Stuðlaberg hjá Klaustri

Home Umræður Umræður Klettaklifur Stuðlaberg hjá Klaustri

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #46430
    Siggi Tommi
    Participant

    Skellti mér á Hnappavelli og í Skaftafell um helgina til að klippa í bolta og brölta á hóla. Ekki er þetta svo sem í frásögur færandi nema fyrir það að á undanförnum ferðum mínum austur í land hef ég tekið eftir ansi reisulegum stuðlabergshamri við bæinn Núpa (Núpar), u.þ.b. 20km austur af Kirkjubæjarklaustri.
    Stálið er á að giska 20-30m hátt þar sem það er hæst og teygir sig fleiri hundruð metra undir nokkuð sléttum mel. Undir hamrinum er brött skriða og vont að vita hvort hún er vænleg til uppgangs og hvort aðstæður til toppunar séu góðar á melnum.
    Hefur einhver upplýsingar um þennan ágæta hamar? Er þetta klifranlegt berg eða ekki?

    Annað sem ég hefði áhuga á að vita er hvort einhver lumi á upplýsingum um stórglæsilegan dranga sem trónir nálægt hæsta punkti Illukletta í Hafrafelli (í Skaftafelli, milli Skaftafells- og Svínafellsjökuls). Hann er á að giska 15-20m hár móbergsdrangi og utan um spíru neðan toppsins er sigakkeri (prússíkband eða álíka) þannig að einhverjir hafa bersýnilega farið þarna upp. Klifrið virtist ekki vera sérlega erfitt (stórar flögur sem skaga út norðanmegin og handaþykk sprunga sunnanmegin) en hætt við að tryggingar gætu verið af skornum skammti (og vafasamar í móbergssullinu). Væri gott að fá einhverjar upplýsingar um þennan gaur…

    #48099
    Jón Haukur
    Participant

    Svæðið við Núpa hefur verið nefnt Tappavellir, sjá umfjöllun í síðasta ársriti Ísalp og mynd á bls 63. Það er búið að klifra vel á annan tug stigaleiða og a.m.k eina venjulega dótaleið.

    Spíran á Hafrafellinu hefur margoft verið klifruð af drulluspíruhöfðingjum landsins, fyrsta skiptið sem ég man eftir er um páskana 1986 af Björgvini Richards og Kristjáni Maack kópvíkingum. Þetta er nú reyndar ekki nema rétt rúmlega 10 m. en engu að síður ágætis skemmtan. (sjá mynd í ársritinu 87).

    góðar stundir.

    jh

    #48100
    Siggi Tommi
    Participant

    Ljómandi! Gott að vita þetta.
    Eru stuðlarnir s.s. heldur illa til dótaklifurs fallnir – einsleitir og með þunnum sprungum kannski? Eða hafa menn kannski lítið nennt að leita þangað í dótaklifrið sökum annars prýðilegrar aðstöðu í Stardal, sem er óneitanlega á mun hentugri stað fyrir höfuðborgarbúa.

    Kíki á ársritið við tækifæri og máski upp að berginu næst þegar ég á leið hjá.

    Þakka upplýsingarnar…

    #48101
    2802693959
    Meðlimur

    Í gegnum aldirnar hafa Öræfingar haft lag á að styggja fáa og fara með góðu! Klettaspírurnar á Hafrafelli bera vitni um það. Framar (sunnar) og lægra standa Fremrimenn en ofar og norðar standa Efrimenn. Þannig var á engann hallað í nafngiftum. Klettaspíran sem er oftast klifinn er hluti Fremrimanna.

4 umræða - 1 til 4 (af 4)
  • You must be logged in to reply to this topic.