- This topic has 3 replies, 3 voices, and was last updated 4 years, 3 months ago by Gunnar Már.
-
AuthorPosts
-
1. September, 2020 at 20:59 #70606Gunnar MárParticipant
Ég skrapp ásamt félögum mínum, þeim Alfreð og Kjartani í Skaftafell síðustu helgi og stefnan var tekin á Þumal. Ég tók saman smá ferðar- og leiðarlýsingu.
Þumall er blágrýtisdrangur í Skaftafellsfjöllum sem trónir 120m yfir nágrenni sínu við suðurbrún Vatnajökuls. Hann var talinn ókleifur þar til nokkrir öflugir Vestmanneyingar klifruðu hann fyrstir árið 1975. Maður skilur vel hvers vegna hann var talinn ókleifur þar sem maður stendur undir honum á hryggnum milli hans og Miðfellstinds. Þetta er ótrúleg smíð og eiginlega ekki hægt gera honum almennileg skil með myndum, þetta er eitthvað sem þarf að upplifa. En á vesturhlið Þumals er sérstök skora á miðjum veggnum sem gerir klifur frá þeirri hlið mögulegt og í raun ekki svo erfitt þó vissulega sé það alvarlegt þar sem afleiðingar af óhappi geta verið miklar á stað sem þessum og má nefna að það er ekkert gsm samband 90% hluta leiðarinnar. Bara rétt efst í Hnútudal og svo á sjálfum toppnum.
Við lögðum af stað úr bænum 16 á fimmtudegi og vorum komnir í Skaftafell um 4 tímum síðar með stuttu stoppi á Kirkjubæjarklaustri. Við lögðum af stað á slaginu 20 með þunga poka inn í Kjós sem gekk frekar greiðlega fyrir utan það var örlítið snúið á köflum að finna réttan slóða í Bæjarstaðaskógi í kolsvartamyrkri. Það hafðist þó að lokum og við vorum komnir rúmlega 23 í Kjósina. Þar tjölduðum við og lögðumst fljótlega í svefnpokana. Það var magnað að vakna morguninn eftir og sjá alla litadýrðina sem blasti við úr tjaldinu. Kjósin er alveg einstakur staður.
Við gengum svo af stað um hálf níu. Einhverjir myndu kannski segja að brött gangan upp Vestara -Meingil væri aggressíf byrjun á deginum og óhætt að taka undir það. Í 750m hæð er komið í Hnútudal og þá sveigt til vinstri inn skál og svo upp bratta stórgrýtta skriðu sem liggur upp á hrygg. Frá hryggnum er gengið í hliðarhalla að Þumli sem núna blasir við. Það er ekki vitlaust að tryggja leiðina yfir þennan hliðarhalla á versta kaflanum því þar er ansi bratt og má lítið útaf bregða. Þessi kafli var alveg snjólaus núna en mér skilst að hann sé auðfarnari snemmsumars þegar snjór þekur leiðina. Þaðan er svo gengið niður hrygg og norður fyrir Þumal, út á jökul sem sprunginn. Aðkoman úr Kjós tók okkur rétt rúmar 3klst.
Klifrið
Klifrið upp Þumal er ekki mjög erfitt og oftast ágætir tryggingamöguleikar. Millistansar eru yfirleitt góðir og þegar við fórum voru slingar og karabínur í þeim öllum sem við mátum nógu traust fyrir sigið niður en það verður hver og einn að meta ástand á þeim. Við notuðum annars mest vini á leiðinni en einnig stöku fleyg eða gamlar hnetur sem urðu á vegi okkar.
Spönn 1
Byrjar upp ljósa slabba og svo brölt yfir mjög laust grjót. Mikil hætta á grjóthruni fyrir þann sem tryggir. Eftir 15-20m er akkeri (fleygur og hneta) en betra að halda áfram upp að hafti. Þar er góður millistans, 3 fleygar. (45m ca)
Spönn 2
Byrjar upp brattan stromp en svo tekur við brölt upp skriður beint upp að háum vegg. Þar er beygt til hægri inn í sjálfa skoruna og upp á flatan kafla í millistans nr 2 (fleygar og hneta) (40m) 5.5 hreyfingar í byrjun en svo bara brölt.
Spönn 3
Upp úr skorunni og upp á SV hlið Þumals. Þar tekur við létt klifur upp stalla svo til hægri upp á hrygg. Vinstra megin á hryggnum er millistans. 3 fleygar (40m)
Spönn 4
Í þessari spönn eru í raun tveir möguleikar: Hægt að fara beint upp hrygginn og klifra upp bratta sprungu eða taka beygju til hægri fyrir horn og þaðan upp í millistans. Þaðan sést sjálfur blátoppurinn vel. Hann rúmar bara 1 í einu. (40m) eða (20 + 20)
Frá fjórða millistans er tæpur hryggur upp á topp og því sjálfsagt að tryggja þann kafla einnig og má jafnvel segja að það sé fimmta spönnin. Við sendum einn í einu upp á topp.
Sigið
Sigið tók dágóðan tíma m.a. þar sem önnur klifurlínan okkar skemmdist í tvígang á leiðinni upp þurftum við því nokkrum sinnum að síga yfir hnút. Við mælum annars með því að síga úr skorunni á einni 60m línu niður í akkeri á beina veggnum við endann á skorunni því okkur fannst líklegt að hnútur myndi festast í skorunni og þaðan niður aftur á einni línu niður bratta strompinn (beint fyrir neðan akkeri) og loks alla leið niður á tveimur línum.
Niðurferðin
Við vorum ekki komnir niður af Þumli fyrr en um 21 og þá þegar aðeins byrjað að rökkva. Við lögðum því allt kapp á að drífa okkur til baka og komast sem fyrst yfir hliðarhallann fyrir myrkur. Það rétt hafðist en við tryggðum yfir þar sem hliðarhallinn var enn torfarnari í rökkrinu. Á niðurleiðinni urðum við svo að treysta á GPS og höfuðljós til að skila okkur í Kjós sem tókst áfallalaust en nokkrum sinnum urðum við að feta okkur til baka upp brekkurnar til að hitta á rétt track og komast á réttum stöðum yfir gilskorninga. Upphaflega planið okkar var að ganga beint í Skaftafell en við komum ekki niður í Kjós fyrr en rúmlega 12 á miðnætti og dagurinn orðinn alveg nógu langur og ákváðum að sofa frekar aðra nótt í Kjós og klára gönguna morguninn eftir. Ég hitaði mér frostþurrkað spaghetti bolognese sem var ansi kærkomin máltíð og við vorum fljótir að sofna. Daginn eftir pökkuðum við svo saman og héldum í Skaftafell.
Fleiri myndir Hér
- This topic was modified 4 years, 3 months ago by Gunnar Már.
Attachments:
2. September, 2020 at 10:05 #70636SissiModeratorFrábær túr hjá ykkur greinilega, takk fyrir góða lýsingu
2. September, 2020 at 10:07 #70637JonniKeymasterHljómar eins og frábær ferð!
Ég bætti lýsingunni á spönnunum við leiðarlýsinguna í leiðarskráningunni.
Ég fékk líka að embedda video sem ég sá frá þér úr Búahömrum.2. September, 2020 at 10:40 #70638Gunnar MárParticipantJá, Þumall er alveg frábær ævintýraferð. Örlítið óhagstæð hlutföll af klifri og göngu segja sumir en ég fílaði þetta í botn.
-
AuthorPosts
- You must be logged in to reply to this topic.