Nokkrir fisléttir punktar fyrir klifurþing 2023

Home Umræður Umræður Almennt Nokkrir fisléttir punktar fyrir klifurþing 2023

  • Höfundur
    Svör
  • #83850
    Siggi Richter
    Participant

    Nokkrir punktar fyrir klifurþing 

    Góðan og blessaðan daginn, ég vil vara við lengstu langlokunni til þessa. Þess vegna hlífi ég Facebook við þessum texta í pósta honum á isalp.is í staðinn 😉 Nú hefur verið boðað til klifurþings, þar sem á að ræða einhver hitamál innan íslenska klifursamfélagsins, og ég hvet eindregið Ísalpara til að mæta á þingið og vera með í umræðunni á laugardag. Þar sem fyrirvarinn fyrir þetta þing var stuttur, gafst mér ekki tækifæri til að koma til Reykjavíkur og vera með í umræðunni. Ég vona að einhverskonar fjarfundarbúnaður verði til staðar fyrir þau okkar sem ekki komist í höfuðborgina, svo fleiri geti tekið þátt. Þar sem það er hins vegar ekki ljóst, langar mig að draga saman nokkra punkta um þau mögulegu (óljósu) mál sem eru á dagskrá, enda heyrist mér þetta vera mál sem þegar hafa verið rædd í þaula. Þó svo við getum auðvitað líka rætt þetta hér, þá er þetta fyrst og fremst til að fá forskot á umræðuna með skoðunum og spurningum sem eru algjörlega mínar eigin, og ég deili þeim bara hér til að leggja í umræðupúkkið.

    Yfirlit og helstu spurningar: 

    • Aðgengismál
      • Mikilvægt að fá alltaf leyfi landeigenda fyrir uppbyggingu klifursvæða
      • Passa upp á áframhaldandi aðgengi að klifursvæðum í kjölfar eigendaskipta
    • Gráðukerfi
      • Hvað mun nýtt gráðukerfi bæta?
    • Gráðubreytingar á klifurleiðum
      • Er einhver ávinningur af statískum heildarhækkunum klifurgráða?
      • Er eitthvað meira samræmi í gráðum annars staðar?
      • Hvaða útland erum við að miða okkur við?
      • Eðlilegra að nota orkuna frekar í að laga misræmi milli leiða innanlands?
    • Dót og sport í sátt og samlyndi?
      • Dæmi um svæði þar sem dótaleiðir eru ekki „leyfðar“? og ástæður fyrir því?
      • Er það vandamál að klifursvæði séu blönduð af sport- og dótaleiðum? Er það ekki betra upp á fjölbreytni og möguleika fólks til að stunda fleiri klifurstíla?
      • Er einhver ástæða fyrir að Ísland ætti að hundsa klifursiðferði flestra annarra landa og skera sig úr?
      • Ástæða til að draga úr boltun auðtryggjanlegra leiða (sprungna) og gamalla dótaleiða.
    • Niðurlag

    Aðgengismál

    Aðgengismál eru virkilega mikilvægt mál sem þarf að brýna á, sérstaklega þar sem mörg ný svæði hafa bæst í sarpinn, og nú virðast landsankandi athafnamenn farnir að spíta í lófana og kaupa upp hin ýmsu landsvæði, þ.m.t. klassísk íslensk klifursvæði. Á nýjum klifursvæðum er mikilvægt að hafa samskipti við landeigendur góð, og á það sérstaklega við um sportklifur, þar sem það er eini stíllinn sem raunverulega reiðir sig á að varanlega sé haft áhrif á klettana. Því ÞARF að fá leyfi frá öllum landeigendum og hagsmunaaðilum áður en farið er í slíka vinnu. Og það á við um ÖLL svæði, og sérstaklega mikilvægt að fá öll tilskilin leyfi innan svæða sem eru friðuð, á náttúruminjaskrá, fólkvangar o.þ.h.. Það hefur yfirleitt verið vel staðið að þessu og okkar bestu klifursvæði orðið til vegna góðra samskipta við landeigendur og velvild þeirra. Svo við skulum ekki gleyma okkur, höldum samskiptunum áfram góðum, en stöndum líka vörð um gömlu svæðin og aðgengið að þeim.

    Klifurgráðurkerfi, YDS eða annað?

    Þar sem komin eru hér tvö gráðukerfi fyrir sama klifurstílinn, þ.e. sumir hér eru farnir að blanda franska sportkerfinu ofan í venjulegu YDS gráðurnar, geri ég ráð fyrir að einhverjir vilji alfarið fá franska kerfið í stað þess ameríska. Sjálfum þykir mér þetta óþarfa flækjustig fyrir gráðukerfi sem er nákvæmlega eins og það gamla, þetta er hreinlega beinþýðing, og fullt af fólki hér sem hefur enga reynslu af franska kerfinu. Og svo er líka saga í því að hér var bandaríska kerfið fyrst notað. Svo mig langar endilega að vita hver rökin og hvatinn er bak við nýtt kerfi. Ef er mikil meirihluti sem vill fá franska kerfið, þá er um að gera að ræða það á þinginu og taka ákvörðun um það. En sjálfur styð ég áfram að halda hlutunum einföldum og nota YDS kerfið fyrir allt klettaklifur hér.

    Mig langar hins vegar að gera eina kröfu: ef farið verður í að skipta út YDS kerfinu, þá fer ég fram á það að gráðum fyrir dótaleiðir verður skipt út fyrir Breskar gráður, þar sem franskar gráður eru vitagagnslausar í dótaleiðum. Ég get ekki útskýrt af hverju, en það virðist bara vera ómögulegt að geta treyst á franskar gráður í dótaleiðum, sérstaklega í auðveldari sprunguleiðum. Kannski ekki að ástæðulausu að ekkert nágrannaland notar franskar gráður fyrir trad. Á hinn bóginn bætir breska kerfið einhverju nýju við umfram YDS of franskar gráður og er einstaklega gagnlegt fyrir dótaleiðir, þar sem það segir bæði til um erfiðleika og alvarleika.

    Klifurgráður

    Nú hefur lengi verið rætt um að ísland sé ógurlegt útsker, óbyggilegt vegna ágangs hins vægðarlausa “sandbaggs”, sem vart þekkist annarsstaðar. Þetta eru í það minnsta umræðan sem ég heyri, en get ekki tekið undir. Ef á að skoða heildstæðar, stýrivaxtainnblásnar gráðubreytingar, finndist mér gott ef fólk gæti svarað þessum spurningum fyrst:

    • Hvað nákvæmlega erum við að miða okkur við?
    • Hefur þetta verið gert annars staðar og skilað árangri?
    • Hver er ávinningurinn?
    • Hver eru rökin fyrir því að það sé nauðsynlegt?
    • Yrðu breytingar gerðar í samráði við frumfarendur?

    Síðustu árin hef ég klifrað í Þýskalandi, Svíþjóð, Englandi, Írlandi, Frakklandi og Ítalíu og fundið nóg af gömlum, klassískum, vinsælum svæðum í öllum þessum löndum sem gefa okkar gráðum á skerinu ekkert eftir.

    Dæmi: Heimsklassa 5.10c spannir í Ítölsku ölpunum sem bjóða upp á svipaðar hreyfingar og Kokteill. Þriggja stjörnu 5.11a í Frankenjura með miklu erfiðari byrjunarhreyfingum en krúxið í Í Skjóli Nætur. Tveggja stjörnu 5.11b krúx í Stanage sem ég gat ekki einu sinni komist upp í ofanvaði (hef ekki enn prófað 5.11 á hnappó sem ég get ekki í það minnsta krafsað mig upp). Últraklassískar 5.11d þaksprungur í Bohuslän, töluvert erfiðari en Bagdad Café. Vinsæl 5.10a í stærsta kragginu í Ith sem gefur Janusi ekkert eftir. 5.10 í Fair Head sem ætti vel heima á Svarta veggnum í Stardal.

    Svo þegar fólk vill breyta gráðum á Íslandi í takt við “útlandið”, þá finnst mér mikilvægt að við hin sem erum ekki svo heppin að þekkja rétta “útlandið”, hvaða “útland” viljum við bera okkur saman við umfram annað, og af hverju? Og er yfir höfuð eitthvað samræmi í “útlandinu”? Ég hef fengið að heyra frá mörgum þaulvönum klifrurum sem klifrað hafa hér á landi síðustu ár, að þó svo nóg sé af stífum gráðum hér, eru engar svo erfiðar að ekki sé hægt að finna sambærileg svæði í útlandinu (dæmi sem nefnd hafa verið: Frankenjura, Zillertal, Briancon, Yosemite). Einnig hef ég heyrt að það séu ekki erfiðu gráðurnar sem fari í taugarnar á þeim, heldur er það óheryilegt ósamræmið sem hefur skapast hérna, oft getur verið tölugráðu munur á milli leiða af sömu gráðu í sama stíl, jafnvel í sama harminum. Og eru það líka vegna ýmsra nýlegri leiðanna (síðustu kannski 15-20 ára) sem eru hreinlega alltof hátt gráðaðar. Svo spurningin er; er ekki eðlilegra að við einbeitum okkur að því að laga gráður einstakra leiða, til að skapa samræmi milli leiða hér á landi? Er það ekki aðal markmiðið með þessum blessuðu gráðum?

    Svo þykir mér það ekki góð vinnubrögð að breyta gráðum á leiðum annarra umræðulaust. Ég mun sjálfur í það minnsta afþakka allar gráðubreytingar sem gerðar eru á mínum leiðum, sem ekki eru byggðar á persónulegri reynslu annarra af þeim leiðum. Á hinn bóginn mun ég með glöðu geði taka öllum tillögum fagnandi, sem lagðar eru til út frá reynslu annarra af leiðunum og með rökum, enda veit ég vel að ég er alveg jafn gagnslaus að gráða leiðir og hver annar stakur einstaklingur hér.

    Þessar blessuðu gráður eru líka góð æfing fyrir sálina, því: Þetta eru bara gráður! Festurnar verða hvorki stærri né leiðin skemmtilegri með breyttri gráðu, svo tökum bara gráðunum fyrir það sem þær eru: skoðanir annara einstaklinga sem eru örugglega með allt annan apastuðul en þú. Reynum að leysa úr þessu vandamáli með góðri umræðu, og það gerist bara ef fólk sem klifrar leiðirnar deilir sinni upplifun og ber þær saman við aðrar svipaðar leiðir í kring, svo fólk af öllum gerðum, styrkleikum, kynjum og apastuðlum geti haft áhrif á gráðurnar!

    Ég get bara sagt það hér og nú að þessi umræða skilar árangri. Ég er sjálfur að vinna að nýjum leiðavísi fyrir Stardal, og út frá umræðunni, skráðum “uppferðum” á netinu og rökræðum í dalnum, og í samráði við ýmsa af eldri klifrurum dalsins og frumfarendum, hefur góður skurkur af leiðum fengið gráðu aðlögun. Sumar leiðir fengið hærri gráður, sumar lægri, allt eftir því hvort þær standast samanburð við sambærilegar leiðir í Stardal og á öðrum íslenskum svæðum. Ég veit líka að ýmsar stakar leiðir hafa fengið seinni tíma gráðubreytingar í Hnappavallaleiðavísi Jóns Viðars og Stebba síðustu árin, væntanlega í kjölfar gagnlegra umræða klifrara sem deilt hafa sínum skoðunum. Að sjálfsögðu eigum við enn langt í land, en ég get vottað það að umræðan skilar engu að síður árangri og vonandi getum við bætt samræmið enn meira með meiri þátttöku í framtíðinni✌

    Dótaleiðir eða ekki

    Skil ég þetta rétt, á að ræða boltun dótaleiða? Eða bann á klifri dótaleiða á ákveðnum svæðum? Þar sem umræðan er ekki alveg ljós, vil ég bara draga upp mynd af siðferðinu í flestum öðrum löndum og vona að það svari mögulegum spurningum.

    Frumfarandi ákveður stílinn 

    Það er alltaf þannig að sá sem klifrar leið fyrstur hefur mest um það að segja hvernig leiðin er klifruð í framtíðinni. Ef leiðin er klifruð í dóti, þá helst hún boltalaus. Ef leiðin er boltuð af frumfaranda, þá helst hún sem sportleið. Það þýðir að ef er leið upp klettinn fyrir, þá fær næsti maður með borvél ekki leyfi til að koma fyrir boltum innan eldri dótaleiðarinnar, rétt eins og næsti maður með dótarakk fær ekki að choppa eldri bolta til að gera pláss fyrir nýja dótaleið. Markmiðið er að klifra leið í sama eða betri stíl en sá sem klifraði hana fyrstur. Á mörgum stöðum er meir að segja gengið svo langt að ef sportleið er seinna klifruð í dóti, þá fær sá klifrari skotleyfi á að fjarlægja boltana (þó það sé sjaldan gert í dag). Svo verið bara fegin að það er ekki leikregla hér á landi 😉

    Svæði tileinkuð klifurstílum? 

    Á mörgum svæðum í útlandinu hafa verið settar reglur um hversu mikið eða hvort megi yfir höfuð koma fyrir varanlegum tryggingum (fyrst og fremst boltum), og er það yfirleitt gert af annað hvort nátturuverndar- eða ævintýrasjónarmiði. Á öðrum svæðum eru engar takmarkanir á boltum, nema landeigendur setji þær sjálfir. Svo frekar en að líta svo á að í heiminum séu “sportsvæði” og “dótasvæði”, þá er það þannig að ef leyfi fæst, þá má bolta hvar sem er, svo fremi sem það sé ekki innan þessara stöku vernduðu svæða, eða að leiðin hefur verið klifruð áður í hreinni stíl. Hvar eru dæmi um hrein „sportsvæði“ úti í heimi þar sem ekki má klifra boltalaust? Meir að segja í kalksteins-sport-kröggunum í katalóníu fá þeirra fáu dótaleiðir yfirleitt að halda sér í þeim stíl.

    Auðtryggjanlegar, óklifraðar leiðir 

    Hvert er markmiðið með boltum í klifri? Fyrst og fremst hafa boltar verið notaðir í gegnum tíðina þar sem ekki er mögulegt að koma fyrir náttúrulegum tryggingum á raunhæfan hátt, yfirleitt til að gera ótryggjanleg fés og veggi aðgengilega fyrir klifur á öruggan hátt. Á sama tíma þýðir það að í þeim tilvikum þar sem kletturinn býður upp á augljósa tryggingamöguleika sem gera klifrið öruggt án bolta (yfirleitt augljósar sprungur), fá þær leiðir að haldast boltalausar, klifraðar eða óklifraðar. Það að auðtryggjanlegar sprungur er alla jafna litið hornauga í “útlandinu”, enda er verið á einn eða annan hátt að fjarlægja möguleikann fyrir næstu kynslóðir að frumfara nýjar leiðir í hreinni stíl, af því að einhver í dag var of þver til að kynna sér tæknina. Og það að láta þessar sprunguleiðir vera veldur fólki sjaldan hugarangri, enda fyrir hverja sprunguleið þarna úti, eru ógrynni af ótryggjanlegum fésum þar sem boltar trufla engan. Svo leyfum tryggjanlegu dótaleiðunum að standa ósnertar fyrir næstu kynslóðir sem gætu viljað reyna við leiðirnar í hreinni stíl, og boltum frekar einhver af þeim óteljandi fésum sem enn standa ósnert. Ég hef hvort eð er enn ekki hitt sportklifrarann sem hefur gaman af sprungutökum.

    Er vegið að sportklifrinu?

    Eru sportklifrarar á Íslandi svo leiðasveltir að þeir geta ekki leyft þriðju hverri leið að vera boltalaus? Eru sportleiðirnar sem fólk hefur hingað til sett upp svo ófullnægjandi að eina svarið er að bolta gömlu dótaklifur-manndómsraunirnar? Iða sportklifrarar hér á landi svo í skinninu að fá að rífa í þessa djúsi fingralása og hnefatök? Megum við ekki leyfa nýjum svæðum og leiðum að náttúrulega skiptast í sína viðeigandi klifurstíla? Nóg er í boði fyrir alla, og finnst mér þetta oftast bara snúast um frekju örfárra sem geta ekki hugsað sér að læra, eða jafnvel bara taka í sátt, aðra klifurstíla. Þetta bjagaða siðferði er löngu farið að vekja neikvæða athygli erlendra klifrara sem koma hingað og sjá gamlar dótaleiðir retroboltaðar, og boltalínur meðfram augljósum sprungum.

    Niðurlag

    Það getur að sjálfsögðu vel verið að ég sé að misskilja einhverjar af þessum umræðum og þetta sé yfir höfuð ekkert sem á að ræða um, og skrifa þetta með þeim fyrirvara. En ef þetta verður rætt vona ég að þessir punktar geti gagnast eitthvað í umræðunni og að tillit verði tekið að einhverju leiti til þeirra, enda væri ég ekki að nefna þessa punkta ef ekki væru margir aðrir klifrarar hér sem eru á svipuðu máli.

    Annars óska ég fólki góðs klifurþings, og vona að fari fram góðar og gagnlegar umræður, umræður sem geta nýst í mögulegar ákvarðanatökur í framtíðinni.

    #83853
    Iris Ragnarsdottir
    Participant

    Gaman að þessu og takk fyrir innleggið í umræðuna Siggi, ég vona líka að það sé hægt að varpa þinginu í fjarfund.

    Ég held að stærsta málið okkar séu klárlega aðgengismálin sem við þurfum að fara mjög vel og vandlega í og passa okkur um land allt að fara rétt að landeigendum og eiga samtalið við þau. Mistök á einum stað gætu haft slæm áhrif á aðgengismál annarsstaðar á landinu.

    Varðandi gráðurnar skiptir að mínu mati mestu máli að ná eitthverskonar samræmi innan klifursvæða, þ.e. að 5.7ur á Hnappavöllum séu nokkuð svipaðar innan svæðisins. Ef við berum saman Hnappavelli og Norðurfjörð eru klifurstílarnir svo gjörólíkir að það er líklega ekki rökrétt að það sé endilega samræmi á gráðum milli þeirra svæða. Fyrir mér snýst þetta að mestu leyti um öryggismál og því skiptir mestu máli að leiðir í auðveldari gráðum hafi samræmi innan þeirra. Maður getur auðveldlega séð fyrir sér að klifrarar sem hafa verið að klifra 6a inni í Miðgarði allan veturinn, skelli sér í eina gamla tíu í Miðskjóli (sem gæti ofan á allt verið boltuð á gamlamátann) detti og slasist illa.
    Ég hef ekki sterkar skoðanir á því hvort við eigum að skipta yfir í franskar gráður en ég held að það sé einfaldast að halda okkur við eitt kerfi.Vissulega ná frönskugráðurnar betur utan um 5.4-5.9.

    Ég sé ekki ástæðu fyrir því að sportklifur og dótaklifur eigi ekki að geta átt saman innan sömu klifursvæða. Þó langar mig að minnast á að „kapphlaup“ milli dótaklifrara og sportklifrara finnst mér heldur skondið og líklega algjör óþarfi. Og þá sérstaklega ef dótaklifrar reyna að klifra leiðir (sérstaklega í auðveldari gráðum) á vinsælum sportklifur sectorum sem fá svo mögulega R eða X gráðu. Er þá búið að búa til dótaklifurleið sem mjög fáir munu klifra en hefði getað orðið vinsæl 5.7 ef hún hefði verið boltuð. Það er þess virði að velta þessu fyrir sér.

    Varðandi boltun og dótaklifurleiðir skilst mér að aðal umræðuefnið varðandi boltun á dótaklifursvæðum sé hvort það eigi að bæta aðgengi í Stardal með því að setja einhverja sigbolta/akkeri uppi fyrir ofan hamrana og þá sérstaklega þar sem er erfitt að byggja akkeri. Það gæti gert það að verkum að svæðið yrði meira notað og að fólk sem er að komast inn í dótaklifur/sprunguklifur sjái tækifæri til að æfa sig og verði svo mögulega dolfallið fyrir fegurðinni á þessum klifurstíl.

    Yfir og út!
    Íris

    #83857
    Siggi Richter
    Participant

    Já er sammála því Íris og takk fyrir innleggið í umræðuna, aðgengismál er klárlega forgangsatriði, grunar að við séum öll á svipaðri blaðsíðu þar svo vonandi fáum við betri yfirsýn eftir þingið. 

    Tek undir að fyrsta skrefið er að laga til misræmi innan stakra klifursvæða, það ætti líka að vera frekar einfalt, enda sambærilegar leiðir. Ég er sjálfur ósammála því að það sé erfitt að bera saman svæði landsins, það er klárlega munur milli stíls og bergtegunda, en mér hefur samt fundist næg líkindi milli klifursvæða á landinu og yfirleitt auðvelt að bera saman (allavega að mestu leiti, með stöku undantekningu). En jú það er líka klárt mál að það þarf sérstaklega að laga misræmi milli leiða í lægri gráðunum. Hins vegar er mín persónulega reynsla og skoðun á franska kerfinu að það eru alltof margar gráður og gráðuafbrigði undir 6a, og langmesta ósamræmið í kerfinu er undir ca 6b. Þar þykir mér sjálfum Bandaríska kerfið henta betur bæði þar sem gráðubilin eru “stærri”, og auðskiljanlegri fyrir byrjendur (mun auðveldara að skilja gráðurnar ef þetta er bara frá einum og upp í níu, frekar en tala, bókstafur og plús). 

    Varðandi dótaleiðirnar er ég sammála því, að rétt eins og við viljum ekki vera að bolta auðtryggjanlegar leiðir, þá slær það skökku við að vera með haug af dótaleiðum upp ótryggjanleg fés. Ég kannast vel við kapphlaupið sem þú nefnir 😉 En frá dótaklifursjónarhorninu, hefur þetta kapphlaup yfirleitt orðið vegna þess að margir dótaklifrarar hafa reynt að “bjarga” augljósum sprunguleiðum frá því að vera boltaðar, enda hafa stöku klifrarar síðustu tuttugu ára af og til verið dálítið… fjölþreifnir í boltun autryggjanlegra leiða. Ég hef ekki orðið vitni af því að neinn dótaklifrari keppist um að ná dauða-fés-leiðum til þess eins að halda þeim boltalausum. En á sama tíma þykir mér líka allt í lagi að ein og ein leið inn á milli fái að reyna dálítið á andlega styrk klifrarans. R og X leiðir eiga líka vel rétt á sér og gaman fyrir komandi kynslóðir að geta mátað sig við slíkar manndómsraunir og fundið nýjar og hrikalegri leiðir, enda snýst klifur alls ekki bara um að hnikla vöðvana. Ekki að ástæðulausu að nóg er af slíkum leiðum í öllum okkar nágrannalöndum, leiðir sem oft mikil virðing er borin fyrir og eru á óskalista margra. En eins og þú segir, að sjálfsögðu þarf þetta að vera sjálfbært og þess virði að frumfarandinn pæli í hvar og hvort svona leiðir eigi rétt á sér, en ég hef enn sem komið er ekki miklar áhyggjur þar sem fjöldi slíkra leiða er hverfandi, eins og ég segi, jafnvel teljandi á fingrum annarrar handar. 

    Viðbótarumræða: Stardalur

    Ég hélt að fólk væri búið að gefast upp á Stardals umræðunni svo bjóst ekki við að það yrði rætt. En ég er svo sem enn sömu skoðunar þar, væri ég einráður, yrði dalurinn boltalaus, enda fjallamennskufílingurinn stór hluti af ánægjunni við að sitja uppi á brún í eigin akkeri eftir átökin, að njóta útsýnisins, finna innri ró og tryggja annan mann upp. En engu að síður sé ég ekki stóra vandamálið við stöku topp/sig tryggingu hér og þar, svo fremi sem ekki verða nein keðjukraðök hangandi framan á brún leiðanna, það held ég ekki að sé rétta lausnin. Það er líka á fæstum stöðum mögulegt að vera með akkeri undir brúninni, þar sem á flestum stöðum er engin “brún” sem slík, heldur minnkar einfaldlega halli leiðanna síðustu 3-10 metrana, þar til komið er upp á topp. Svo annað hvort yrði “brúna-akkeri” jafnvel 10 metra fyrir neðan toppinn, óaðgengileg að ofan, eða það hátt upp á brún að þau myndi hvort eð er ekki virka almennilega sem toppakkeri. En ein og ein varanleg topp-/sigtrygging hér og þar inni á brún færi varla í taugarnar á neinum. 

    Ég er með málamiðlunartillögu fyrir varanleg sigakkeri í Stardal: Fleygar! Komið yrði fyrir tveimur góðum fleygum saman á nokkrum stöðum (kannski 2-4 pör yfir hverjum hamri, um 15 í allt), sem svo væri hægt að binda saman með fábrotnum spotta og sighring. Í einhverjum tilvikum væri líka hægt að koma fyrir varanlegum spotta um grettistök eða aðrar náttúrulegar tryggingar. Fleygar eru mjög oft (ef ekki oftar en boltar) notaðir sem topp/sigakkeri í Evrópu og valda mun minni hugarangri en boltar, en eru samt engu óáreiðanlegri ef þeim er komið rétt fyrir. T.d. er fleygurinn hans Palla í Hvíta deplinum enn á sínum stað, og nú í sumar sá ég fullvaxinn mann taka leiðslufall í fleyginn, 36 árum seinna, án þess að fleygurinn blési úr nös! Fleygar falla betur inn í umhverfið og hafa minni áhrifum á bergið. Svo ef kemur á daginn að fólk vill aftur fjarlægja tryggingarnar, er lítið mál að berja fleygana úr. Eða þegar kemur að því að uppfæra fleygana, er lítið mál að koma nýjum fleyg fyrir í staðinn. Þessi lausn myndi þýða það að við gætum bæði fengið góð, varanleg sigakkeri inni á brún, og við þrjóskunasirnar yrðum stilltar þar sem borvélin kæmi ekki nálægt dalnum 😀 Er einhver ástæða fyrir því að varanlegu sigakkerin þurfi að vera boltuð? Góður fleygur kostar bara eitt þriðjudagstilboð, og aldrei að vita nema að Ísalparar sitji á gömlum ónotuðum fleygum sem vantar gott heimili, svo þetta yrði í þokkabót töluvert ódýrari lausn.

    Haha en nú gleymdi ég mér aftur, farinn að röfla, þegar ég ætlaði mér ekki að gera þennan þráð að sér umræðulangloku. Takk aftur fyrir innleggin í umræðuna Íris, það verður greinilega nóg til að ræða um helgina! 

    Pís át ✌️
    – nöldrarinn sem aldrei hættir

    • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Siggi Richter.
    • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Siggi Richter.
    • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Siggi Richter.
    #83867
    Sissi
    Moderator

    Ég get nú bara tekið undir flest hjá þér Siggi. Ég reyndi að starta smá umræðu um þetta snemmsumars, þú tókst nú þátt í henni.

    En mér finnst þetta enn ofsalega tilgangslaus gjörningur, ruglingslegur, illa rökstuddur, huglæg einstaklingsbundin sjónarmið og eins og þú segir þá virðast umræður og ákvörðunartaka í þessu máli hafa farið fram í frekar litlum hópi.

    Ég var nú bara svona miðlungsklifrari upp á mitt besta en ég hef samt klifrað í Chamonix og Orpierre í Frakklandi, nokkrum stöðum í Skotlandi, Tyrklandi, Thailandi, Lofoten í Noregi, Korsíku, El Chorro á Spáni og örugglega eitthvað fleira sem ég er að gleyma. Samt eru nú allar mínar erfiðustu leiðslur á Íslandi, þrátt fyrir að ég sé akkúrat að klifra þessar gráður sem umræðan snýst um.

    Milli landa og svæða er bara ofsalega ólíkur karaketer og samanburður er smá erfiður. Þetta er huglægt mat. Það er því bara ansi góður árangur ef það næst svona þokkalegt innbyrðis jafnvægi milli svæða hérlendis og bara til að æra óstöðugan að fara að eltast við útlönd. Líka eins og þú segir, hvað eigum við að miða við? Við getum örugglega fundið einhver svæði með erfiðari gráðum þannig lagað.

    Annað sem þú nefnir, ég er með-höfundur nokkurra leiða ásamt félögum mínum. Við eyddum til dæmis miklum tíma í Svarta Turninn, sem átti alltaf að vera fjölspannaleið í léttari kantinum á þessum stað, í Búahömrum, nálægt höfuðborginni. Við færðum okkur til frá upphaflega planinu þar sem upphaflega línan sem við höfðum í huga var nær 5.10, við vildum hafa þetta tops 5.8. Núna er hún gráðuð 6a á klifur.is (og reyndar líka 5.8, sem er ekkert ruglingslegt, bara nákvæmlega ekkert).

    Ég myndi segja að seinni tíma leiðir væru margar hverjar vandaðar, vel boltaðar og býsna rétt gráðaðar. Auðvitað voru sumar gömlu leiðirnar í vel stífari kantinum þegar maður byrjaði í lok síðustu aldar, en síðan er búið að breyta nokkrum gráðum og bæta við boltum í sumar leiðir.

    Okkar leiðir fengu ca. gráðu og voru síðan klifraðar af nokkrum klifurum áður en loka gráða var sett á þær. Mér þykir það bara fínar gráður.

    Það er þvæla að fyrsta spönn í Svarta Turninum sé 5.10 (6a). Það er þvæla að Skuggi í Valshamri sé 6a+. Mér finnst gráðurnar sem við settum að endingu á þessar leiðir bara eðlilegar.

    Hvað sem öllu líður þá er þetta býsna gerræðislegt og skrýtið allt saman. Er þetta virkilega nauðsynlegt?

    (Ljósmynd: Andri Bjarnason býr sig undir leiðslu í „6a“ spönninn í Svarta Turninum í einum hvítum Converse)

    • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Sissi.
    • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Sissi.
    • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Sissi.
    • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Sissi.
    #83904
    Gunnar Már
    Participant

    Voru einhverjar góðar niðurstöður af Klifurþinginu? Fáum við toppakkeri í Stardal?

    Ég hef ekki neina sterka skoðun hvort það eigi að nota franska kerfið eða það ameríska en tek undir að það er mjög bagalegt þegar það er svona ósamræmi milli gráðukerfanna eins og er núna á klifur.is
    Ég er sjálfur hrifinn af því að nota 8a.nu og þar geta allir stungið upp á sinni gráðu og mér finnst oft gagnlegt að skoða það og allavega taka með í reikninginn, vildi að fleiri Íslendingar myndu nota hana.

5 umræða - 1 til 5 (af 5)
  • You must be logged in to reply to this topic.