Flöskuháls WI 3

Leið vestan megin í Litlasandsdal, næsta gil vestan við gilið sem Gljúfurá kemur niður úr.

Leiðin er mjög breið fyrstu tvo þriðju af leiðinni en lokakaflinn er upp mikið mjórri og brattari ís. Í frumferð var ísinn mjög fídusaður og klifrið var sennilega um WI 3 en það þarf ekki mikið að breytast til að leiðin verði WI 3+

Þegar komið er upp úr mjóa kertinu (ein spönn um 70m af klifri) þá er hægt að ganga í gilinu upp með ánni þar til komið er að öðrum litlum foss, ca 10m WI 2+.

FF: Jónas G. Sigurðsson og Matteo Meucci, 9. desember 2018, WI 3 – 70m og WI 2+ – 10m

Klifursvæði Hvalfjörður
Svæði Litlasandsdalur
Tegund Ice Climbing

Jólaklifur Ísalp

Nú er komið að árlega Jólaklifri Ísalp!
Veðurspáin fyrir vikuna fer að teljast klassísk desemberspá, +5°C og meiri úrkoma heldur en í Bergen.

Því eru góðar líkur á að Jólaklifrið falli niður!

Við hvetjum alla ísklifrara til að fara út núna á sunnudaginn 9. des og klifra það sem enn er uppi áður en það hlýnar.

Kristinn og Þorsteinn komnir til byggða

Nýjustu fregnir herma að líkamsleifar Ísalp félagana Kristinns Rúnarssonar og Þorsteins Guðjónssonar eru komnar til byggða í Nepal.

Kristinn og Þorsteinn fundust í um 5.500 m hæð í hlíðum fjallsins Pumo Ri eftir að hafa horfið þar árið 1988.

Leifur Örn Svavarsson var hæðaraðlagaður eftir tvær gönguferðir í grunnbúðir Everest og bauð hann fram aðstoð sína við að kanna möguleika á því að koma líkamsleifum Kristinns og Þorsteins niður af fjallinu.

Þetta tókst og nú eru líkamsleifarnar í rannsókn hjá Nepölskum yfirvöldum áður en að hægt er að senda þær til Íslands.

http://www.visir.is/g/2018181129082/likamsleifar-thorsteins-og-kristins-komnar-til-byggda

Ísalp vill einnig benda á styrktarreikning sem hefur verið stofnaður á nafni sonar Kristinns. Reikningurinn er til þess að styrkja leiðangurinn til Nepal og annan kostnað sem hlýst af því að koma Kristni og Þorsteini til Íslands aftur.

Styrktarreikningur: 0370-13-004559.
Kennitala: 310389-2939.

Ísalp félagar fundnir í Nepal 30 árum eftir að síðast sást til þeirra

Nýjar upplýsingar herma að leiðangur upp á fjallið Pumo Ri í Nepal hafi fundið líkamsleifar tveggja félaga Ísalp núna í síðustu viku.

Sennilegast er um að ræða Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson sem að fóru í leiðangur á fjallið í október 1988.

Þeir frumfóru leið upp suðvesturvegg fjallsins og sá ástralskt teymi til þeirra við toppinn. Eitthvað kom fyrir á niðurleiðinni og ekkert hefur til þeirra spurst í rúm 30 ár, fyrr en nú.

Beðið er eftir nánari upplýsingum frá Nepal að svo stöddu.

Kristinn og Þorsteinn voru öflugir í stafi klúbbsins. Þeir frumfóru nýjar leiðir út um allt land ásamt öðrum meðlimum klúbbsins. Þeir sátu báðir í ritnefnd klúbbsins og voru hluti þess teymis sem gerði ársrit Ísalp að því sem þau eru í dag.

Minning um þá félaga var birt í ársriti Ísalp árið 1989.

Baun í bala WI 4

Leið B14a

Byrjar á því að klöngrast upp byrjunina af Þursabtit (B14) en beygir svo til hægri og fer upp sama vegg og Fimm í fötu er á (B15) nema alveg vinstra megin á honum. Virkaði brött og samfellt en leyndi á nokkrum góðum hvíldum, gæti sennilega myndast í erfiðari aðstæðum.

Líklega verið klifrað áður en var ekki skráð.

FF: Jónas G. Sigurðsson og Matteo Meucci, 5. nóv 2018

Klifursvæði Múlafjall
Svæði Kötlugróf
Tegund Ice Climbing

Fimmtíu og sjö M 6

Leið B16a

Boltuð mixklifurleið sem átti að vera í léttari kantinum en endaði á því að vera snúin um miðbikið. Hin besta skemmtun og margir metrar af klifri. Fyrsti boltinn er mjög hátt og er í sléttum 30m frá akkerinu. (Notið 70m eða halfrope ef planið er að síga alveg niður frá akkerinu).

FF: Páll Sveinsson og Ottó Ingi Þórisson október 2018

Klifursvæði Múlafjall
Svæði Kötlugróf
Tegund Mix Climbing

Ljósmyndakeppni ÍSALP og greinar í ársrit!

 

Nú er komið að árlegu ljósmyndakeppni Ísalp, og erum við að vanda að leita að myndum í þrjá flokka, Klifur, Skíði og Mannlíf á fjöllum. Öllum er velkomið að taka þátt, dregnir verða út sigurvegarar í hverjum flokki og mun besta myndin príða forsíðu ársrits Ísalp 2018.

Myndin þarf að vera tekin eftir útgáfu seinasta ársrits (desember 2017), allir mega senda myndir í alla þrjá flokkana, en þó má hver mynd einungis taka þátt í einum flokki.

Allar myndir þurfa að berast á stjorn@isalp.is fyrir 2. nóvember!

 

Einnig erum við enn að leita að greinum og pistlum í ársritið, svo ef þú ert með hugmynd að góðu efni í ársritið og langar að deila með okkur, máttu endilega senda póst á stjorn@isalp.is.

 

The Dawn Wall – Kvikmyndasýning

Þann 30. október næstkomandi mun Íslenski Alpaklúbburinn sýna stór-klifurmyndina The Dawn Wall í Bíó Paradís klukkan 20:00.

The Dawn Wall er mynd sem klifurheimurinn hefur beðið spenntur eftir í yfir 3 ár, en hún fjallar um eitt af stærri afrekum klifurheimsins, þegar þeir Tommy Caldwell og Kevin Jorgeson fríklifruðu Dawn Wall vegginn á El Capitan í Yosemite, klifur sem áður þótti óhugsandi.
Þeir Tommy og Kevin toppuðu vegginn í janúar 2015, en aðdragandi áfangans var áralangur ásetningur, vinna og þrautseigju, í bland við hina ýmsu tilfinningalegu tálma í persónulífi Tommys, sem að lokum reyndust á sinn hátt hvati til þess að fríklifra Dawn Wall.

Miðverð á sýninguna
Meðlimir Ísalp: 1500kr
Aðrir: 2000kr

Facebook-síða viðburðarins

Miðasala mun hefjast í næstu viku, og munum við auglýsa þá hvar hægt er að nálgast miðana.

 

Strandir

Strandir eru afskektar en ekki ófærar og vel hægt að komast þangað á veturna. Fullt er hægt að gera úti á Stöndum bæði um vetur og sumar. Sportklifrarar standa í ströngu við að setja upp leiðir í Norðurfirði og eitthvað hefur verið klifrað af grjótglímuþrautum í Bjarnafirði, á Gjögri og Skarðsvík. Augljós vetrarverkefni eru fossinn fyrir ofan Djúpuvík, þar sem tveir fossar falla og lenda saman á syllu og falla svo aftur í sitthvoru lagi af henni og mynda stórt X. Fjallið Kambur við  Veiðileysu mynnir á Hraundrangann. Síðast en ekki síst má svo mynnast á Lambatind sem gæti vel verið frábærasta klifrur.

Lambatindur

Eitthvað hefur verið klifrað í Lambatindi og á hann ansi fallega norðurhlíð sem mynnir á Skarðsheiðina.

  1. Norðvesturhryggur Lambatinds
  2. Suðurhlíð Lambatinds

Aðalfundur ÍSALP – ný stjórn

Aðalfundur ÍSALP

Í gær var aðalfundur ÍSLAP, fundargerðina er að finna í valmyndinni hér að ofan undir „Ísalp“ – „Um Ísalp“ – „Fundargerðir“. Skrýslu stjórnar fyrir síðasta starfsár má finnu á sama stað.

Fráfarandi stjórnarmenn eru
Helgi Egilsson sem hefur verið í stjórn í 8 (4 ár sem gjaldkeri og 4 ár sem formaður).
Bjartur Týr Ólafsson sem hefur verið í stjórn í 3 ár.

Við þökkum þeim báðum kærlega gott starf undanfarin ár.

Í stjórn sitja þá:
Jónas G. Sigurðsson (formaður)
Ottó Ingi Þórisson
Baldur Þór Davíðsson
Védís Ólafsdóttir
Sif Pétursdóttir
Sigurður Ýmir Richter
Matteo Meucci

Ný stjórn mun koma saman við fyrsta tækifæri og undirbúa spennandi dagskrá fyrir veturinn.

Aðalfundur ÍSALP 2018

Kæru félagar.

Aðalfundur Íslenska Alpaklúbbsins 2018 verður haldinn á efri hæð Klifurhússins að Ármúla 23, miðvikudaginn 26. september kl. 20:00.

Dagskrá fundarins er skv. lögum félagsins:

  1. Kosning fundarstjóra sem síðan skipar fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar.
  3. Ársreikningar lagðir fram til samþykktar, undirritaðir af tveimur skoðunarmönnum.
  4. Lagabreytingar.
  5. Kjör formanns Ísalp og meðstjórnenda.
  6. Kjör uppstillingarnefndar.
  7. Kjör tveggja skoðunarmanna ársreikninga.
  8. Ákvörðun árgjalds næsta árs.
  9. Önnur mál.

Atkvæðisbær og kjörgeng eru þau ein sem greitt hafa árgjald síðastliðins árs fyrir upphaf aðalfundar.

Framboð skulu hafa borist fyrir 19. september en einnig er heimilt að bjóða sig fram í lausar stöður ef einhverjar eru á aðalfundi.

Helgi Egilsson formaður, Ottó Ingi Þórisson meðstjórnandi, Bjartur Týr Ólafsson meðstjórnandi, Jónas Grétar Sigurðsson meðstjórnandi og Baldur Þór Davíðsson meðstjórnandi eru allir að láta af hendi sínar stöður, og því mörg sæti í boði í stjórn fyrir áhugasama.

Allar tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn (stjorn@isalp.is) fyrir 19. september.

Sjá lög klúbbsins hér

F.h. stjórnar, Sigurður Ýmir Richter