Nokkur orð um ísklifur í Kaldakinn

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Nokkur orð um ísklifur í Kaldakinn

  • Höfundur
    Svör
  • #60787
    Karl
    Participant

    Nokkur orð um ísklifur í Kaldakinn v/festivals.

    Fyrsta skiptið sem ég heyrði um ísfossana norðan Bjarga í Kaldakinn, voru sögur sem Aðaldælingar sögðu af skruðningunum sem fylgdu því þegar ísþilin í Ógöngufjalli hryndu í heilu lagi í asahlákum að vetri. Sögurnar voru ættaðar frá bæjunum Sandi og Sílalæk sem eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Ógöngufjalli, austan Skjálfandafljóts.
    Allir vita að aðal hætturnar við ísklifur eru naglakul, að meiða sig á broddunum og að vera laminn af klifurfélaganum. Auk þess er hægt að detta, fá ís í hausinn og leiða má að því líkum að hrun á heilu ísþili geti verið óheilsusamlegt fyrir þá klifrara sem eru það vitlausir að klifra þarna í hláku. -En það er örugglega ekki jafn sársaukafullt og helv naglakulið.

    Í jólafríi 1993 ókum við Jóhann Kjartanson norður að sjó og hreinlega slefuðum yfir öllum þessum ís! Ákváðum að klifra syðst í klettunum því þar væri styst að ganga niður eftir að hafa klifrað leiðina. Þetta var á þeim tíma sem það tíðkaðist ekki að síga niður úr ísleiðum nema sem liður í hreinni uppgjöf. Leiðin fékk nafnið Sólhvörf, -við lentum í niðamyrkri, -leiðin var mun hærri en okkur grunaði.
    Í framhaldinu voru fleiri leiðir klifraðar, út við sjó, í Rennunum og norðan Sóhvarfa. Mest af brottfluttum Akureyringum.

    Stekkjastaur
    Aðal markmiðið var auðvitað að klifra Stekkjastaur. Færið gafst á jóladag 1995. Hallgrímur Magnússon var líka búinn að míga utan í staurinn en hann skilaði sér ekki norður fyrr en annan í jólum.
    Við Tómas notuðum 50 metra línur og tókum 120m “staurinn” í tveimur spönnum. Mig munaði ekkert um að vita af Tómasi glíma við neðsta kertið á meðan ég bröltu fjórðu gráðuna í miðkaflanum með Tomma í “eftirdragi” á hlaupandi tryggingum, -hann var ekki vanur því að flagga og var auk þess bölvaður tittur.
    Ég komst í góðan stans nyrst í leiðinni og þá var Tommi kominn upp fyrir hangandi kertið.. Þetta var á þeim tíma sem fífað var við allar brattar millitryggingar og klifrað var á plastskóm.
    Tommi tók seinni spönn og var efsti hluti hennar fjandi strembinn. Einhvern veginn tókst honum að brölta yfir þunnan holklaka og íslausa brúnina með mig í eftirdragi.. Við gengum svo suður fyrir Sólhvörf og komum niður með Straumslæknum.

    Abalakov
    Það var mikil framför þegar klifrarar fóru að síga niður leiðirnar á V-þræðingum í stað þess að toppa og eiga fyrir höndum göngu í brattri snjóflóðahlíð og að þræða niður vafasamar snjóflóðalænur. Minnir að við Tómas, ásamt Hallgrími, höfum fengið á okkur spýju í einhverju gilinu þegar við vorum að brölta niður úr leið norðar á svæðinu nokkru síðar.

    Lífið fyrir topo
    Framhaldið þekkja menn. Við sem komum þarna fyrst vorum frekar kærulausir um skráningu á leiðum og topo kom ekki fyrr en löngu seinna. Einhverjir hafa þvi talið sig frumfara leiðir sem reyndust hafa verið klifnar áður. Við Olli vorum reyndar þeir fyrstu til að gera þetta. Bröltum Frygðina og töldum hana ófarna og leiðin Frygð, sem Hallgrímur og Tommi höfðu nýlega farið, væri leiðin sem seinna fékk nafnið Girnd. Hjá okkur Olla fékk Frygðin nafnið Lazarus þar sem Olli var, einu sinn sem oftar, að drepst úr lungnabólgu og þurfti góðan sótrheinsunarslurk af Jxxxson til þess að komast af stað úr bílnum. Til öryggis tók ég meðalið með og sótthreinsaði kallinn í hverjum stans. Annar væri hann löngu dauður.

    Miðnæturhraðlestin
    Á Ísfestivali 2000 götuðu tveir valinkunnir Þingeyingar vatnskassa á jeppa sínum við baráttu við skörina á Straumslæknum. Þeir komu druslunni á túrbínuverkstæðið í Ártúni en lögðu af þessum sökum seint af stað í klifrið og fóru hægt yfir. Þegar allir festivalsgestir höfðu lokið sínu klifri, vel mettir af kjötsúpu í samkomutjaldinu, voru Þingeyingarnir ennþá að berja ís ofarlega í nýrri leið norðan Frygðarinnar.
    Það var ómögulegt að láta þá tefja veisluhöldin að Stórutjörnum svo ég smalaði öllu liðinu í burtu. Man að einhverjir góðhjartaðir einstaklingar voru með tárin í augunum yfir þeirri mannvonsku að yfirgefa drengina í myrkrinu. Ég skildi jeppa eftir handa þeim og þeir skiluðu sér að Stórutjörnum um miðnætti. Þar fyrirhittu þeir góðglaða Ísalpara sem voru búnir að merkja nýju leiðina inn á bráðabirgðatópó og gefa henni nafnið “Midnight Express”.
    Líklega er einsdæmi í Íslenskri klifursögu að nafnið komi ekki frá FF en Þingeyingarnir ákváðu að una málinu og þeirra eigin nafn lifði ekki lengra en frá Björgum að Stórutjörnum. Góð saga gefur leiðum alltaf meiri karakter.

    Að Björgum
    Frá fyrstu tíð hafa ábúendur að Björgum verið áhugasamir um Ísklifrið og einstaklega hjálplegir.
    Það er forréttindi Ísklifrara að hafa aðgang að þessu svæði og njóta gestristni og hjálpsemi ábúenda.
    Menn ættu alltaf að láta vita af sér að Björgum áður en farið er úteftir og eins þegar farið er burtu. Fyrir Sunnlendinga er auðvitað best að gista að Björgum.

    Karl Ingólfsson

    • This topic was modified 8 years, 10 months síðan by Karl.
    #60882
    Jonni
    Keymaster

    Frábært, gaman að sjá og lesa svona sögupistla.

    #61014
    Sissi
    Moderator

    Góður pistill, takk fyrir!

3 umræða - 1 til 3 (af 3)
  • You must be logged in to reply to this topic.