Stardalsdagurinn 2019 (& dótaklifurkynning)

Nú ættu allir að vera búnir að skafa af sér hrím vetrarins og liðamótin vonandi fengið að liðkast í sólinni seinustu vikur. Þó veður seinasta sumars hafi haft okkur að leiksoppi, tókst dagurinn vel til og stefnum við því á að endurtaka leikinn í ár og halda Stardalsdaginn hátíðlegan aftur.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er Stardalsdagurinn árlegur viðburður þar sem dótaklifurviðundur landsins fjölmenna í klifur í Stardal. Stardalur er glæsilegt dótaklifursvæði, með yfir 90 skráðar klifurleiðir frá 5.1 upp í 5.11b, og ekki þykir verra að klifursvæðið er í einungis 20 mínútna fjarlægð frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.

Dagurinn sjálfur verður haldinn laugardaginn 29. júní (með 30. júní til vara ef veður ætlar í hart) og er brottför verður í Stardal klukkan 10:00 frá Orkunni við Vesturlandsveg/Grjótháls (en þið megið auðvitað mæta hvenær sem er í dalinn og fara þegar ykkur listir).
Fólk er að sjálfsögðu á eigin vegum og ábyrgð, og því mælum við eindregið með að þið verðið ykkur sjálf úti um klifurfélaga og lágmarksbúnað. Athugið að það verður ekki kennsla í Stardal, heldur erum við einfaldlega að fjölmenna í dalinn, og því er best að fólk hafi einhverja lágmarks þekkingu á leiðsluklifri (t.d. sportklifri).

Til að hita upp fyrir laugardaginn, ætlar Ísalp og klifurfélag reykjavíkur að halda kynningu á dótaklifri fimmtudagskvöldið 27. júní. Fyrir þá sem leggja stund á klifur og vilja víkka sjóndeildarhringinn og kitla taugarnar með eigin bergtryggingum, þá er þetta tilvalið tækifæri til að kynnast betur dótaklifri.

Kynningin hefst klukkan 20:00 á efri hæð Klifurhússins (Ármúla 23, Reykjavík), og munum við fara yfir öll helstu atriði sem hafa þarf í huga í dótaleiðslu, sem og að leyfa þátttakendum að munda sínar eigin bergtryggingar.

Meðlimum ÍSALP og Klifurhússins er velkomið að mæta, kynningin er meðlimum félaganna að kostnaðarlausu og verður boðið upp á kaffi og kleinur. Svo það er um að gera að kíkja við, og hlökkum við til að sjá sem flesta.

Endilega meldið ykkur á viðburðina á FB að neðan

Stardalsdagurinn: https://www.facebook.com/events/2262399440675940/

Dótaklifurkynningin: https://www.facebook.com/events/435004757075268/

Ath! við viljum ítreka það að þessi kynning kemur EKKI í stað vottaðra fjallamennsku- og línuvinnunámskeiða, og meðlimir eru á eigin ábyrgð í Stardal.

Skildu eftir svar