Home › Forums › Umræður › Ís- og alpaklifur › Þráin
- This topic has 6 replies, 6 voices, and was last updated 3 years, 9 months ago by Arni Stefan.
-
AuthorPosts
-
8. February, 2021 at 10:31 #72773Otto IngiParticipant
Þráin við Háafoss í Þjórsárdal, þvílíka skrímslið!!!
Það virðist vera komin ágætis hefð fyrir að rita ferðasögu þegar menn klöngrast þarna upp.
1. Uppferð – Nóvember 1996 – Veit ekki hvort það sé til ferðasaga fyrir þessa ferð en eftirfarandi stendur í fréttapistli ársrits ÍSALP 1997
„Þráin í Þjórsárdal fékk sína þriðju heimsókn seint í nóvember mánuði, 1996, enda þar á ferðinni þrír af þrjóskustu mönnum klúbbsins, Hallgrímur Magnússon, Páll Sveinsson og Þorvaldur Þórsson. Í þetta sinn tókst þeim í sinni þriðju tilraun að klifra fyrstir manna Þrána og mun hún vera ein af erfiðustu ísleiðum sem farnar hafa verið hér á landi. Leiðin sem þeir klifu er fossin á móti Granna sem er skammt fyrir ofan Háafoss. Þráin er um 100 m á hæð og var klifin í tveimur spönnum. Hvor spönn hefur að geyma um 40 m lóðréttan ískafla og var sú neðri mjög kertuð og tortryggð. Góð megintrygging er eftir fyrstu spönn þar sem hægt er að láta líða úr sér. Leiðin gráðast 5+ og þykir nú sumum fimmta gráðan farin að verða býsna teyganleg.“2. Uppferð – Desember 2008 – Siggi Tommi og Robbi, ferðasöguna má sjá hér.
3. Uppferð – Nóvember 20100 – Palli og Viðar, ferðasöguna má sjá hér.
4. Uppferð – Febrúar 2021 – Ég, Baldur og Palli
Það má segja að þetta hafi byrjað helgina áður, 31 janúar, þá var Baldur í rólegri og rómantískri paraferð á gönguskíðum norður á Akureyri. Á sama tíma voru félagarnir að sprengja púður upp í Hlíðarfjalli og ég, Palli og Siggi Tommi að klifra Þrym í Glymsgili. Þetta fór alveg með klifurgredduna í Baldri því ég fékk símtal strax á mánudagsmorgni frá Baldri og þá var hann byrjaður að skipuleggja epíska klifurferð helgina eftir. Baldur passaði sig á að halda okkur heitum út vikuna og úr varð að ég pikka Palla upp í þjónustuíbúð Hrafnistu og við förum og hittum Baldur í þjónustuíbúð hjá Eir. Þar sameinumst við í bíl og keyrum upp að Háafoss, ekkert vesen með færð og í raun fólksbílafærði uppeftir. Á bílastæðinu var hífandi rok, Baldur klæddi sig í fiber bleyju og ég græjaði mig í aftursætinu á bílnum, Palli hinsvegar stóð bara berhentur úti og hló að okkur aumingjunum.
Það er reyndar alveg furðulegt að ég hafi látið til leiðast að prófa Þrána eftir að hafa labbað niður í gilið. Ekki nóg með að maður finnur hreðjarnar skríða inn í líkaman þegar maður horfir upp leiðina heldur var gangan niður gilið eitthvað það fáránlegast og hættulegast sem ég hef gert. Þetta var svona 80° hallandi frosin moldar, malar og mosabrekka. Enginn ís til að síga niður úr og áður en maður vissi af þá var maður komin í hálfgerða sjálfheldu þar sem það var alveg eins gott að halda áfram niður og fara aftur upp. Palli þrammaði þarna niður eins og hann væri bara að labba niður tröppurnar heima hjá sér, og Baldur á eftir honum án þess að blikka. Ég unglambið var hinsvegar svona fimm sinnum lengur niður en þeir, hágrenjandi og búin að skíta nokkrum sinnum í brækurnar.
Eftir heitt kakó og almennt pepp frá Palla þá lögðum við af stað upp Þrána. Við fríklifruðum fyrstu 20-30 metrana WI2-WI3. Þar kom maður upp í góðan stans hægra megin við leiðina. Baldur tók fyrstu leiðslu og klifraði ca. 60 m spönn og stoppaði í góðum stansi vinstra megin við leiðina. Við Palli ákváðum að klifra saman upp á eftir honum en það endaði með að ég klifraði ca. 20 metra þar til í fann góðan stað til að stoppa og Palli kom upp til mín, svo var þetta endurtekið þar til við komum upp í Baldurs. Það var gott að taka þetta svona með hvíldum því þessi fyrsta spönn er hálf yfirhangandi og öll út í blómkálshausum, regnhlífum, helliskútum og allskonar drasli, semsagt mjög erfitt og tæknilegt klifur en slatti af góðum hvíldarstöðum.
Eftir smá nestispásu þá lagði ég af stað. Ég klifraði til hægri inn á miðjan fossinn og þar þurfti maður að byrja á að taka upphýfingu upp á regnhlíf og skríða einhvernvegin ofan á hana, mjög hughreystandi með mögulegt pendúlfall aftur í fangið á Baldri og Palla. Eftir regnhlífina fór ég upp hálfgerða kverk og hliðraði á hægri hlið fossins. Þar var í raun eini staðurinn í þessari spönn sem hægt var að hvíla sig almennilega. Þar fyrir ofan tók við 10 metrar af lóðréttum grjóthörðum pólereðum, sléttum og fídusa-lausum ís. Spönnin var ca. 40 metrar af ís og 10 metra snjóbrekka í lokin.
Þetta er alveg klárlega erfiðasta ísklifurleið sem ég hef klifrað. Ég stefni á að breyta gráðunni á þessari leið í WI6, nema einhver mótmæli hér á þessum þræði.
Nú á Palli hlut í 3 af 4 ferðum þarna upp og geri aðrir betur. Þvílík forréttindi að klifra með þessum kalli og þvílíkar fyrirmyndir þessir kallar, ég vona að ég verði í formi til að klifra Þrána þegar ég verð 60 ára.
Facebook myndaalbúm með völdum myndum og smá myndatexta
Google photos myndaalbúm með öllum myndunum og myndskeiðunum8. February, 2021 at 11:09 #72779SissiModeratorHerregud, þetta er svakalegt! Takk fyrir góða ferðasögu.
8. February, 2021 at 11:14 #72780OlliParticipantÉg man vel eftir fyrstu uppferð. Það var sennilega 15-18 stiga frost og seinni spönnin var mjög erfið. Ísaxarblaðið var vel bogið hjá mér (man ekki eftir því hvernig það gerðist) og ísöxin hrökk ítrekað til baka þegar ég reyndi að höggva í glerharðan ísinn sem gerði það að verkum að ég pumpaðist vel út. Þegar upp kom var ég útpumpaður með eitt kengbogið ísaxarblað og stórt gat ofan á plastskónum en í kuldanum hafði skórinn minn brotnað. Strákarnir(Grímur og Palli) hlógu dátt af þessu hjá mér.
8. February, 2021 at 11:36 #72785Ágúst Þór GunnlaugssonParticipantRosalegt! Til hamingju með geggjaðan dag.
8. February, 2021 at 12:26 #72787JonniKeymasterTil hamingju með þetta, rosaleg leið!
8. February, 2021 at 17:02 #72792Bjartur TýrKeymasterGeggjað. Vel gert! Til hamingju með þetta
8. February, 2021 at 23:29 #72798Arni StefanKeymasterJá merkilegt, ég var alveg viss um að Palli og Bladur væru með paraherbergi í Sunnuhlíð.
En að öllu gamni slepptu, svakalega vel gert!
- This reply was modified 3 years, 9 months ago by Arni Stefan.
-
AuthorPosts
- You must be logged in to reply to this topic.