Að koma til landsins aðfaranótt sunnudags, úr sólar- og hitamóki Spánar, í ísinguna hérna heima var vægast sagt frískandi. Þó lendingin væri ekki eins söguleg og hjá annari flugvél var ökuferð í leigubíl á heilsársdekkjum um brattlendi miðbæjarins í meira lagi skrautleg. Mæli ekki með slíkum dekkjum í hálku.
Komst síðan loks á langþráð netið heima. Það var ekki síður frískandi að sjá að eitthvað vitrænt virðist að gerast í Bláfjöllum. Hafin er vinna við lagfæringu á Norðurleiðinni og í kjölfarið eiga að koma snjógirðingar.
Opin Norðurleið hefur verið forsenda almenningsopnunar. Ef þokkalega er að verki staðið erum við væntanlega að horfa fram á mun lengri skíðavertíð fyrir almenning. Snjógirðingar eru grunnforsenda snjósöfnunar á mörgum skíðaleiðum. Þær eru einnig grunnforsenda fyrir að ráðist verði í snjóframleiðslu.
Þess má geta að að komin er nýr karl í brúnna í Bláfjöllum. Sá heitir Magnús Árnasons og er nýr framkvæmdastjóri skíðasvæðanna. Svo er bara að krossa fingur og vona að tíðarfarið verði a.m.k. ekki lakara en síðustu ár. Kíkið á heimsíðu skíðasvæðanna.
Kv. Árni Alf.