100 leiðir í Stardal! Hvað næst?

Home Umræður Umræður Klettaklifur 100 leiðir í Stardal! Hvað næst?

  • Höfundur
    Svör
  • #69998
    Siggi Richter
    Participant

    Nú á fimmtudaginn síðasta urðu ákveðin tímamót í Stardal, en þá var eitt hundraðasta leiðin þar hreinsuð og klifruð! Þar með liðu 42 ár frá því að fyrsta leiðin var skráð og þar til leiðirnar töldu hundrað.
    Til viðbótar fær hundraðasta leiðin þann óstaðfesta titil að vera erfiðasta skráða leiðin í dalnum, leiðin Vikivaki (5.11c(/d?)) í Leikhúsþakinu (https://www.klifur.is/problem/vikivaki). Þó gráðan sé óstaðfest, klifraði undirritaður klassísku 5.11urnar þrjár (Óperu, Sónötu og Kaloríur) í Stardal og Gerðubergi í sömu viku til að geta með betri samvisku slegið gráðuna (allar frábærar leiðir í úrvalsbergi).
    Stíft hefur verið unnið að því að hreinsa og fjarlægja laust grjót síðustu vikur, en aðrar leiðir sem hafa einnig verið hreinsaðar og klifraðar (5.6-5.8) má t.d. sjá á klifur.is og 27crags.com. Fleiri leiðir eru í bígerð og gera má ráð fyrir glansandi nýjum leiðum á næstu vikum.

    Í tilefni af þessu vildi ég vekja upp nokkrar umræður um Stardal og dótaklifur:

    1. Umræðufundur
    Nú hefur talsvert vatn runnið til sjávar frá því klifrara bættust fyrst við í fánu Stardals með múkkanum. Lítið virðist hins vegar hafa borið á áhuga landans á klifri í dalnum síðustu áratugi, þrátt fyrir að vera án efa stærsta klifursvæðið á suðvesturhorninu, kjaftfullt af úrvalsleiðum (sérstaklega í byrjendagráðum) í gæðabergi sem varla þekkist annarsstaðar á þessum landshluta. Og það nálægt bænum að maður getur fengið pítsuna senda upp í dal.
    Þar af leiðandi langar mig að reyna að koma af stað umræðu um framtíð Stardals, jafnvel bjóða til umræðufundar a vegum ÍSALP. Ef þú hefur áhuga á/skoðun á Stardal og sérð fyrir þér að breytingar á fyrirkomulaginu í dag myndi auka þinn áhugann á dótaklifri þar er um að gera að koma því á framfæri. Og engu síður koma því á framfæri ef þú telur að fyrirkomulagið í dag sé ákjósanlegast og krefjist ekki breytinga. Hefur þú áhuga á að ræða betur framtíð dótaklifurs í Stardal?

    2. Námskeið í dótaklifri (leiðsluklifri)?
    Nú hef ég reynt að efna til kynninga á dótaklifri síðustu tvö ár fyrir hönd ÍSALP, og þó þær hafi verið skemmtilegar og sóttar af einhverjum, hafa þegar upp er staðið fáir látið sjá sig. Svo áður en ég fer að skippuleggja slíkt aftur vil ég endilega kanna áhugann: Ef boðið yrði upp á námskeið í dótaklifri í sumar (eitt kvöld eða helgi), jafnvel samtvinnað sport- og dótaklifurnámskeið, hefði fólk áhuga á að taka þátt?

    3. Bílastæðin og aðkoman
    Líkt og eldri kynslóðir vita vel eru yngri kynslóðir hverri annarri væskilslegri og erum við orðin svo miklir aumingjar að mörg okkar eru farin að ferðast um á óbreyttum bílum(!) (þ.m.t. undirritaður). Eftir að hafa loks gefist upp á malarveginum út með Leirvogsánni og drullusvaðinu sem á að kallast bílastæði, fór ég að leggja buddunni þar sem gamli Stardalsbærinn stóð (sjá mynd). Fyrir þá sem nenna ekki að lulla inn veginn á gönguhraða til að hlífa plastbrynjunni á nútímaskellinöðrunum, þá er þetta mjög þægilegur kostur, bílastæðið er stórt og í skjóli og gangan eftir ásnum upp að klettunum er mun þægilegri en drullutröppurnar undir Miðhamri (þó hún sé að vísu nokkrum mínútum lengri). Svo getum við 21. aldar hippinn líka falið okkur bak við þá afsökun að við séum að reyna að hlífa uppspænda drullumelnum og holurtinni, við erum jú svo umhverfis-meðvituð.

    Reynum nú endilega að rífa kjaft og koma af stað smá umræðu áður en við höldum lengra út í sumarið, alltof langt síðan síðast.

    #70002
    Jonni
    Keymaster

    1. Til í góðann fund! Sjálfur væri ég fylgjandi toppakkerum í Stardal til að gera fólki lífið auðveldara án þess að hafa áhrif á klifrið sjálft.

    2. Ég held að það sé smá dótaklifuráhugi að vakna og Stardalsdagur gæti verið vel sóttur ef við spömmum „ÍSALP meðlimir“ og „Klifurvinir / Climbing buddies“ á facebok.

    3. Ég held að lági bíllinn minn veæri alveg til í þetta stæði, góð ábending!

    #70003
    Jonni
    Keymaster

    PS: Ég skildi skóna mína eftir undir Gegnumbroti/Lucifer, LaSportiva Katana í st 40. Það má endilega kippa þeim niður ef einhver fer það framhjá áður en ég fer næst í Stardal.

    #70004
    Siggi Richter
    Participant

    Já, akkeri gæti einmitt verið áhugavert umræðuefni ef fólk telur það bæta eitthvað aðgengi að klifrinu (hvort sem það eru boltar, fleygar, vírar um steina eða annað). Um að gera að thvetja til fundar ef er einhver hópur fólks sem telur það hjálpa.

    En áður en einhver fær einhverjar andstyggðar hugdettur, vil ég bara taka fram að boltun klifurleiða er út úr myndinni og mun ég persónulega sitja fyrir fólki í dalnum með slípirokk. Enda væri boltun klifurleiðanna til að auka áhugann á dótaklifri álíka rök og að breyta handboltavelli í fótboltavöll til auka vinsældir HSÍ.

    #70024
    Otto Ingi
    Participant

    Til í fund um þessi boltamál í Stardal.

    Ég vil byrja á að segja að ég er alfarið á móti boltun klifurleiða í Stardal. Það væri eitthvað sem gæti auðveldlega farið úr böndunum auk þess sem að það myndi trufla mig sem dótaklifrara að sjá bolta innan seilingar í miðri dótaklifurleiðslu.

    Ég væri hinsvegar til í að fá boltuð akkeri í Stardal.
    – Fyrir vel valdar leiðir boltuð akkeri fyrir neðan brún þannig að hægt sé að nota þau fyrir top rope. Athuga, ég segi vel valdar leiðir, það þýðir ekki 100 top rope akkeri. Mikið af leiðum þarna henta einfaldlega ekki fyrir top-rope og þá yrðu enginn boltuð top rope-akkeri í þeim leiðum. Svo eru aðrar leiðir ekki það skemmtilegar að þær yrðu mikið top-rope-aðar, ástæðulaust að vera að klína inn tope-rope í leið sem yrði kanski klifruð einu sinni á fimm ára fresti.
    – Boltuð akkeri fyrir ofan brún, t.d. 5-10 m fyrir ofan brún. Þannig gæti eitt akkeri virkað fyrir nokkrar leiðir.

    Þetta myndi ekki trufla mig neitt sem dótaklifrara.
    Boltuð akkeri gætu laðað að minna reynda klifrara eða klifrara sem eiga ekki fullan dótarakk.
    Boltuð akkeri myndu spara mikinn tíma fyrir dótaklifrara þannig að þeir gætu dótaklifrað fleiri leiðir á einum degi.
    Boltuð akkeri myndu auka öryggið í dalnum.
    Þetta myndi auðvelda dótaklifrurum ef tryggjarinn hefur ekki áhuga/getu á að elta leiðina og hreinsa hana. Klifrarinn getur sjálfur sigið niður og hreinsað leiðina (án þess að skilja eftir dóta-akkeri uppi sem þarf síðan að sækja í lok dags).

    #70093
    Ásgeir Már
    Participant

    Ég tek undir það að setja boltuð topp akkeri í vel valdar leiðir.

    #70100
    Siggi Richter
    Participant

    Ég bíð spenntur eftir fundarboði ef einhver fjöldi fólks ætlar að hittast og ræða málin!

    Þar sem mér sýnist þetta aðallega ætla að snúast um boltun topptrygginga yfir leiðum, ef á að verða einhver raunveruleg umræða um þetta langar mig að koma með nokkur mótboð á móti akkeristillögunum.

    Þetta snýr að sjálfsögðu bara að boltun akkeristrygginga, persónulega tek ég ekki undir nokkrum kringumstæðum í mál að verði settur einn einasti bolti í klifurleið, sama hversu illtryggjanleg leiðin er! Ef leið er það illtryggjanleg að einhver þorir ekki að klifra hana án bolta, þá á sá einfaldlega að skoða einhverjar aðrar leiðir, nóg er nú í boði af auðtryggjanlegum leiðum í dalnum. Sama á við um ófarnar illtryggjanlegar leiðir, en þá er bara að láta leiðina vera og leyfa seinni kynslóðum sem kannski verða minni hænuhausar að gefa leiðunum séns þegar að því kemur.

    Tillögur fyrir topptryggingar:
    1. Ég er almennt frekar mótfallinn akkerum fyrir neðan brún af nokkrum ástæðum:
    – Oftar en ekki sem brúnin er laus/vandræðaleg og býður sjaldan upp á augljósa/örugga staði fyrir akkeri.
    – Oft er hluti af klifrinu að komast upp fyrir brún, þar sem margar leiðanna eru alls ekki búnar þó klifrarinn geti stungið nefinu í toppskófina.
    – Þetta er enn dótaklifursvæði. Þó sportklifurvæðing svæðisins sé slegin út af borðinu þýðir ekki að næsta lausn sé að gera þetta að ofanvaðs-svæði.
    – Ljótt.
    – Töluvert magn af boltum sem þarf í slíkt þar sem erfitt er að nýta slík akkeri í meira en eina leið.
    – Engu að síður er ég alveg sammála því að einhverjar leiðir séu vel til þess fallnar að hafa akkeri rétt fyrir neðan brún (sem mögulegt er þá að leyfa byrjendum að æfa sig í ofanvaði úr), en þau akkeri ættu að vera vel ígrunduð og algjör undantekning (mér dettur í mesta lagi í hug 10-15 leiðir sem henta vel í slíkt, þá nær eingöngu í Miðvesturhamri og Austurhamri).

    2. Ég legg til að þetta yrði frekar á borð við fyrirkomulagið eins og það er í Gerðubergi, þ.e. að hafa bolta rétt ofan við brún. Á þann hátt er hægt að samnýta akkeri fyrir nokkrar leiðir í einu, lítið mál er að nýta boltana í ofanvað með slitþolnum akkerisspotta sem nær fram yfir brún, akkerin sjást ekki að neðan og þau gera um leið klifrið einnig öruggara og fljótlegra fyrir þá sem vilja enn klifra leiðir í klassíska stílnum, þ.e. að annar leiðir og tryggir næsta mann upp á topp að ofan. Á þennan hátt er einnig lítið mál að nota akkerin sem sigakkeri ef annar maður ætlar sér ekki að elta og hreinsa, en þá sígur sú/sá sem leiddi einfaldlega á tvöfaldri línu með eigin tóli (líkt og á v-þræðingu í ísklifri) og hreinsar, án þess að slíta línunni eða skilja búnað eftir á toppnum.

    3. Engar keðjur eða karabínur. Legg til að í mesta lagi verða notaðir tveir sigboltar með hring sem akkeri til að gera akkerin minna sýnileg (og ódýrari), enda þungavigtar-sportakkeri með keðju og karabínum óþarfi; ef fólk getur ekki á annað borð þrætt í gegnum tvo sigrhringi í lok klifurs er dótaklifur því líklega einnig ofviða.

    4. Hreinsa leiðir: legg til að farið verði fram á að þær leiðir sem fái bolta í akkeri verði í það minnsta yfirfarnar til að fjarlægja varasama steina, helst hreinsaðar ef þarf. Að minnsta kosti að þær leiðir sem fá “ofanvaðs”-akkeri fyrir neðan brún verða vel hreinsaðar og öruggar.

    5. Skýrar reglur um boltun: legg til að það verði skýrt samkomulag um hvar verði akkeristryggingar, hvernig tryggingar og að nákvæmlega ekkert verði boltað umfram það fyrr en að ég geispa golunni. Einnig að skýrt tekið fram að þetta er EINGÖNGU fyrir akkeri (ekki svo mikið sem stakur byggingasaumur sem fær að vera í klifurleið, sama hversu illtryggjanleg leiðin er) og að þetta verði á ábyrgð Ísalp/Klifurfélagsins, þ.e. að enginn annar komi að boltun á svæðinu.

    • This reply was modified 4 years, 6 months síðan by Siggi Richter.
    • This reply was modified 4 years, 6 months síðan by Siggi Richter.
    #70125
    Jonni
    Keymaster

    Nú er ég pínu ringlaður Siggi. Ertu að peppa upp fund sem samt einhver annar á að boða um málefni sem þú ert mótfallinn?

    #70136
    Siggi Richter
    Participant

    Laukrétt 😉 Sjáðu til, ég sé ekkert að fyrirkomulaginu eins og það er í dag. Þess vegna væri frekar einkennilegt fyrir mig að fara að hvetja til fundar um breytingar sem ég styð ekki sjálfur. Málið er hins vegar að samkvæmt minni loðnu tölfræði virðast þau sem bæði eru sátt við fyrirkomulagið í dag og klifra (oftar en einu sinni á áratug) í Stardal eru teljandi á fingrum annarrar handar. Hins vegar þegar Stardalur er dreginn upp í umræðum virðast allir aðrir einróma um að það eina sem íslenska þjóðin kemur sér saman um í dag eru akkeri í Stardal. Þar sem lítur út fyrir að umræðufundur muni fjalla um lítið annað en akkerismál, er ég einfaldlega að hvetja þau sem krefjast þess að fá upp akkeri til þess að skipuleggja fund og gera eitthvað í málunum annað en að bíða eftir að þau birtist með nýrri stjórnarskrá. En þó svo ég segist ekki styðja akkeri, þýðir það ekki að ég sé andvígur þeim ef er meirihlutastuðningur fyrir uppsetningu þeirra. En ég vil fyrst fá að sjá hvort er raunverulegur áhugi fyrir þessu og hvort sé einhver hópur fólks sem muni nota þau eða hvort þetta muni bara verða skraut í pakkningunni uppi í dal. Ef tekst hins vegar ekki einu sinni að efna til fundar um það geri ég einfaldlega ráð fyrir að áhuginn sé ekki til staðar og ég held áfram að klifra sáttur með mínum örfáu sérviskupúkum sem enn nenna að byggja akkeri sjálf.

    Svo nei, ég er ekki að peppa sjálfur akkeri, ég er að peppa fólk til að gera eitthvað í málunum er það telur ástæðu til.

    Það er svo vert að bæta því við að um leið og Jón Viðar hefur ásamt öðrum verið að taka Hnappavelli bókstaflega í gegn upp á síðkastið, tók hann einfaldlega málin í sínar hendur þar og hefur verið að setja upp akkeri með sighringjum í margar af augljósustu dótaleiðunum á svæðinu (auðvitað í samráði við frumfarendur leiðanna). Frábært framtak og virkilega gaman að fá að heyra af því að það hefur strax aukið umferð í sumar leiðirnar.

    • This reply was modified 4 years, 6 months síðan by Siggi Richter.
    #70141
    Otto Ingi
    Participant

    Ég held að ÍSALP ætti að beita sér fyrir því að koma Sigga inn á Alþingi 😛

    #70148
    Siggi Richter
    Participant

    Galdurinn er að lofa sem mestu, en á sama tíma að lofa engu 😉

    #70242
    Siggi Richter
    Participant

    Jæja, mér sýnist áhuginn hjá fólki vera það lítill að þessi boltaumræða slær sig eiginlega sjálf út af borðinu.
    Það virðist hafa gagnað lítið að hvetja til umræðu um þetta síðustu tvö ár og allur vindur úr fólki, svo persónulega sé ég ekki ástæðu til annars en að halda bara fyrirkomulaginu eins og það er, þ.e. algjörlega boltalaus dalur (en þetta þýðir að ég hef engan áhuga á að heyra röfl um akkeri í Stardal, umræðan er reglulega búin að standa fólki til boða).

    Næsta mál á dagskrá:
    Í bígerð er uppfærður leiðavísir um Stardal. Svo ef einhver veit um eldri leiðir í Stardal sem ekki hafa verið skráðar enn, eða hefur sterkar skoðanir á gráðum einstakra leiða má endilega samband við mig. Eða ef fólk er með góðar sögur eða flottar myndir, allt efni er vel þegið.
    Sömuleiðis þýðir þetta að ef fólk vill sjá breytingar á einhverju í Stardal er um að gera að drífa sig í slíkar umræður ef slíkt á að eiga sér stað fyrir útgáfu nýs leiðavísis.

    Að lokum vil ég bæta við að að öllu óbreyttu verður Stardalsdagurinn líklegast haldinn þriðju helgina í júlí og boðið verður upp á dótakifurnámskeið í sömu viku. Nánar um það fljótlega.

    #70248
    Jonni
    Keymaster

    Bjóstu við því að fólk sem klifrar ekki í Stardal, klifrar lítið eða er búið að gefast upp á faffi fyrir ofan brún myndi boða fund? Fólk talar um það hægri vinstri að akkeri væru frábær í Stardal og þessar staðhæfingar á algjörum brauðfótum.

    Fundur verður annað hvort að vera boðaður af einhverjum sem hefur mikla reynslu af því að klifra í Stardal eða hreinlega af stjórn Ísalp, mögulega sem hluti af aðalfundi.

    #70252
    Siggi Richter
    Participant

    Já, mér þykir að sjálfsögðu lang eðlilegast að þau sem vilja sjá breytingar hvetji til umræðu um þær sjálf. Það er engin elíta eða einkaklúbbur sem stjórnar Stardal (annar en kannski Ísalp), öllum er meir en velkomið að vera með, kifra í dóti og hafa skoðun á fyrirkomulaginu. Eigum við ekki að segja að einu inntökuskilyrðin í Stardals-klúbbinn eru að eiga klifurskó, lágmarks dótarakk og nógu mikinn áhuga til að nenna að dröslast upp aðkomuna? 😉
    Aftur, ég mun aldrei berjast fyrir varanlegum toppakkerum í Stardal sjálfur og því hæpið að treysta á að ég fari að hvetja til þess, en ég hins vegar styð það heilshugar ef er áberandi áhugi fyrir því. Það virðist bara hafa farið frekar lítið fyrir þeim áhuga síðasta áratuginn (líkt og sést á þessari umræðu). En það er um að gera að leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér, þangað til held ég bara áfram að kenna fólki að hnýta sína akkerisspotta.

    #70253
    Siggi Richter
    Participant

    En ég nenni ekki að láta þetta mál fara út í einhver leiðindi.

    Samantekt: Ef er verið að bíða eftir að ég geri eitthvað í akkerismálum, þá þarf fólk að halda upp á akkerisspottana í þó nokkur ár í viðbót (eða vona að ég fái grjót í hausinn og skipti um skoðun). Ég kann ekki einu sinni að bolta, besta sem ég get boðið er handfylli af fleygum. Frekar færi ég sennilega að berjast fyrir byggingu Stardalsskálans í kvosinni undir Vesturhamri (nýr möguleiki fyrir Bratta ef Botnsúlur ganga ekki upp…hmm?).
    En það er ekki verið að halda aftur af neinum, fólki standa allar dyr opnar, eina kröfurnar eru að betrumbætur séu ræddar og að þær dragi ekki úr gæðum dótaklifursins.

    Ef fólk vill ræða akkerismálin frekar bíð ég spenntur eftir fundi, annars verður mig líka að finna uppi í dal þar sem hægt verður að kveðast á 😉

    Yfir og út.

15 umræða - 1 til 15 (af 15)
  • You must be logged in to reply to this topic.