Niðurstöður könnunar liggja fyrir…

Home Forums Umræður Almennt Niðurstöður könnunar liggja fyrir…

  • This topic is empty.
  • Author
    Posts
  • #45793
    0703784699
    Member

    …og hvað?

    Hvað ætla menn að gera, ráða starfmann, ráðast í endurnýjun TOPO-a og kannski á engilsaxnesku líka? Fá fyrirlesara til landsins? Laga skálana? og og og….

    Sem víkur að spurningu minni, hvernig klúbbur ætlar Ísalp að vera?

    Tel að ársritið endurspegli soldið félagsskapinn sem sækir í Ísalp, þeas menn (og konur) sem eru að gera eitthvað annað en að labba hornstrandir um sumartímann og ganga laugaveginn. Þetta eru regnhlífarsamtök f. klifrara og þá sem stunda fjallamennsku (ekki gönguferðir) og það á að einbeita sér að því og þeim hóp. Það eru til klúbbar f. þá sem vilja fara í einstaka labbitúra upp þverfellshornið og Ísalp er ekki þar á meðal tel ég. Íslenski ALPAklúbburinn er ekki f. fjallahjól heldur Íslenski Fjallahjólaklúbburinn, Íslenski ALPAklúbburinn er ekki f. Kite og heldur ekki Paragliding heldur Fisfélag Íslands. Eflaust stunda margir klifrara fjallahjólreiðar og paragliding en það á samt sem áður ekki heima í Ísalp frekar en skákkennsla. Formaður Ísalp hefur stundað Kayak, eigum við ekki bara að taka upp kayak ferðir líka?

    Þegar ég segi að Ísalp eigi að styða og stuðla að framþróun fjallamennsku á íslandi að þá þýðir það ekki stiga upp þverfellshornið heldur halda utan um þann kjarna sem er meira “hard core” ef menn vilja nota það orð. Ég held að Ísalp verði að skera sig úr, sem ég tel hann alltaf hafa gert, frá Útivist og Ferðafélaginu sem er f. þá sem eru meira “soft” ef svo má að orði komast og þá ekki í neikvæðri merkingu þess orðs heldur bara til að útskýra áherslur mínar. Held að flestir skilja hvað ég meina og margir séu á sama máli. Fannst of mikið eitthvað vera um að gera Ísalp að “soft” klúbbi þar sem leiða þarf fólk áfram í allt og öllu í þessari rannsókn. Ísalp ætti að vera regnhlíf/samastaður f. þá sem sækjast í meira en almenna fjallamennska sem er ört vaxandi sport hér á landi, og einbeita sér að kjarnastarfsemi til að viðhaldi þeim hóp. Samkomur (myndasýningar, Banff, jólaglögg), atburðir (ísklifurfestival, telemark og klifurfestivöl), upplýsingaveita (topo, heimasíða og ársrit en ekki neitt fræðsluefni) eru hluti af þessari kjarnastarfsemi tel ég.

    En þá kemur upp spurningin hvernig byrjar maður? Þetta er svo lokað samfélag/klúbbur. Ég held að aukning félagsmanna og klifrara undanfarin ár sýni að svo er ekki…..flestir sem ég þekki í þessum geira eru mjög opnir og liðlegir að koma nýjum að þó að maður standi ekki þessar fáu helgar sem maður á í að top-rope-a hóp af fólki sem er að byrja. Til þess eru námskeiðin.

    Ef við þyrftum að velja á milli þess að fá Alexander Huber til landsins og hafa fyrirlestur eða Dean Karnazes ( http://www.thenorthface.com/eu/news/news-20060917.html ), þá held ég að svarið sé augljóst. Annar þeirra er of “soft” þó hann sé að gera súper flotta hluti, en bara ekki f. markhóp Ísalp. Reyndar myndi ég vilja sjá fyrirlestur hjá báðum þessum mönnum, en ég yrði undrandi ef Útivist myndi fá Alexander Huber til landsins til að halda fyrirlestur alveg einsog ef Ísalp fengi Dean Karnazes.

    Ísalp er jaðarklúbbur og ég myndi ég vilja halda honum sem slíkum,

    Ef þú náðir að lesa svona langt að þá þakka ég þér f. það,

    kvHimmi

    #51774
    1506774169
    Member

    Ég er sammála því að þetta á ekki að vera klúbbur fyrir önnur sport en hardcore fjallamennsku og klifur. Fyrir þá sem labba laugaveginn og á esjuna er nefnilega til klúbbur sem heitir Ferðafélag Íslands og Útivist. Þessu held ég að ætti að halda aðskildu en það verða alltaf einhverjir feministar sem eru ósammála og finnst að allir eigi að vera í þessum klúbb en ekki rétta klúbbnum fyrir hvert áhugamál.

    Annars gæti þetta bara heitið Íslenski ferðaklúbburinn :)

    #51775
    1908803629
    Participant

    Smá svör/leiðréttingar um könnunina… þar sem ég stóð á bakvið hana.
    1. Könnunin var á engan hátt ætluð til þess að draga fram “softcore” niðurstöður heldur var lögð áhersla á að telja upp allt það sem félagið gæti hugsanlega staðið fyrir. Að sama skapi voru talin upp öll þau jaðarsport sem félagsmenn gætu hugsanlega stundað, til að geta kortlagt hópinn sem best en eins og niðurstöðurnar sýna þá eru flestir að stunda “kjarnasport” klúbbsins.
    2. Við gerðum svo ráð fyrir að svörunin myndi leiða fram sannleikann um hvað svarendur vildu sjá Ísalp standa fyrir og ég veit ekki betur en að sú niðurstaða sé nokkuð í línu við þær lykiláherslur sem hafa fylgt klúbbnum frá upphafi.
    3. Ég sé ekki betur en að Himmi sé fyrst og fremst að vísa til skriflegra athugasemda sem eru auðvitað svör einstaklinga en ekki allra og því metin sem slík þegar við förum að endurskoða hlutverk og reglur Ísalp.

    Varðandi hardcore/softcore mál þá er greinilegt að skoðanir eru mismunandi auk þess sem það má velta því upp hvað er hardcore? Ég stunda sportklifur og gjótglímu, fer í frekar léttar fjallgöngur og tek upp á því að kíkja í klifur erlendis þegar ég er þar. Varla er þetta hardcore, eða hvað? Samt er ég meðlimur í klúbbnum og meira að segja í stjórninni…

    #51776
    Skabbi
    Participant

    Þessi könnun var náttúrlega unnin til að kanna áhugasvið félaga í Ísalp og viðhorf þeirra til klúbbsins. Ef þið skoðið tölurnar or lesið athugasemdirnar kemur margt fróðlegt í ljós.
    Vissulega er hópur manna sem er jafn-hardcore og þið en allsekki allir félagsmenn. Langt því frá. Það sem nær allir félgsmenn í Ísalp eiga þó sameiginlegt er áhugi á fjöllum og fjallgöngum og fjallamennsku. Það skal enginn segja mér að þeir hafi eingöngu áhuga á því að láta leiða sig upp á Úlfarsfell heldur hafa ánægju af því að ganga á fjöll vítt og breitt.
    Mín skoðun er sú að Ísalp eigi að taka vel á móti öllum sem stunda fjallamennsku af hvaða toga sem er, ef þeir hafa áhuga á starfinu. Léttar gönguferðir a la FÍ hefur aldrei verið veigamikill þáttur í starfseminni og það á ekki eftir að breytast á næstunni. Ef menn í klúbbnum vilja sammælast um göngu á Esjuna eða Akrafjall er þeim það velkomið.

    Varðandi önnur sport en ”hardcore fjallamennsku og klifur”. Að sjálfsögðu gengur enginn í Ísalp með það fyrir augum að stunda eingöngu kayakróður eða kite. Áhugasvið Ísalpara er hinsvegar mjög breitt og mér hefur persónulega þótt skemmtilegt að lesa um kayakleiðangra sumra klúbbfélaga eða hjólaferðir yfir Fimmvörðuháls og Vatnajökul. Ég er feginn að þeir klúbbfélagar sem stunda þessi sport miðla af þeirri reynslu til okkar hinna í gegnum Ísalp en leiti ekki eingöngu til annara klúbba til þess. Fjallaskíðun er mjög gott dæmi um þetta. Er það massa hardcore?

    Til þess að klúbbur á borð við Ísalp vaxi og dafni verður að vera ákveðin nýliðun. Við megum ekki vera fráhrindandi fyrir þá sem hafa áhuga á fjallamennsku og getum ekki gert ráð fyrir því að menn geti farið á eitt námskeið og útskrifist þaðan sem gallharðir klifurgarpar sem bryðja nagla og skíta keðjum. Við verðum að sýna umburðarlyndi gagnvart þeim sem ekki stefna að því að klifra Glym fetlalaust.

    Það er frábært hvað það er stór hópur sem hefur áhuga á starfsemi klúbbsin og mér þætti glæsilegt að fá í gang smá umræður um hvernig menn vilja að starfið þróist.

    Allez!

    Skabbi

    #51777
    0703784699
    Member

    Ég lít á fjallaskíði sem hluta af “hardcore” skíðamennsku/fjallamennsku. Sú tegund skíðunar er stunduð af ansi fámennum hóp, og ekki eingöngu í Kóngsgilinu. Hinir sem hafa áhuga á skíðum almennt fara í Ármann eða Breiðablik eða Fram. Í fjallaskíðun ertu líka að blanda saman skíðamennsku og fjallamennsku (þekkingu, kunnáttu og fleira í einn þátt). Þarna liggur línan…….”hard core” þarf ekki að vera með 180 púls af því þú ert að skíta á þig í 80 metra hæð í ísfoss sem gæti allt eins fallið. Heldur er “hard core” (segi og skrifa í gæsalöppum) það sem almenningur stundar ekki, eða það sem við höfum tamið okkur að kalla jaðarsport, á jaðrinum því að fáir stunda það. Ísalp á ekki að mínu mati að ýta undir almenna fjallamennsku heldur jaðarfjallamennsku sem það hefur jú alltaf gert, en ég hafði áhyggjur af breytingum í aðra átt og því skrifaði ég þetta til að vekja umræðu um málið.

    Kíkja í klifur og grjótaglímu og klifur erlendis þegar færi gefst myndi ég telja “hard core”. Var að vonast til að menn myndu ekki oftúlka orðið “hard core”, sem hefur verið notað mikið hér á spjallþráðum Ísalp. Þetta snýst ekki um að vera skíthræddur í því sem maður tekur sér fyrir heldur að við séum klúbbur til að ala á jaðarfjallamennsku. Gera leiðarvísi f. klifursvæði en ekki gönguleiðir. Ég lít á Kilimanjaro ennþá sem klifur erlendis þó að flestir sem fara þangað núna séu ferðafélagsfólk, í jákvæðri merkingu þess orðs. En held að Ísalp eigi frekar að vera í því að styrkja fólk í því að fara á Fitz Roy en Kilimanjaro til að reyna að útskýra mál mitt aðeins.

    Ég held að könnunin sem slík hafi verið áhugaverð og skemmtileg og nauðsynleg til að kanna púlsinn á hinum almenna félagsmanni. En ég vildi bara fá upp hvað þetta leiðir af sér…hvert stefnir klúbburinn og hvort eitthvða mikið breytist.

    Ég fór síðast á Esjuna í Ágúst venjulega leiðina, en ég þarf ekki að vera útlægur í kúbbnum f. vikið, eða vona ekki. Heldur tel ég að Ísalp eigi ekki að vera ýta undir svoleiðis ferðir eða efla þann hluta. Það er nóg af samtökum og fyrirtækjum sem eru að því. Menn geta farið í slíkar ferðir á eigin vegum, kynnst fólki í gegnum klúbbinn til að gera slíka hluti til að halda ser í formi og þess háttar en ég held að við verðum að passa okkur á að fara ekki að vera með almennar ferðir (sem ég held reyndar að hafi komið skýrt fram hjá tveimur stjórnarmeðlimum að sé ekki stefnan)

    Þetta má heldur ekki túlka sem gagnrýni á störf stjórnar, þar sem ég tel þá vera að gera mjög góða hluti og vonast til að starfið haldi áfram og dafna,

    kv.Himmi sem tyggur rakvélablöð í staðinn f. tyggjó

    PS: bendi fólki á að lesa bókina Dark Shadows Falling eftir Joe Simpson, http://www.noordinaryjoe.co.uk/books.asp , og myndi sér skoðun á því hvað þeim finnst vera fjallamennska. Ég er vonandi ekki að smita fólk um of með mínum skoðunum…..

    #51778
    1908803629
    Participant

    Þetta er mjög góð umræða, og akkúrat um það sem ég áttaði mig á að vantaði inn í könnuninuna.

    Þ.e. fyrir hverja er Ísalp og hvað er hardcore fjallamennska?

    Það virðast vera jafn margar útgáfur af lýsingum og félagsmenn eru margir… eða hvað?

    Nú sprengjum við skala í umræðuþræðum og tjáum okkur um þetta!

    #51779
    2008633059
    Member

    Mjög þörf umræða! Eins og ég sé þetta þá er ekki alveg einfalt – eða segjum frekar hentugt – að draga hreina línu milli “hard core” og einhvers annars þegar kemur að fjallamennsku. Margir (flestir?) sem hafa áhuga á klifri hafa líka mikinn áhuga á annarri fjallamennsku og raunar útiveru í víðum skilningi þess orðs. Á sama hátt eru ýmsir sem eru vanir “linari” fjallamennsku líklegir til að vilja prófa eitthvað nýtt og þá kannski aðeins strembnara en þeir eru vanir, t.d. einfaldlega að prófa fjallsstind að vetrarlagi sem þú skokkar auðveldlega upp á góðum sumardegi. Eða að taka þátt í einhverju smá brölt (e. scramble) sem allir sannir harðkjarnar hlæja bara að. Mér finnst alveg óþarfi að flokka fólk mikið niður og að klúbburinn eigi vel að geta rúmað mismunandi tegundir fjallamennsku og þannig vonandi auðveldað fólki að komast í kynni við nýja hluti. Ég kynntist því í sumar á námskeið hjá ISM í Sviss að það er mikið breiðari hópur úti sem stundar “alpinism” en er tilfellið hér og þá bæði hvað varðar aldur og kunnáttu. Kannski eitthvað sem mætti vera til umhugsunar fyrir okkur. Með því að bjóða LÍKA (en ekki BARA) upp á “léttari” fjallamennsku ætti að vera hægt að stækka hópinn sem aftur skapar efnivið í erfiðari verkefni og auðvitað fleiri peninga í kassann! ÍSALP þarf samt að hafa sérstöðu og þar mætti draga mörkin við eitthvað sem kallast “tæknileg fjallamennska”, þ.e. um leið og þú þarft línu, brodda, axir eða önnur hjálpartæki þá áttu heima í klúbbnum. Það var kannski þannig einu sinni að harði kjarninn úr björgunarsveitunum fór í ÍSALP til að sinna sínu áhugamáli í friði en þetta gæti verið að breytast, kannski þarf Ísap núna að búa sig undir að sjá um uppeldisstarfið og kveikja áhugann sem björgunarsveitirnar hafa sinnt hingað til.

    Hættann sem ég held að Himmi vísi til er að áherslan verði of mikið á það sem allir aðrir eru að gera, að klúbburinn þynnist út, missi fókusinn og hætti að vera vettvangur fyrir á sem eru í þessu af meiri alvöru og metnaði. Það er örugglega eitthvað til í þessu en ætti samt ekki að vera mikil hætta ef þeir sem stjórna klúbbnum eru starfi sínu vaxnir.

    kv,
    Jón Loftur

    PS. Annars, ef við höldum áfram flokkadrættinum hvað eru þá sólbakaðir sportklifrarar að vilja í alpaklúbbi!

    #51780

    …getum þá eins spurt okkur hvað í fjandanum ALPA-klúbbur hafi yfirleitt að gera á Íslandi með enga alpa. Auðvelt að tapa sér í orðaleikjum og hugtakapælingum, en það er ekki aðalmálið.

    Einn grínari hér að ofan er líklega ekki alveg með það á hreinu hvað er að vera feministi. Nokk þreytandi svona old-school karlrembutuggur.

    En að því sem skiptir máli. Eftir að hafa rennt yfir kommentin í könnuninni og aðrar niðurstöður þá er ég að festast meira í þeirri skoðun minni að hafa alla yfirbyggingu og óþarfa umstang sem minnst.

    Vefsíða og ársrit:
    Fyrir mér er vefsíðan og ársritið algjörlega þungamiðja Ísalp. Vefsíðan grundvöllur skoðanaskipta og ársritið fræðandi annáll. Hvorugt er bundið við ákveðinn stað á landinu og því geta allir notið herlegheitanna. Eins og einhver sagði þá er umbylting vefsíðunnar ekki lykilatriði, en auðvitað má bæta hana tæknilega ef þörf er á, heldur skiptir öllu máli hversu virkir félagsmenn eru í að setja þar inn efni, tjá sínar skoðanir og skiptast á ferðasögum, almennri reynslu og öðru sem kemur að gagni. Nú hefur ársritið líka verið hafið til fyrri vegar og viðringar, glæsilegt!

    Viðburðir og aðstaða:
    Aðstaða til að hittast, halda myndasýningar og annað, er eitthvað sem ég tel mikilvægt. Það má deila um hvað sé hentug aðstaða, en einhver verður hún að vera að mínu mati. Hún er hreint ljómandi sú sem fyrir er, en ég hef ekki hugmynd um kostnaðinn við hana. BANF finnst mér ómissandi og bara verðugt markmið að láta það dæmi koma út í plús. Gekk það ekki annars síðast? Að fá reynslubolta að utan til að tala og sýna myndir er líka gott mál, enn og aftur spurning um aura og áhuga.

    Ís- og klettaklifurfestival, ekki spurning… grunnelement í alpínisma. Sýnist telemarkfestival líka vera að gera það gott þó ég sé ekkert inni í því dæmi. Skálarnir tveir eru á klassískum svæðum sem eru algjörar perlur og að mínu mati fínt að viðhalda þeim en ekki endilega bæta við nýjum.

    Námskeið og nýliðar:
    Samstarf um námskeið við Fjallaleiðsögumenn og Klifurhúsið er gott mál. Hægt að auka efni inni á heimasíðunnu fyrri nýliða og forvitna. Til dæmis QnA eins og einhver nefndi o.fl. Allt spurning um tíma og nennu. Ísalp getur gert mikið gang með því að veita upplýsingar (í gegnum síðu og spjall) og taka vel á móti fólki, án þess að standa mikið í massífum námskeiðum eða ferðum sérstaklega fyrir byrjendur.

    Keep it simple, keep it real.

    Kv. Björgvin

    #51781
    2005774349
    Member

    Hei takk Himmi!

    Alveg sammála svo ég ætla ekki að skrifa neitt.
    Megafínt að vera í Ísalp.

    Venga!
    HRG.

    #51782
    0703784699
    Member

    ….Ísalp getur gert mikið gang með því að veita upplýsingar (í gegnum síðu og spjall) og taka vel á móti fólki, án þess að standa mikið í massífum námskeiðum eða ferðum sérstaklega fyrir byrjendur.
    …..erumvið þá ekki sammála Björgvin?

    Ég kannski er ekki sá orðheppnasti, á það til að vera full harðorður f. flesta og taka of djúpt í árina.

    Aldrei kom það fram í skrifum mínum að loka á vissa hópa, en bara að vera með stefnu/markhóp ísalp á hreinu. Þó þú labbir á Helgafellið þá áttu ekki að vera útskúfaður úr Ísalp, heldur bara að Ísalp sé ekki að eyða púðri sínu í þá átt….það eru hópar sem hafa tekjur af því að sinna því og því eigum við að huga að öðru.

    Björgvin nefnir þarna kjarnastarfsemi sem er mikilvægt að halda utan um, þær sömu og ég hef nefnt áður og tel mikilvægar (lífsnauðsynlegar) í starfi ísalp til að mynda hópa, kynnast fólki, mynda tengsl en þessir atburðir eru oft þeir einu sem ég hitti marga góða klifurfélaga á og hugmyndir að næstu ferð koma á…..held að fæstir vilji að Ísalp verði að einhverjum mömmu (aftur tek ég skemmtilega til orða) klúbbi sem býr til nestið þitt og allt í ferðirnar þínar.

    Húsnæðið þarf ekki að vera stærra eða flottara, Q&A er alveg sniðugt og fullt af öðru hefur komið fram sem er sniðugt svo framarlega sem það bitnar ekki á kjarnastarfsemininni.

    kvHimmi sem ennþá bryður rakvélablöð (stolið úr myndinni Cherry 2000 sem margir feministar ættu að sjá….en þar er konan orðin óþörf þar sem við karlmennirnir eigum allir dúkkur og Cherry 2000 er vinsælasta týpan, skemmtileg mynd en allaveganna 10 ef ekki 15 ára, og fjallar um hvernig “tomboy” gellan þarf að hjálpa metro gæjanum að ná í nýja Cherry 2000 þar sem hans bilaði)

    #51783

    Jú Himmi, ég held einmitt að við séu á mjög svipaðri línu. Vildi bara lýsa minni sýn á þetta með mínum orðum. Kannski bara endurtekning á því sem áður hafði komið fram. Ætlaði að vera stuttorður en það gengur yfirleitt illa hjá mér.

    Cherry 2000 er greinilega eitthvað sem maður ætti að tékka á, hljómar mjög hardcore. Kannski efni í næsta vídjókvöld Ísalp :)

    #51784
    1908803629
    Participant

    Smá innlegg varðandi fyrir hverja Ísalp er. Hér kemur lýsing á Ísalp eins og það er í dag (og hefur væntanlega verið í 30 ár), fengið af þessari síðu, undir Um Ísalp. Það ber ekki mikið á hardcore fókus þarna.

    “Íslenski Alpaklúbburinn (ÍSALP) er félag áhugamanna um fjallamennsku. Það var stofnað 1977. Nafnið dregur Alpaklúbburinn af samskonar félögum sem eru starfrækt um allan heim. Þessi félög miðla upplýsingum um fjallamennsku, halda námskeið, sjá um ferðir, o.s.frv.

    ÍSALP býður upp á námskeið í flestum þáttum fjallamennskunnar. Farnar eru ferðir við flestra hæfi sem eru gráðaðar eftir erfiðleikastigi. Haldnar eru sýningar og myndbandskvöld. Myndarlega er staðið að útgáfustarfsemi með veglegu ársriti og þessum vef.”

    #51785
    0808794749
    Member

    Þetta er greinilega allt spurning um það hvernig fólk er að skilgreina fjallamennsku. Orð sem er tiltölulega nýtt í íslensku tungumáli og væntanlega fengið að láni úr öðrum tungumálum.

    Skoðum hvernig frakkar, (þar sem alpa er að finna), þýskumælandi ( jú líka alpar) og bretar skilgreina fjallamennsku. (fengið af wikipedia.org)

    Á frönsku: L’alpinisme est un ensemble de disciplines sportives qui regroupent différentes techniques de progressions en montagne.

    Á þýsku:
    Alpinismus umfasst neben dem Bergsteigen im eigentlichen Sinn – Wandern, Felsklettern, Eisklettern, Skibergsteigen, Expeditionsbergsteigen bzw. Höhenbergsteigen – auch Trekking, Erforschung unbekannter Berggebiete, Kartographie dieser Gebiete, Naturschutz, Bergführerwesen etc.

    Á enskri ensku: Mountaineering is the sport, hobby or profession of walking, hiking, trekking and climbing up mountains. It is also sometimes known as alpinism, particularly in Europe. While it began as an all-out attempt to reach the highest point of unclimbed mountains, it has branched into specializations addressing different aspects of mountains and may now be said to consist of three aspects: rock-craft, snow-craft and skiing, depending on whether the route chosen is over rock, snow or ice. All require great athletic and technical ability, and experience is also a very important part of the matter.

    Í fljótu bragði sé ekki að stórmunur sé á skilningi þessara þjóða á orðinu og því ætti hann varla að vera fjarri okkar skilningi. Hins vegar er erfitt að skilgreina hvað fólki finnst hard-core. Verður sú upplifun líklega alltaf tengd þeim bakgrunni sem fólk hefur og við hvað það ber hlutina saman við. Það er líklegt að einhver sem er alinn upp í fjallaþorpi í ölpunum og á ömmu sem klifrar upplifi hlutina öðruvísi en sá sem hefur alist upp inni á sparkvelli eða við taflborð…

Viewing 13 posts - 1 through 13 (of 13 total)
  • You must be logged in to reply to this topic.