Reykjavík
Reykjavík er ekki þekkt fyrir ísklifur en þó leynast einhverjar línur hér og þar.
Gufunes
Í frístundarmiðstöðinni í Gufunesi er gamall súrheysturn. Innan í honum eru klifurfestur þar sem að börn geta klifrað. Utan á turninum fékk alpaklúbburinn að koma fyrir úðarakerfi sem lætur vatn leka niður norðurhlið turnsins þegar að frost fer niður fyrir -2°C.
ATH: Eftir að turninn fékk langþráð viðhald og var endurmúraður að utan og gerður fínn, þá var ákveðið að ekki mætti lengur ísklifra á honum og grindin er því ekki uppi og úðarakerfið ekki virkt.
Ef einhver veit um stað á Höfuðborgarsvæðinu sem gæti hýst svipaðan vegg, þá má endilega hafa samband við klúbbinn.
Úlfarsfell
Nokkrar línur eru mögulegar í Úlfarsfelli en lítið er vitað um klifur í fjallinu. Norðurhliðin sem snýr að Mosfellsbæ hefur að geyma allskonar gilskorninga og veggi, suma hverja með ís. Þetta gæti orðið príðis svæði til að skjótast á og brölta aðeins.
Vitað er um eina leið á norðvestur hlið fjallsins, sem snýr að þjóðveginum. Leiðin er alla jafna stutt WI 3 en verður stundum jafnvel WI 2 eða bara snjóbrekka ef að gilið fyllist af snjó
Korputorg
Á Korputorgi kemur vatn út úr bergi á einum stað á bílastæðinu. Veggurinn er um 4-5m hár og myndar þetta byrjendavænar aðstæður til að æfa ísklifur
Höfðatorg
Komið hefur verið fyrir boltum á einum veggjana á Höfðatorgi. Um fjórar leiðir er að ræða
- Vinstri leiðin – 5.10a
- Hægri leiðin – 5.10c
- Byrja á vinstri og enda á hægri – 5.10c
- Byrja á hægri og enda á vinstri – 5.10b
Klifurfélag Reykjavíkur hefur fengið leyfi hjá eigendum til þess að mega klifra á veggnum. Eigendur hafa beðið um að nokkrum reglum sé fylgt:
- Ekki klifra á þeim tíma sem starfsemi er í byggingunni þ.e. 9:00-16:00 á virkum dögum, það truflar vinnufrið á skrifstofum.
- Ekki klifra á nóttunni þ.e. eftir 00:00.
- Ekki vera með óþarfa læti eða hávaða.
Svona leit turninn út í gær: https://www.isalp.is/wp-content/uploads/2018/01/20180121_150356.jpg
Vinstra megin nær ísinn alveg upp (er reyndar holur að innan). Ég og Dóri affrystum lögnina, svo að það ætti allt að virka fínt núna.