Reply To: Nokkrir fisléttir punktar fyrir klifurþing 2023

Home Umræður Umræður Almennt Nokkrir fisléttir punktar fyrir klifurþing 2023 Reply To: Nokkrir fisléttir punktar fyrir klifurþing 2023

#83857
Siggi Richter
Participant

Já er sammála því Íris og takk fyrir innleggið í umræðuna, aðgengismál er klárlega forgangsatriði, grunar að við séum öll á svipaðri blaðsíðu þar svo vonandi fáum við betri yfirsýn eftir þingið. 

Tek undir að fyrsta skrefið er að laga til misræmi innan stakra klifursvæða, það ætti líka að vera frekar einfalt, enda sambærilegar leiðir. Ég er sjálfur ósammála því að það sé erfitt að bera saman svæði landsins, það er klárlega munur milli stíls og bergtegunda, en mér hefur samt fundist næg líkindi milli klifursvæða á landinu og yfirleitt auðvelt að bera saman (allavega að mestu leiti, með stöku undantekningu). En jú það er líka klárt mál að það þarf sérstaklega að laga misræmi milli leiða í lægri gráðunum. Hins vegar er mín persónulega reynsla og skoðun á franska kerfinu að það eru alltof margar gráður og gráðuafbrigði undir 6a, og langmesta ósamræmið í kerfinu er undir ca 6b. Þar þykir mér sjálfum Bandaríska kerfið henta betur bæði þar sem gráðubilin eru “stærri”, og auðskiljanlegri fyrir byrjendur (mun auðveldara að skilja gráðurnar ef þetta er bara frá einum og upp í níu, frekar en tala, bókstafur og plús). 

Varðandi dótaleiðirnar er ég sammála því, að rétt eins og við viljum ekki vera að bolta auðtryggjanlegar leiðir, þá slær það skökku við að vera með haug af dótaleiðum upp ótryggjanleg fés. Ég kannast vel við kapphlaupið sem þú nefnir 😉 En frá dótaklifursjónarhorninu, hefur þetta kapphlaup yfirleitt orðið vegna þess að margir dótaklifrarar hafa reynt að “bjarga” augljósum sprunguleiðum frá því að vera boltaðar, enda hafa stöku klifrarar síðustu tuttugu ára af og til verið dálítið… fjölþreifnir í boltun autryggjanlegra leiða. Ég hef ekki orðið vitni af því að neinn dótaklifrari keppist um að ná dauða-fés-leiðum til þess eins að halda þeim boltalausum. En á sama tíma þykir mér líka allt í lagi að ein og ein leið inn á milli fái að reyna dálítið á andlega styrk klifrarans. R og X leiðir eiga líka vel rétt á sér og gaman fyrir komandi kynslóðir að geta mátað sig við slíkar manndómsraunir og fundið nýjar og hrikalegri leiðir, enda snýst klifur alls ekki bara um að hnikla vöðvana. Ekki að ástæðulausu að nóg er af slíkum leiðum í öllum okkar nágrannalöndum, leiðir sem oft mikil virðing er borin fyrir og eru á óskalista margra. En eins og þú segir, að sjálfsögðu þarf þetta að vera sjálfbært og þess virði að frumfarandinn pæli í hvar og hvort svona leiðir eigi rétt á sér, en ég hef enn sem komið er ekki miklar áhyggjur þar sem fjöldi slíkra leiða er hverfandi, eins og ég segi, jafnvel teljandi á fingrum annarrar handar. 

Viðbótarumræða: Stardalur

Ég hélt að fólk væri búið að gefast upp á Stardals umræðunni svo bjóst ekki við að það yrði rætt. En ég er svo sem enn sömu skoðunar þar, væri ég einráður, yrði dalurinn boltalaus, enda fjallamennskufílingurinn stór hluti af ánægjunni við að sitja uppi á brún í eigin akkeri eftir átökin, að njóta útsýnisins, finna innri ró og tryggja annan mann upp. En engu að síður sé ég ekki stóra vandamálið við stöku topp/sig tryggingu hér og þar, svo fremi sem ekki verða nein keðjukraðök hangandi framan á brún leiðanna, það held ég ekki að sé rétta lausnin. Það er líka á fæstum stöðum mögulegt að vera með akkeri undir brúninni, þar sem á flestum stöðum er engin “brún” sem slík, heldur minnkar einfaldlega halli leiðanna síðustu 3-10 metrana, þar til komið er upp á topp. Svo annað hvort yrði “brúna-akkeri” jafnvel 10 metra fyrir neðan toppinn, óaðgengileg að ofan, eða það hátt upp á brún að þau myndi hvort eð er ekki virka almennilega sem toppakkeri. En ein og ein varanleg topp-/sigtrygging hér og þar inni á brún færi varla í taugarnar á neinum. 

Ég er með málamiðlunartillögu fyrir varanleg sigakkeri í Stardal: Fleygar! Komið yrði fyrir tveimur góðum fleygum saman á nokkrum stöðum (kannski 2-4 pör yfir hverjum hamri, um 15 í allt), sem svo væri hægt að binda saman með fábrotnum spotta og sighring. Í einhverjum tilvikum væri líka hægt að koma fyrir varanlegum spotta um grettistök eða aðrar náttúrulegar tryggingar. Fleygar eru mjög oft (ef ekki oftar en boltar) notaðir sem topp/sigakkeri í Evrópu og valda mun minni hugarangri en boltar, en eru samt engu óáreiðanlegri ef þeim er komið rétt fyrir. T.d. er fleygurinn hans Palla í Hvíta deplinum enn á sínum stað, og nú í sumar sá ég fullvaxinn mann taka leiðslufall í fleyginn, 36 árum seinna, án þess að fleygurinn blési úr nös! Fleygar falla betur inn í umhverfið og hafa minni áhrifum á bergið. Svo ef kemur á daginn að fólk vill aftur fjarlægja tryggingarnar, er lítið mál að berja fleygana úr. Eða þegar kemur að því að uppfæra fleygana, er lítið mál að koma nýjum fleyg fyrir í staðinn. Þessi lausn myndi þýða það að við gætum bæði fengið góð, varanleg sigakkeri inni á brún, og við þrjóskunasirnar yrðum stilltar þar sem borvélin kæmi ekki nálægt dalnum 😀 Er einhver ástæða fyrir því að varanlegu sigakkerin þurfi að vera boltuð? Góður fleygur kostar bara eitt þriðjudagstilboð, og aldrei að vita nema að Ísalparar sitji á gömlum ónotuðum fleygum sem vantar gott heimili, svo þetta yrði í þokkabót töluvert ódýrari lausn.

Haha en nú gleymdi ég mér aftur, farinn að röfla, þegar ég ætlaði mér ekki að gera þennan þráð að sér umræðulangloku. Takk aftur fyrir innleggin í umræðuna Íris, það verður greinilega nóg til að ræða um helgina! 

Pís át ✌️
– nöldrarinn sem aldrei hættir

  • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Siggi Richter.
  • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Siggi Richter.
  • This reply was modified 1 year, 2 months síðan by Siggi Richter.