Forum Replies Created
-
AuthorPosts
-
0312487369Member
Í framhaldi af grein eftir mig sem birtist í Mbl. í gær (16. jan.) langar mig að láta þetta koma fram í tengslum við spurningar frá Ágústi:
– Viðbrögð við aukinni hæð eru einstaklingsbundin og fara eftir mörgu; m.a. erfðum og byggingu hvers fjallamanns. Í 10 manna hópi jafnaldra eru viðbrögðin ólík. Vegna þessa er auðvitað nauðsynlegt að hver fjallamaður byrji á því að kanna hægt og rólega hvernig aukin hæð fer með hann. Fyrsta háfjallaferð ætti í helst öllum tilvikum að miðast við 4000 til + 5000 m. Svo fikra menn sig áfram. Ég tel rangt að byrja á Acongagua, eins þótt það gæti heppnast (eins og dæmin sanna), hvað þá að byrja feril á enn hærra fjalli, segjum 7.000-8.000 m (en líka þar hafa menn komist upp með slíkt). Til eru þeir sem hæðaraðlagast afar illa (og engin þjálfun til sem breytir því róttækt). Ég get ekki fallist á að þeir eigi að hætta sér langt upp yfir það sem þeir þola, með því einu að nota lyf eða súrefni. Ef eitthvað klikkar eru þeir hinir sömu eins og hverjir aðrir óreyndir kafarar á allt of miklu dýpi með skyndilegt vandamál í fanginu. Svo er hegðan hvers og eins á háu fjalli ekki hans einkamál heldur líka mál félaganna, rétt eins og þegar upp koma skyndileg veikindi.
– Hraði hentar mönnum misjafnlega. Mikilvægt er að hlusta á líkamann og meta hraðann hlutlægt fyrir sjálfan sig. Það er ekkert að því að vera 1-2 klst seinna á ferð í tilteknar búðir en einhverjir aðrir í hópnum. Almenna reglan er sú að leggja a.m.k. af stað (yfir 3.000 m) á undir helmingi þess hraða sem maður hefði á langri fjallaleið hér heima. Og oftast hægir maður enn á sér í efstu hæðum, eins þótt hæðaraðlögun gangi vel. Menn verða líka alltaf að muna að á háu fjalli eru t.d. tveir síðustu áfangarnir upp ekki undir 500-1.000 hæðarmetrar (jafnvel meira) og niðurleiðin eftir. Hæga ferðin er er ekki bara nauðsyn vegna hæðaraðlögunar heldur líka til að spara þrek. Svo er annað: Því miður hafa flestir nálægir skipuleggjendur háfjallaferða á ferðaskrifstofuplani skorið ferðir á há fjöll niður í algjört lágmark hvað lengd snertir – bæði vegna verðs og tíma (handa okkur upptekna fólkinu). Hraðinn er oft of mikill einfaldlega vegna þessa, sbr. 5-6 dagar á Kilimanjaro.
– Ef hæðaraðlögun á helst að fara fram með því að nota fyrirbyggjandi meðul (sem eru bæði fá, umdeild, með hliðarverkunum og vafasöm ef hættu ber að höndum) er háfjallamennska orðin að eina sportinu sem ¨doping¨telst sjálfsögð aðgerð. Gleymum því ekki að mikill meirihluta háfjallafara alla síðustu öld, svo að segja, notaði ekki fyrirbyggjandi lyf. Hvernig stendur á því? Mér þætti það ömurleg tilhugsun að kröfur um hraða og yfirkeyrslu (miðað við raunverulega líkamlega getu eða byggingu manns) kalli á diamox eða stera eða viagara eða hvaðeina. Lyfin eru notuð þegar við á og einhver þarf á þeim að halda vegna veikinda. Hvorki lyf né súrefniskútar eru staðalbúnaður í ferðum á 5.000- 8.000 metra fjöll nema sem neyðarbúnaður. Ofan við 8.000 m á ekki að þurfa súrefni nema í undantekningartilvikun á uppleið á langflesta að þessum 14. tindum – nema Everest og kannski K2.
Hitt er svo annað mál að vegna tíðra slysa og til þess að auka hraðann hafa margir skipuleggjendur hópferða tekið upp á að nota súrefni handa fólki í einn eða tvo áfanga á uppleið – á sífellt fleiri af tindunum. Það er öfugþróun. Segir okkur einfaldlega að það augljósa hefur gerst: Stór hluti fólks sem leggur á hæstu fjöllin er ekki komið að þeim í sinni vegferð sem háfjallaklifrarar – um það vitna ótal sannar sögur af mörgum fjallanna.– Það er því miður margt á kreiki um hæðarveiki, hæðaraðlögun ofl. sem tekið er eins og staðreyndir eða sjálfsagðir hlutir. Næstum allir sem ég hitti líta svo á að háfjallaveiki sé eðlilegur þáttur í ferð, rétt eins og sólbruni í sólarlandaferð eða niðurgangur í safari-ferð. Umræður eru af því góða og einfaldleiki í nálgun fjallamannsins við markmiðið sömuleiðis. Svo verða menn að sjá hvert lyfjaneysla og súrefni geta leitt sportið. Er hægt að sjá fyrir sér unga eða sjötuga manneskju (komin rakleitt frá Buenos Aires) klífa Acongagua, með tvo burðarmenn berandi dótið alla leið, súrefnisgeyma tengda og stútfulla af lyfjum, á einni viku? Auðvitað er dæmið ýkt, auðvitað má einhver gera þetta hafi hann lyst á því, en hinn almenni fjallamaður heldur sig við það sem kallast “fair means”.
0312487369MemberÞetta innlegg varðar að vísu ekki ISM heldur einn af þeim sem nefndur er til sögunnar í þessum umræðum og bók sem líka hefur verið nefnd.
Ég kynntist Pete Boardmann vegna þess að ég þýddi The Shining Mountain (Risinn hvíti) og las sem útvarpssögu hjá RÚV árið 1982, að mig minnir. Ég skrifaðist á við hann, spjallaði í síma og hitti hann skömmu áður en ég byrjaði þýðingarvinnuna. Kappinn dó um það bil sem ég lauk við bókina og eftir það var ég í sambandi við forlagið og konuna hans (eða kærustuna). Það er misskilningur að hann hafi verið mikill ölkneyfari, amk. ekki eftir að hann eltist. Pete var gríðarlega öflugur fjallamaður sbr. leiðangur hans og Bonningtons á Kongur sem var mikið ævintýri.
ATG0312487369MemberLokainnlegg frá mér hér á spjallsvæðinu:
Málið er greinilega í höndum stjórnar og svo félaga þegar hér er komið, eftir miklar umræður á netinu, og vissulega eðlilegt að gerð sé ljós grein fyrir helstu atriðum þess svo allir séu með á nótunum.
En tvennt verður þó að árétta. Hið fyrra er þetta: Menn velta fyrir sér virði skálans og tengja það breyttum viðhorfum og auknu verðmæti útivistarsvæða. Ég get ekki betur séð en virði skálans sem slíks sé lágt vegna þess að hann er gamalt og lítið bárujárnshús í varla meðalásigkomulagi. Sögulega verðmætið er ekki hægt að hengja verðmiða á. Skálanum fylgir ekkert land þannig að kaup eða sala þessarar eignar hefur ekkert með verðmæti útivistarsvæða að gera (raunar veit ég ekki hver gaf leyfi fyrir byggingu hans 1945). Á tilvist hans hvílir aðeins hefðarréttur og hann getur ekki tryggt neinum aðgengi að Tindfjöllum umfram það að hann og aðeins hann er notendum opinn meðan eigandinn vill og skálinn stendur, líkt og gildir um flesta aðra fjallaskála og sæluhús. Hér er ekkert að framreikna eða meta til landvirðis. Eigendur hinna skálanna ráða engu í Tindfjöllum að því að ég best veit.
Hitt atriðið varðar þessa tilvitnun í innlegg hér að framan:
“FÍ er ekki að hugsa um hag ÍSALP í þessu máli né fjallamanna, heldur að geta selt í sínar ferðir….Held að FÍ sé frekar að falast eftir svæðinu/landinu en sjálfun skálanum sem er nú ekki ýkja stór.”
Vandséð er á hverju þessi tortryggni og vissa fyrir illum tilgangi FÍ hvílir (þetta mál snýst greinilega um meira en ÍSALP og innri mál klúbbsins). Ef hún byggir á þeim misskilningi að eigandi skálans eigi land í Tindfjöllum eða að hann geti með notkun skálans ráðið fyrir heilu útivistarsvæði, er skiljanlegt að menn sjái ofsjónum yfir svona vistaskiptum Tindfjallaskála – einkum ef FÍ er gert að holdgervingi græðgisvæðingar og sérhyggju.
Þakka fyrir mig.Ari Trausti
0312487369MemberSutt framhald vegna svara við innleggi mínu:
Ég er ekki félagi í FÍ og veit svo sem ekki hvað menn hugsa þar um skálann en get ekki ímyndað mér að hann verði rifinn, látinn grotna niður eða felldur inn í e-s konar hálendismiðstöð. Eina vitræna verkefnið er að gera skálann vistlegan og hafa hann í sem næst upprunalegu horfi – í virðingarskyni við brautryðjendur fjallamennsku og til góðra nota því þannig viljum við að skálar standi undir nafni. Orð sem ég sá í einhverju innlegi um að FÍ standi jafnvel öndvert fjallamennsku eða eignarhald ÍSALP á skálanum sé trygging fyrir aðgengi að svæðinu eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og þá heldur ekki undarlegur ótti um að Tindfjallasvæðið stefni í að lokast allri útivist eða verði gert að sérsvæði FÍ eða einhverra annarra (?). Ég hélt að á milli þessara tveggja félaga ríkti ekkert nema velvild og svo verði meðan bæði starfa. Er það misskilningur? Ég bendi aftur á að vegferð Tindfjallaskála og Bratta hefur hvorki skaðað né ýtt undir starf ÍSALP svo neinu nemi og furða mig á að menn skuli leggja sölu þess fyrrnefnda að jöfnu við næstum dauða ÍSALP eða fara allt i einu að veifa formlegri tengingu klúbbsins við FÍ með háðsorðum (eru deildir FÍ annars einhvers konar samsafn aumingja?). Engum hefur dottið sú tenging í hug fyrr en nú og vandséð að hún komi málinu við í alvöru. Hitt er svo annað mál að menn geta haft áhyggjur af raunverði skálans sem var gjöf á sínum tíma eða af formsatriðum varðandi ákvörðun um sölu eða ekki sölu – ég hef því miður ekki sett mig inn í þau mál. Þurfi meiri umræður, ítarlega greinargerð og nokkra fundi, kannski eins og einn með FÍ-mönnum, þá það, en lendum þessu máli altént fyrir næsta sumar.
Ari Trausti
-
AuthorPosts