til að bakast og verða illtryggjanlegur á köflum. Fossinn er oft svolítið blautur í miðjunni og sökum sólarinnar vill drjúpa úr honum í efri hlutanum.
Upprunalega útgáfan er lengst til hægri í kverkinni (númer 1 á yfirlitsmynd), telst það afbrigði vera um WI4 og er um 65 m. Fossinn er almennt brattari í miðjunni og leiðirnar 2-5 því jafnan erfiðari. Nettur hellir er oft notaður sem stans í afbrigðum 2 til 4. Fyrir þá sem vilja fá sem mestan tíma á ísnum þá er leið 6 valin og hægt að stýra erfiðleikagráðunni niður eða upp á við.
Boltað sigakkeri er í berginu efst og er það merkt á yfirlitsmynd með bókstafnum A. Til að síga alla leið niður þarf tvær 70m línur en oftast er hægt að komast í snjóröndina og úr mesta brattanum með 60m línum sem teygðar eru til hins ítrasta. Í gljúfrinu safnast mikill snjór sem kemur sér illa þegar paufast er að fossinum en kætir jafnan þegar sígið er niður á 60m línum.
FF: Björn Vilhjálmsson og Einar Steingrímsson, 20.12 1980.
Klifursvæði | Esja |
Svæði | Grafarfoss |
Tegund | Ice Climbing |
Merkingar |