Svör sem þú hefur skrifað
-
HöfundurSvör
-
0801667969Meðlimur
16 maí 2012 kl: 15:00
Sama bongóblíðan komin aftur eftir nokkurra daga norðan hvassviðri og kulda. Hér er hægviðri og heiðskýrt. Talsvert frost í nótt en sólbráðin er búin að mýkja þetta nokkuð vel.
Kl. 17:00 byrjar hér brettasession. Búið er að byggja alls konar palla, risastóra og smáa og rail, box og rör eru komin á nýja staði í Fjallinu. Kóngurinn verður keyrður og getur hver sem er nýtt sér það (reyndar gegn 2000 kr. gjaldi, sjá nánar heimasíðuna). Opið til 21:00
Annars minir þetta meira á sólarströnd en skíðasvæði. Uppi í brettagarði eru sólhlífar, borð og stólar og skíðað er undir dynjandi músík einhvers DJ Danna. Og veðrið gefur Kanarí ekkert eftir.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur11. maí 2012
Það hafa ekkert verið neinir eðlilegir dagar í Fjöllunum undanfarið. Alveg frá fyrsta lokunardegi (1 maí) er búið að vera léttskýjað, logn og magnað skíðafæri.
Venjulega talsvert frost frá kveldi og fram undir hádegi. Harðfenni fram að hádegi en svo geggjað færi í sólbráðinni seinni partinn. Og snjórinn minnkar sama sem ekkert þessa daga.
Æfingar og innanfélagsmót hjá skíðafélögunum hafa verið keyrð þessa daga. Eitthvað brettasession er fyrirhugað á miðvikudagskvöldið auk æfinga og einhver mót eru eftir. Ekkert útilokað að stólalyfta verði keyrð einhvern daginn fyrir almenning ef veðrið verður skikkanlegt.
Helst hefur orðið vart útlendinga hér undanfarið ýmist þeirra sem aldrei hafa séð snjó eða þeirra sem eru á fjallaskíðum. Hvet þá sem hafa lítinn tíma aflögu til lengri ferða að kíkja í Fjöllin. Hvort sem er til brekkuskíðunar eða gönguskíðaiðkunar. Nema hvorutveggja sé. Hvernig er þetta annars. Kann engin að telemarka á gönguskíðum lengur? (Bara vesalingar sem ekki geta það)!
Annars er spáð fimubulkulda eftir helgi og stórhríð fyrir norðan.
Ætti að vera nægur snjór til snjóhúsagerðar talsvert fram á sumar.
Kv. Árni Alf.
P.S. Var annars að koma úr Hlíðarfjalli. Sama sagan þar. Fínt færi undanfarna daga og nægur snjór ofan við 700 m hæð. Reyndar hefur bætt talsvert í snjó ofan 1000m.
0801667969Meðlimur27 apríl kl. 12:00
Hér er nú að byrja „fun race“ í Borgarbrekkunni. Þarna keppa mörg þekkt nöfn úr skíðaheiminum, m.a. margfaldir heims- og ólympíumeistarar í alpagreinum. Þetta eru mestmegnis austurríkismenn að auglýsa heimsmeistarkeppnina í Austurríki næsta vetur.
Þetta lið kann best við sig utanbrauta enda ágætis færi þar. Blautur nýr snjór í bland við gamlan. Fínasta veður og sólin meira að segja að glenna sig.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur23 apríl kl. 12:00
Frábær helgi að baki. Aðsókn góð a.m.k. miðað við árstíma. Yfir þúsund manns hér í gær og litlu minna á laugardag.
Stefnir í enn einn góðviðrisdaginn. Nokkur hundruð skólakrakkar þegar mættir og una sér vel.
Þó heitt sé yfir hádaginn þá er frost hér á kvöldin og fram undir hádegi. Það sér því ekkert á snjónum. Fer reyndar eftir veðri en hér verður fínasta skíðafæri a.m.k út maí og hugsanlega lengra fram á sumarið.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur20 apríl kl: 10:00
Stafalogn og heiðskýrt hér uppi á Fjalli. Og skyggnið alveg mergjað.
Spáin fram í næstu viku gerir ráð fyrir sama veðri. Léttskýjuðu, hægviðri og talsverðu næturfrosti. Held að menn ættu að nýta sér þessar kærkomnu aðstæður til skíðaferða.
Kærkomin tilbreyting frá öllu hrakviðrinu í vetur.
Bjart í austri yfir Suðurjöklum og Heklu, norðri yfir Skjaldbreið og jöklunum norður af svo og vestur á Snæfellsjökli.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur19 apríl kl. 10:00
Gleðilegt sumar öll sömul. Hérna fraus vetur og sumar saman líkt og almennt gerir milli daga þessa dagana.
Annars er hér bongóblíða eins og undanfarna daga og lítt meira um það að segja.
Gott að vera á gönguskíðum í dag.
Þungskýjað er í austri yfir Heklu og Suðurjöklum en bjart í norðri.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur18 apríl kl. 10:00
Já Ingimundur það var fallegt í kvöldsólinni í gær. Og ekki er þetta verra nú í morgunsólinni. Lítur út fyrir fallegan dag.
Það snjóaði örlítið í nótt og dró í hugsanlega brúklega skafla. Talsvert frost ennþá og smá gjóla. Á að lægja þegar líður á daginn. Sólbráðin ætti að fara að gera vart við sig uppúr hádegi með fínu færi.
Í austri er er orðið bjart yfir Heklu og Eyjafjallajökli. Annars lítur þetta býsna vel út næstu daga.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur17 apríl kl. 10:00
Alveg glerfínt veður, léttskýjað og logn. Enn tveggja stiga frost og harðfenni en sólbráðin fer að mýkja þetta. Reikna með eðalfæri uppúr hádegi.
Reyndar segir skýjahuluspáin að mögulega þykkni upp seinni partinn. Annars spáir léttskýjuðu og hægviðri næstu daga með talsverðu næturfrosti. Það ætti því að verða eðalfæri hvar svo sem menn skíða.
Og ekki ætti að vera amalegt að fara á gönguskíðum eitthvað með heitt á brúsa, samloku og súkkulaði.
Annars er einhver móða fyrir austan, á Suðurjöklum og Heklu en bjart í norðri.
Hvet menn til að nýta þessar góðu aðstæður.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur14 apríl kl. 14:00
Hér myglaði niður örlitlum snjó í morgun. Svo blotnaði aðeins í þessu. Gerði þá eitthvað sem ég kalla ágætt færi. Það er blautur snjór ofan á hörðu lagi. Annars hefur verið hálf grámyglulegt hérna í dag þó veðrið sé fínt.
Allt nýsnævið sem skíðað var í döðlu í gær er nánast óskíðandi. Svo sem ekkert ný saga. Bara finna sér óskíðað svæði.
Hrakviðri spáð a.m.k. í Bláfjöllum næstu daga.
Update kl: 17:00 Létti til og gerði þessa bongóblíðu uppúr kl. þrjú. Synd að þurfa að loka núna þegar þetta er loks orðið gullfallegt í síðdegissólinni.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur13 apríl kl. 11:00
Hér snjóaði og skóf í stífri austan átt allan miðvikudaginn (10. apríl), fram á gærdaginn. Talsvert myndarleg þurr flekaflóð féllu hér niður í skíðbrekkur. Einnig var stuggað við þessu með troðara. Flekinn var a.m.k. 1,5 metra þykkur þar sem hann var þykkastur. Allt laflaust ofan á glerhörðum gömlum snjó.
Það er a.m.k. nýsnævi hér innan sem utanbrauta. Þetta fína veður, sól í hófi og nánast logn.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur10 apríl kl: 14:00
Skrambi fallegt veður og skyggni. Reyndar búinn að vera bölvaður belgingur uppi á Fjalli en spáin gerir ráð fyrir að það lægi. Búið að vera frost í nótt þannig að utanbrautar er þetta enn glerhart. Geri ráð fyrir að þegar lægi þá taki sólbráðin við og færið gæti orðið gott.
Allt sem er í skjóli hefur orðið sólbráðinni að bráð og menn ættu að geta fundið einhverjar eðallínur til að skíða á þessum fallega degi a.m.k. þegar líður á daginn.
Í austri á Suðurjöklum og Heklu er einhver móða sem virðist vera að bæta í.
Minni á gönguskíðabrautirnar. Ekki amalegt útsýni.
Skítviðri á morgun en svo lítur þetta þokkalega út a.m.k. út vikuna.
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurRenndi inn á Þórsmörk í gær. Merkilega mikill snjór alveg niður á láglendi. Sá reyndar ekki hátt upp vegna þokuslæðings en maður svona gefur sér að rétt þarna ofar sé nægur snjór.
Vegurinn þarna innúr er nýheflaður og þetta er fínasta hraðbraut. Fólksbílafært án gríns enda ekkert í vötnum og verður svo væntanlega fram á sumar.
Þarna er ógrynni af flottum skíðalænum. Skemmtilegastar á vorin/fyrri part sumars ef snjór er mikill. Vesturhlið Útigönguhöfða er dæmi um góða lænu. Hvet menn til að skíða í skóginum.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur3 apríl kl: 16:00
Hitinn kominn upp fyrir frostmark og því komið þetta eðal utanbrautarfæri. A.m.k. fyrir þá sem ýmist nenna þessu varla eða geta. Þunnt mjúkt lag ofan á hörðum grunni. Fallegt vorveður og sólin meira að segja að glenna sig.
Talsverð breyting á færinu frá í gær. Þá var talsvert frost og Fjallið eitt gler. Svo hart að sumir sem duttu fóru á svo mikla siglingu að þeir fengu brunablöðrur. Sjaldgæf meiðsl hér um slóðir.
Göngubrautir um allar trissur. Og ekki vantar snjóinn í fjöll á þessum slóðum.
Kv. Árni Alf.
0801667969Meðlimur31 mars kl: 11:00
Ekkert betra en drífa sig á skíði í svona tíð. Hér er hægviðri súld og fínasta skíðafæri. Bæði innan og utan brauta. Þó eitthvað súldi þá er það bara hressandi.
Annars hafa síðustu opnunardagar verið bara ágætir. Þoka reyndar að mestu en hvað er dýrlegra en þegar maður kemst upp úr henni í sólina eða tunglskinið og stjörnudýrðina og horfir niður á skýjateppið fyrir neðan.
Snjóleysi er ekkert vandamál hér þó það sé orðið það á flestum stöðum úti á landi.
Annars er það fréttnæmt að lokað er í Skálafelli vegna dimmrar þoku. S.l. laugardag var hins vegar opið í Skálafelli og lokað hér. Svona er þetta sitt á hvað.
Update kl: 12:00 Súldin stóð nú stutt við. Nú er farið að birta og sést orðið niður í miðbæ. Vonum að þetta haldist svona út daginn.
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurMiðvikudagur 21 mars kl: 17:00
Loks opið eftir fimm daga lokun. Svona er nú gangurinn í þessu. Spurning hvort snjóframleiðukerfi hefði ekki kippt þessu í liðinn:)
Utanbrautarfæri er slæmt, glerhál ísskel ofan á nýsnævi. Aðfaranótt mánudags gerði nefnilega eina mestu snjókomu vetrarins og var ekki á bætandi. Það blotnaði í þessu lagi og það hefur ekki náð að frjósa almennilega. Annars er hláka framundan. Spurning hvað hún stendur lengi.
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurHamragarðaheiði. Heiðin er kennd við bæinn Hamragarða sem stendur við Gljúfrabúa.
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurSunnudagur 18. mars kl.14:00
Var að koma úr Skálafellinu. Þar voru allar lyftur í gangi og alþjóðlegu stórsvigsmóti að ljúka. Nánast logn en farið að þykkna upp. Fyrir hádegi var búið að vera stafalogn og sól.
Í Bláfjöllum skall á austan óveður uppi á Fjalli kl. 7:15 í morgun. Á leið úr Bláfjöllum rétt fyrir hádegi var mikið kóf, allt orðið ófært, bílar fastir hér og þar og neyðarlínan lá á línunni. Kannski ekki að undra að skíðasvæðið hafi verið lokað.
Þetta sýnir svart á hvítu hvað það skiptir miklu máli að hafa Skálfellið líka opið ætli almenningur SV- lands að komast á skíði.
Í gær var NV átt. Þá var einnig lokað í Bláfjöllum vegna hvassviðris meðan opið var í Skálafelli í hægviðri og púðurfæri.
Þannig er búið að vera lokað alla helgina í Bláfjöllum vegna veðurs meðan það er búið að opið og fínasta veður í Skálafelli. Þarna sést svart á hvítu að það verður að reka bæði svæði ætli menn að veita skíðamönnum á SV horninu sanngjarna þjónustu.
Kv. Árni Alf.
P.S. Þetta er önnur helgin í röð sem lokað er í Bláfjöllum.
0801667969MeðlimurFöstudagur 16. mars kl.12:00
Snjóar hér í hæglætisveðri. Púður yfir öllu. Undir er hörð skel. Búið að vera blint í snjókomunni en glorious þegar sólin kemur. Svaðalegt færi. Menn mega samt vara sig á að undir og kringum stólalyftur getur verið gróft glerhart landslag.
Það hefur nefnilega þurft að ýta undan lyftunum svo stólarnir rekist ekki í jörð. Vonandi eru allir að fara eða komnir á Telemarkfestivalið svo ég vona ekki að neinn mæti í Fjallið.
Kv. Árni Alf.
Update kl: 14:00 Þetta er alveg svívirðilega geggjað.
0801667969MeðlimurÞað er búið snjóa mjög mikið í hvössum útsynningi (SV-átt) í fjöllum á SV horninu síðustu daga. Allur þessi snjór hefur allur sest í hlíðar sem snúa mót norðri og austri, ofan á ísað harðfenni. Að sjálfsögðu þá sest þessi snjór hvar sem hann finnur skjól. Hann sest því einnig í gil og hvilftir þó slíkt sé í hlíðum sem snúa í vestur.
M.t.t. snjóflóða þá er ágætt að hafa þetta í huga.
Hlíðar sem snúa mót suðri og vestri eru bara svellað harðfenni með engri snjóflóðahættu þessa dagana. Um hádegi morgun skellur á SA hvassviðri. Þá færist þessi snjór úr austurhlíðum í þær vestari, með hugsanlegri snjóflóðahættu þar.
Menn eru eitthvað að velta fyrir snjóalögum í nágrenni höfuðborgarinnar. Í stuttu máli þá hafa þau sjaldan verið meiri í manna minnum. Hvort eitthvað er að marka minni manna er hins vegar annað mál.
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurSkyldi vera búið að tilkynna þetta flóð á síðuna? Líkist reyndar meira hraðskreiðum skriðjökli en flóði. Takið eftir manninum í síðasta stól á leið upp í upphafi myndbands. Annars er merkilegt hvað lyftan gengur lengi.
http://www.dv.is/frettir/2012/3/5/mognud-myndbond-af-snjoflodi-skidasvaedi/
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurSunnudagur 4. mars 2012 kl:8:00
Hér er logn, léttskýjað og frost 6 stig. Bendi mönnum á gönguskíðabrautirnar. Liggja um Strompana og út í Grindarskörð.
Stromparnir eru gullfallegir gígar hér rétt við bílastæðin. Um að gera að fara af skíðunum og leika sér í þessum gígum. Þarna eru líka stærðar holur sem gaman er að skoða.
Talsverður spotti er svo út í Grindarskörð. Þar er landslagið ævintýralegt. M.a. gígar af öllum stærðum og gerðum. Sama þar. Fara af skíðunum og skoða gíga og holur.
Ef veðrið helst gott þá er alveg þess virði að skoða þetta. Ekki sakar að hafa heitt á brúsa og smá nesti meðferðis.
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurFöstudagur 2. mars kl. 18:00
Keypti Moggann í Bónus núna áðan.
Las að febrúar hafi verið óvenju hlýr og úrkomusamur um land allt. Í Reykjavík var hitinn 2,2 gráðum yfir meðallagi. Þetta er áttundi hlýjasti febrúar frá upphafi mælinga í Reykjavík. Merkilegt nokk þá hefur manni fundist hitinn í Bláfjöllum sjaldnast komast yfir frostmark. Sýnir kannski vel hvað lítið er að marka það sem manni finnst.
Svo eru það stærstu jarðskjálftar í nágrenni Reykjavíkur. Annar 1929 og hinn 1968. Annar 6 á Richter og hinn líklega 6,5. Sé ekki betur en þeir eigi upptök við suðurenda skíðasvæðisins. Gott að eiga góða granna. Annars dreymir mig alltaf um lítið fallegt túristagos í Strompunum sem eru fallegir gígar við skíðasvæðið.
Segið svo að ekki það sé ekkert merkilegt í Mogganum. Nema hann ljúgi þessu öllu!
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurFimmtudagur 1. mars 2012 kl: 17:00
Morguninn bjartur og fallegur. Svo þykknaði upp og búið að snjóa mikið. Fínasta púður og utanbrautarfæri. Það sem eyðileggur þetta er snjóblindan. Gærdagurinn var eins. Snjóaði mikið og frábært færi. Þurftum reyndar að loka fyrr eins og allt stefnir í núna í dag.
Annars er búið að snjóa fáránlega mikið síðustu vikuna. Þessu fylgja ýmis lúxusvandamál. Annars mætti allt þetta efni dreifast á fleiri ár.
Kv. Árni Alf.
0801667969MeðlimurÞetta vill alltaf verða einhver hvítþvottur þegar menn rannsaka eigin mistök. Landsbjorg heldur nú orðið einhverja rýnifundi og væntanlega er einhver skýrsla skrifuð. Eru þessar skýrslur aðgengilegar hinum almenna félagsmanni?
Suðurjöklasvæðið, en innan þess fellur Þórmerkursvæðið, er mér sérstaklega hugleikið. Þarna er mikið um útköll. Mér eru hugleikin öll útköllin á svæðinu þar sem fólk hangir utan á bíl á kafi í einhverri ánni. Þeir sem komast fyrstir á staðinn og hafa öflugustu tækin eru aldrei kallaðir út.
Leitin á Sólheimajökli s.l. haust er mér hugleikin. Einnig fólkið sem varð úti á Fjallabaki fyrir tveimur árum.
Hugmynd Jón Gauta er mjög áhugaverð og ætti að skoða nánar.
Kv. Árni Alf.
P.S. Alveg eins gott að ræða þetta hér því spjallþráður Landsbjargar hefur verið óvirkur í mörg ár. Dálítið sérstakt hjá jafn öflugu apparati og Landsbjörg er. Kannski best að þegja allt í hel.
0801667969MeðlimurMánud. 20. feb 2012 kl: 18:00
Mikið snjóaði í gær og dró í skafla. Í sólinni í dag var þetta ansi fallegt á að líta. Færið utanbrautar er hins vegar erfitt. Sums staðar svínhart annars staðar að myndast skel ofan á nýsnævinu eða sköflunum. Flott að láta ísnálarnar rúlla á undan sér í sólinni áður en maður rúllaði sjálfur. Fallegasti dagurinn í vetur.
Kv. Árni Alf.
P.S. Troðari yfirgaf svæðið í dag og fór í Skálafell til viðbótar troðaranum þar. Allt að gerast.
-
HöfundurSvör