Nóvember Fréttabréf ÍSALP

hnukurfb-6

Nú er vetur genginn í garð og margir farnir að horfa til fjalla. Það er margt spennandi á döfninni hjá ÍSALP þessa daganna og vonum við til að þetta fréttabréf hvetji meðlimi til að taka þátt.

Jólaklifur ÍSALP og Útgáfuteiti

Jólaklifur hátíð ÍSALP hefur verið mjög vinsæl undanfarin ár og í fyrra mættu hátt í 40-50 manns í Múlafjall. Við stefnum á aðra slíka stórhátíð  17. desember. Mæting verður sem áður á Select/Shell á Ártúnshöfða og lagt af stað þaðan klukkan níu um morguninn.
Síðar um kvöldið, eftir að allir hafa haft tækifæri til skipta yfir í fínni Gore-tex og dúnjakka í öllum regnbogans grunnlitum þá verður skálað í bjór á efri hæð Kaffi Sólon. Hvetjum við alla til að mæta tímanlega enda verður ókeypis bjór á krana, umræða um allskonar fjöll, Pubquiz og síðast en ekki síst verður gefið út Ársrit ÍSALP 2016. Einnig verða sigurvegarar myndakeppninnar kynntir og verðlaun afhent.

Byrjendanámskeið í Ísklifri

Matteo Meucci mun halda námskeið í Ísklifri í aðdraganda Jólaklifurs ÍSALP. Námskeiðið verður ókeypis handa meðlimum ÍSALP og haldið yfir tvo daga. Fyrst verður farið yfir búnað, tækni og öryggisatriði miðvikudaginn 7. desember í sal Klifurhúss Reykjavíkur og laugardaginn eða sunnudaginn eftir það (fer eftir veðri) verður farið út að klifra. Þetta er stórkostlegt tækifæri til að læra undirstöður ísklifurs með einum færasta klifrara landsins. Athugið að námskeiðið verður kennt á ensku. Frekari upplýsingar um skráningu koma síðar.

Brattamálið mikla

Því miður rann tími okkar út til að flytja skálann uppeftir í haust. Við héldum vel sóttan fund um málefni Bratta og samstarf ÍSALP og FÍ  í lok ágúst en síðan þá gekk illa að nýta þá fáu veðurglugga sem fengust. Málið er þó alls ekki í dvala því nú hefjast samningaviðræður við FÍ um hvernig skuli eiginlega útbúa þennan skála og óskar ÍSALP eftir skoðunum meðlima á málefnum Bratta á spjallþræði sem opnaður verður innan skamms. 

Styrkir frá ÍSALP

Það er góðærisbrjálæði hjá ÍSALP og við viljum hvetja meðlimi til að sækja um styrki til félagsins. Við höfum mikinn áhuga að styrkja meðlimi til BMC International Summer Meet 2017 en við erum opin fyrir öllum tillögum – sér í lagi ef einhver er að skipuleggja íslenskt expedition.