Nýstofnað Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi

Home Forums Umræður Almennt Nýstofnað Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi

  • This topic is empty.
  • Author
    Posts
  • #45223
    aimgguides
    Member

    Tilkynning um stofnun Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi:

    Í desember síðastliðnum var sett á laggirnar Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi, AIMG (Association of Icelandic mountain guides). Um er að ræða fagfélag fyrir þá sem starfa við jökla-, fjalla-, og skíðaleiðsögn hér á landi.

    Tilgangur og markmið félagsins eru:

    • Að verja almannahag með því að stuðla að fagmennsku og öryggi í fjallaleiðsögn og tengdum greinum á Íslandi.
    • Að halda uppi menntunar og starfsréttinda kerfi fyrir fjallaleiðsögn og tengdar greinar.
    • Að verja hagsmuni þeirra sem starfa við fjallaleiðsögn og tengdar greinar á Íslandi ásamt því að stuðla að öryggi og fagmennsku.
    • Að vekja vitund meðal almennings um félagið og mikilvægi fagmennsku í fjallaleiðsögn.

    Félagið er opið öllum þeim sem hafa formlega þjálfun í fjallaleiðsögn sem samræmist þjálfunarkerfi félagsins sem hefur verið í þróun undanfarið og er nú tilbúið.

    Félagið var stofnað án félaga til þess að eingöngu þeir sem búa yfir formlegri þjálfun geti orðið félagar eins og kemur fram í stofnsamþykktum félagsins. Félagið er því eingöngu fagfélag en ekki stéttarfélag þar sem stéttarfélög eru lögum samkvæmt öllum opin.

    Undirbúningshóp félagsins skipa Atli Pálsson, Gunnar Atli Hafsteinsson, Garðar Hrafn Sigurjónsson, Hörður Míó Ólafsson, Róbert Þór Haraldsson og Þórður Bergsson. Undirbúningshópurinn starfar sem stjórn félagsins fram í maí, þegar aðalfundur verður haldinn og ný stjórn kosin, enda verður inntöku félaga að miklu leyti lokið þá.

    Umsókn um félagsaðild

    Framundan er umsóknarferlið og innganga tilvonandi félaga. Skipuð hefur verið inntökunefnd sem fer yfir umsóknir og metur umsækjendur inn í þjálfunarkerfið. Inntökunefndina skipa Arnar Felix Einarsson, Björgvin Hilmarsson, Ívar Freyr Finnbogason og Jón Heiðar Andrésson. Inntökunefndin starfar sjálfstætt og án aðkomu undirbúningshóps félagsins til að tryggja hlutleysi við mat umsókna.

    Leiðsögumenn sem hafa formlega þjálfun í fjallaleiðsögn geta sótt um að fá aðild að félaginu. Þeir sem ekki búa yfir formlegri þjálfun en uppfylla kröfur þjálfunarkerfis félagsins og hafa starfsreynslu í jökla eða fjallaleiðsögn geta sótt um að vera metnir inn í kerfið.

    Þeir sem hafa áhuga á að sækja um aðild að félaginu senda tölvupóst til inntökunefndar á umsoknaimg@gmail.com
    Tilvonandi félagar fá því næst sendan umsóknarpakka með skjölum þar sem þeir skila inn rökstuddu sjálfsmati á hvar þeir passi inní þjálfunarkerfið. Einnig þarf að skila inn ferilskrá yfir leiðsögn, fjallamennsku og viðeigandi menntun.

    Inntökunefndin mun fara yfir umsóknir og staðsetja umsækjendur í þjálfunarkerfi félagsins. Ljóst er að mikil vinna er framundan og það getur tekið 3-4 mánuði að klára allar umsóknir.

    Athugið að til að hafa atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi í maí þarf viðkomandi að hafa klárað umsóknarferlið og því mikilvægt að senda inn umsókn sem fyrst.

    Kveðja,

    Undirbúningshópur Félags Fjallaleiðsögumanna á Íslandi

    #58137
    0311783479
    Member

    Til hamingju með félagið fjallaleiðsögumenn góðir!

    Ein spurning, svona fyrir forvitnissakir:

    Hvað er starfsréttindakerfi og hvernig er það hugsað?

    kveðja
    Halli

    #58155
    dabbigj
    Member

    Til hamingju með þetta, glæsilegt framtak og vonandi dafnar félagið í framtíðinni

Viewing 3 posts - 1 through 3 (of 3 total)
  • You must be logged in to reply to this topic.