Home › Forums › Umræður › Ís- og alpaklifur › Ísklifurfestivali lokið › Re: svar: Ísklifurfestivali lokið
Gott að heyra frá ykkur! Ég held að allir hafi dregið einhverjar ályktanir af þessum degi og lært af mistökunum. Ég er sammála Herði um að dómgreindin hafi sljóvgast við það að vera kominn langt að til að klifra, löngunin varð kannski skynseminni yfirsterkari. Þegar margir eru á ferð getur maður einnig upplifað falska öryggiskennd, líkt og maður sé meira ,,safe” með fullt af fólki í kringum sig.
Held að það sé rétt hjá Rúnari að þegar svona breiður hópur fer saman til fjalla þurfi einhver að vera við stjórnvölinn. Það er einnig rétt að svona vesen getur verið slæmt fyrir klúbbinn, ég heyrði frá Reykvíkingi sem var veislustjóri á þorrablóti á Súðavík og tjáði hann mér að fólk hefði beinlínis orðið bálreitt þegar það frétti af einhverjum ,,vitleysingum að sunnan” sem voru í Naustahvilft að leika sér eftir snjókomu undanfarna daga og töldu einhverjir víst að þetta myndi enda illa. Veit nú ekki hvort nafn klúbbsins hafi borið á góma en svona getur verið slæmt fyrir orðspor hans.
Ég vil að lokum þakka fyrir mig, þetta var góð helgi. Ekki spurning að maður kemur aftur innan skamms því ekki vantar klifurmöguleikana fyrir vestan!
Kveðja, Andri