Svínafellsjökull um Hafrafell

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Svínafellsjökull um Hafrafell

  • Höfundur
    Svör
  • #67617

    Góðan daginn
    Ég hef um tíma verið að velta fyrir mér hver gæti verið besta leiðin til að komast inn á Svínafellsjökul og upp að suðurhlíð Hrútsfjallstinda eftir að jökullinn hopaði alveg frá Hafrafelli. Leiðin yfir skriðuna sem féll úr Svínafelli er ekki heillandi vegna þess hversu torfær hún er og tímafrek. Ég lá þess vegna yfir loftmyndum og hugsaði upp nokkra möguleika. Á endanum sá ég leið sem er búinn að vera fyrir framan augu manns í öll þessi ár. Það er að fara beint upp Hafrafellið frá bílastæðinu og ganga inn með fjallinu og
    svo niður stórt gil þegar maður er kominn ca 1.2 km inn Hafrafellið.

    Mig grunar að smalar í Öræfum ættu að þekkja þessa leið. Hlíðin ofan við bílastæðið er mun þægilegri en ég þorði að vona, eitt eða tvö klettabelti og svo brattar mosabrekkur. Hækkun um 200 metrar upp á áberandi stall í fjallinu og þá byrjar maður að ganga inn meðfram hlíðinni. Eftir um það bil kílómeters göngu kemur maður að gilinu sem heitir að mér sýnist Meingil, ef marka má kort af fjallinu. Staðsetning tekin af korti er ca N 64°00,934 V 16°51,664. Niðurklifur tvö klettahöft og maður er kominn niður í gilið og þaðan er auðveld leið niður að jökli.
    Best er síðan að ganga aðeins inn með jöklinum þangað til að hann verður auðveldri yfirferðar og ganga þá á jökulinn og inn að Hrútsfjalli eða upp í átt að Hnjúk, allt eftir áhuga hverju sinni 🙂 Frá bílastæðinu og inn að jökli eftir þessari leið ca einn og hálfur tími varlega áætlað í tíma.

    Um síðustu helgi fórum við þrír félagar þessa leið inn á jökul og hugðumst fara á Vesturtind. Við lögðum af stað klukkan 2145 á föstudagskvöldi frá bílastæðinu, nokkuð þungklyfjaðir með svefnpoka og héldum þá leið sem lýst er að ofan. Á leiðinni inn Hafrafell eru nokkur gil sem að geta afvegaleitt mann of snemma niður á jökul en það fer ekkert á milli mála þegar maður kemur í stóra gilið sem maður á að fara niður, það er mjög breitt og djúpt.

    Við vorum á góðum tíma inn á jökul en tungleysi og myrkur leiddi til að við sóuðum tíma í að reyna að fara of snemma inn á jökul. Sprungusvæðið beint neðan við gilið er mjög erfitt á þessum árstíma. Grófum okkur snjóhús í sprungu milli 0030 og 0130 og sofnuðum um 0200. Morguninn eftir voru svefnpokarnir og holan of hlý til að reka okkur af stað svo að við vorum of seint á ferð. Fórum aðeins upp í Suðurhlíðar til að taka myndir og njóta þess að vera til en héldum svo niður á láglendi aftur. Við gengum yfir skriðuna og niður jökul að „Batman“ svæðinu til að kanna ástandið á þeirri leið. Eftir þá göngu mæli ég allan tímann með að fara frekar Hafrafellið. Skriðan og jöklaplampið var ekki skemmtilegt og maður þarf helst að fara alveg út í Svínafellið til að komast niður.

    Sem sagt, þarna er leið sem er tiltölulega auðrötuð og þægileg, vonandi ná einhverjir að nýta sér hana og klifra eitthvað frábært!
    Sjáumst á fjöllum
    Ági

    Attachments:
    #67620

    Nokkrar myndir í viðbót

2 umræða - 1 til 2 (af 2)
  • You must be logged in to reply to this topic.