Tíðindi úr Stardal 2019

Home Umræður Umræður Klettaklifur Tíðindi úr Stardal 2019

  • Höfundur
    Svör
  • #67722
    Siggi Richter
    Participant

    Er einhver hér sem getur útskýrt þessi bolta afhroð í Stardal (sjá meðfylgjandi myndir)? Við rákumst á þessa tvo bolta í vikunni, sem eru staðsettir efst á stuðlinum vestan megin við „mamma þín er vestan við Scotts leið“. Ég veit ekki hvers konar vinnubrögð liggja að baki slíkra bolta, sem ganga allir til og skaga langleiðina út á þingvallaveg. Þetta eru ekki nornaveiðar í leit að einhverjum sökudólgum, en þetta er ágætis tækifæri til að minna fólk á tvennt:

    1. Ef ætlunin er að setja inn bolta í klifurleið, viljið þið vinsamleast kynna ykkur rétt og örugg vinnubrögð og búnað, eða láta boltun alfarið vera ef þið treystið ykkur ekki til að gera hlutina rétt.

    2. Það hefur ekkert breyst varðandi Stardal, boltun er enn óheimil og biðjum við fólk að virða það, hvort sem það er vegna klifurs eða í öðrum erindagjörðum.

    Okkur fannst viðeigandi, í tilefni þessa, að klifra leiðina „Mamma þín er vestan við Scotts leið“ þangað upp, og fjarlægðum við svo boltana með sem bestu móti með þeim verkfærum sem við höfðum. Það standa enn smá stubbar uppúr, svo ef einhver er með réttu verkfærin í að ganga snyrtilega og endanlega frá þessu, má gjarnan gera það. En það fer í það minnsta enginn að drepa sig á boltunum úr þessu.
    Ef eigandinn vill fá augun og rærnar aftur má hafa samband við mig.

    Ætli við getum samt ekki þakkað bolturunum fyrir það að setja boltana inn örfáa metra frá sprengjuheldum akkerishnullungum… gerði vinnuna fyrir okkur miklu fljótlegri.

    En að öðru og skemmtilegra máli, þá hreinsaði ég og klifraði óskráða leið í Miðvesturhamri sama dag, nánar til tekið á utanverðum stuðlinum milli Lúsífer og 7-up. Fínasta skemmtun (þó ég segi sjálfur frá) í góðu bergi. Þar sem menn hafa klifrað hverja steinvölu í Stardal upp, niður og á hvolfi, geri ég ráð fyrir að góður séns sé á að einhver hafi klifrað þetta, en ég tek mér samt það bessaleyfi að skrá hana þar til annað kemur í ljós. Ef einhver veit meira um hana, þá eru allar upplýsingar vel þegnar (mynd fylgir), og gráðan er ekki heilög.

    Vargur, 5.7, 20m **
    Leiðin byrjar á utanverðu nefinu hægra megin við lúsífer, hægra megin við stóra þakið neðst, og upp á stóra syllu.
    Þaðan er utanverður stuðullinn (EK) klifinn upp á topp á skemmtilegum tökum. Bannað að nota tök í vinstri sprungu og stuðli.

    Til að enda þetta á góðu nótunum vil ég bara nefna það hversu gaman er að sjá strax svona mikla umferð klifrara í Stardal, og ekki einu sinni kominn miður maí. Þetta stefnir í hörku sumar!

    • This topic was modified 5 years, 7 months síðan by Siggi Richter.
    • This topic was modified 5 years, 7 months síðan by Siggi Richter.
    #67727
    Siggi Richter
    Participant

    [Mynd af „nýju“ leiðinni]

    Attachments:
    #67736
    Siggi Richter
    Participant

    Uppfærsla:
    Við Samúel Þór Hjaltalín fórum upp í Stardal eftir vinnu í gær, með réttu verkfærin í fórunum og gengum endanlega frá boltunum (eða eins og hægt var). Þar sem boltarnir voru laflausir í hulsunum og hringsnerust bara, var nær ómögulegt að bora þá út. Og að sjálfsögðu var ekki hægt að reka þá inn heldur, svo við náðum bara að skera ofan af þeim og hylja eins og við gátum með epoxí.

    Við uppgötvuðum líka þrjá mun eldri (en þó vandaðri) bolta ofar á brúninni (spurning hver tilgangur þeirra hefur verið?), en þar sem þeir voru orðnir ryðgaðir og slappir, og mögulega einhverjar óhentugar málmblöndur, tókum við þá í leiðinni. Mun auðveldara að ganga frá þeim og fylla í holurnar, og varla hægt að sjá að nokkurn tíma hafi verið ráðist á klettinn með borvél.

3 umræða - 1 til 3 (af 3)
  • You must be logged in to reply to this topic.