Jólaklifurdagur Ísalp er orðinn fastur liður klifrarans í jólaundirbúningnum. Á laugardagsmorguninn fylltu Ísalp meðlimir bensínstöðina við Ártúnshöfða, gripu með sér kaffibolla og héldu inn í Hvalfjörð. Litla bílaplanið neðan við Múlafjall var fullt af bílum en þegar mest lét voru bílarnir 21 talsins.
Þrátt fyrir rok var góð stemning í fjallinu og aðstæður nokkuð góðar. Flestir héldu sig í leiðunum í niðurgöngugilinu þar sem ofanvaðslínum frá ÍFLM var komið fyrir og byrjendur fengu að spreyta sig. Aðrir héldu í önnur svæði í fjallinu en hópar klifruðu bæði Rísanda og Stíganda
Talið er að milli 40 og 50 manns hafi látið sjá sig á laugardaginn sem verður að teljast mjög góð mæting. Sérstaklega var gaman að sjá hve margar stelpur mættu.
Um kvöldið fjölmenntu Ísalp meðlimir á Sólón í útgáfupartí til að fagna nýju ársriti Ísalp. Ársritið fékk góðar viðtökur og þótti einkar glæsilegt.
Íslenski Alpaklúbburin þakkar öllum sem mættu.