(Icelandic) ÍSALP og FÍ munu eiga Bratta saman

Home Forums Umræður Almennt (Icelandic) ÍSALP og FÍ munu eiga Bratta saman

  • Author
    Posts
  • #61852
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Sorry, this entry is only available in Icelandic. For the sake of viewer convenience, the content is shown below in the alternative language. You may click the link to switch the active language.

    ÍSALP og FÍ voru að gera samkomulag um eignarhlut og aðkomu FÍ að rekstri Bratta

    Forsaga málsins er flestum klúbbfélögum kunn, en um skálann má m.a. lesa hér og hér. Skálinn er ákaflega veglegur og var metnaður innan Brattanefndarinnar fyrir því að koma honum í heilu lagi upp eftir og búa að honum og innrétta þannig að sómi væri af.

    Til að ÍSALP gæti staðið undir þessum framkvæmdum án þess að hætta á að tæma sjóði klúbbsins var skynsamlegasta lausnin talin vera að selja eina eininguna af þremur. Mörgum gramdist þessi niðurstaða og  kom sú hugmynd því upp að fá þriðja aðila til samstarfs með það að markmiði og skálinn færi upp í heilu lagi.

    ÍSALP er upphaflega sprottið undan ranni Ferðafélagsins og hafa félögin í gegnum tíðina átt farsælt samstarf. Félögin tvö hafa svipuð markmið og svipaða hagsmuni og því töldum við upplagt að kanna hvort hljómgrunnur væri fyrir aðkomu þeirra að skálanum. Eftir nokkra góða fundi með FÍ náðist ofangreint samkomulag sem að mínu mati (formanns) er mjög góð lending fyrir Alpaklúbbinn.

    Hugmyndin er sú að ÍSALP sjái um rekstur skálans á veturna og ráðstafi honum þá að vild, en FÍ sjái um hann á sumrin. FÍ mun bera hitann og þungann af viðhaldsvinnu, en þetta verður útfært og útlistað nákvæmlega í formlegum samningi í september.

    Stóra fréttin er sú að Alpaklúbburinn mun næsta vor eiga einn glæsilegasta fjallaskála landsins, með góðri svefn-, eldunar- og kennsluaðstöðu í seilingarfjarlægð frá höfuðborginni og samtímis búa við traustan fjárhag.

    Ég nýti því tækifærið og óska ykkur til hamingju!

    #61855
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Endilega ræðið.

    #61857
    Karl
    Participant

    Er þetta ekk bara ágætt!

    Krossviðurinn utaná skálanum mun ekki endast lengi í Botnsúlum, -stendur til að járnklæða skálann eða setja á hann vírnet og þunnt lag af grjóti?

    #61859
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Hugmyndin var að klæða hann með alu-zinki, en þetta verður ákveðið eftir sumarið.

    #61861
    Sissi
    Moderator

    Sælir félagar,
    til að byrja með langar mig að þakka stjórn og þeim sem hafa verið að vesenast í Brattamálum og öðru fyrir þeirra framlag. Þetta er óeigingjarnt starf og við mættum öll klappa ykkur oftar á bakið.

    Hafandi sagt það þá þykir mér þessi lending miður.

    Byrjum á smá sagnfræði. Fyrir 8 árum vorum við í svipaðri stöðu með Tindfjallaskála. Skálinn var að grotna niður og klúbburinn hafði ekki burði til að gera neitt í málunum. Fregnir bárust til Kyrgizstan þar sem við sátum nokkrir ÍSALParar að sumbli um að klúbburinn hygðist láta FÍ hafa skálann á 500 þúsund krónur ef ég man rétt. Það hefði náttúrulega verið einföld lausn á vandamálinu en menn ákváðu að reyna að gera eitthvað í málunum.

    Klúbburinn hefði gefið eftir mikilvægan hlut af sinni sögu, auk þess sem gríðarleg verðmæti eru í að eiga staðsetningu á borð við Tindfjöll. Ég er efins um að fleiri skálabyggingar verði leyfðar á svæðinu.

    Að mínu mati voru allar aðstæður mun erfiðari. Skálinn þurfti á algjörri endurbyggingu að halda, afar vinnufrekri sem krafðist þekkingar, og kreppa var skollin á. Fjáröflun var gríðarlega erfið, húsfriðunarnefnd tók af okkur viðhaldsstyrk og hafnaði umsókn um styrk til endurbyggingar. En fjármagn fannst, meðal annars gáfu sumir í skálanefndinni fé í verkefnið og ómælda vinnu. Mig minnir að afar lítill kostnaður hafi lent á ÍSALP. Verkefnið var leyst með sóma og skálinn var kominn á sinn gamla stað eftir ár og viku.

    Bratti er að sumu leyti sambærilegur. Ég sé ekki fyrir mér að fleiri skálar verði reistir á svæðinu og virði staðsetningar til lengri tíma því gríðarlega mikið fyrir klúbbinn. Að selja 50% fyrir kojur, spýtur og nagla gæti verið ákveðin skammsýni. Skálinn stendur á lóð, greidd eru fasteignagjöld og annað, svo réttur klúbbsins til áframhaldandi veru er sterkur.

    Þá skilst mér að öflugur hópur manna, m.a. að hluta til þeirra sem gerðu upp Tindfjallaskála, hafi staðið að baki þessu verkefni. Mér leikur forvitni á að vita hvort þeir hafi verið með í ráðum og lagt blessun sína yfir þennan ráðahag.

    Ég vona að minnsta kosti að sambærileg stemning skapist um að klára Bratta eins og skapaðist um Tindfjallaskála. Og ég er viss um að Góli, Gísli Sím og fleiri bjóða sig fram með mér til að byggja kamarinn. Gísli verður samt vonandi með hjálm.

    Sissi

    Tindfjallaskáli

    #61864
    Freyr Ingi
    Participant

    Góðan dag.

    Er ekki tilefni til að ræða þetta aðeins innan klúbbsins.
    Mér heyrist að fólk hafi skoðanir á þessum skála sem við fengum að gjöf.

    Má biðja um fund meðal félagsmanna og stjórnar til upplýsinga um stöðuna.

    Freyr Ingi

    #61866
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Það má svo sannarlega biðja um fund. Eigum við að hittast á miðvikudagskvöldið í næstu viku, 20. júlí kl. 20 í Klifurhúsinu?
    Endilega spyrjið hér líka og tjáið skoðanir ykkar.

    #61868
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Ég má til með að svara nokkru af því sem Sissi segir hér að ofan, enda er það eina efnislega gagnrýnin sem hefur borist til þessa.

    Í fyrsta lagi er smánarlegt að bera þetta samkomulag saman við það að ætla að selja Tindfjallaskála á 500.000 kr.
    Hver er munurinn?
    1.Þetta er yfirlýsing um samvinnu, en ekki uppgjöf – ÍSALP mun áfram eiga skálann.
    2.Ferðafélagið mun leggja fleiri milljónir í þetta verkefni.
    3.Þetta mun skila flottari skála en klúbburinn hefði kost á einn og sér.

    Framtakið sem þið stóðuð fyrir var og er ómetanlegt. Það er því framtaki að þakka að klúbburinn á skálann í Tindfjöllum. Ég sé samt enga ástæðu til þess horfa með öfund til Tindfjalla í þessu máli. Vonir okkar standa einfaldlega til þess að ná betri árangri Í Botnssúlum en í Tindfjöllum. Tindfjallaskáli er glæsilegur skáli og allt það, en notkunin er slöpp sem sést á því að veltan í gegnum skálann samtals árin 2010-2014 var undir 200.000 kr. Viðhaldi er vissulega vel sinnt – en það er eingöngu vegna þeirrar staðreyndar að Tindfjallahópurinn hefur ennþá áhuga á að sinna því.

    Markmið með rekstri fjallaskálanna er að þeir séu notaðir sem allra mest – og að þeim sé vel sinnt.
    Að fá sterkan bandamann í Botnssúlur mun bæði fjölga þeim sem nota skálann og stórauka líkurnar á því að viðhaldi verði vel sinnt.

    Ekkert vil ég frekar en að klúbbfélagar segi skoðun sína á þessu máli og það væri ákaflega ánægjulegt að þeir sem stóðu að baki endurreisn Tindfjallaskála „myndu leggja blessun sína yfir ákvörðunina“. Mig langar líka að taka fram að Brattanefnd hefur verið starfandi í eitt og hálft ár. Þessari nefnd var falið umboð klúbbsins til að stýra framtíð skálans. Nefndin er og var opin öllum klúbbfélögum og oftar en einu sinni hefur verið óskað eftir fólki í nefndina og í verkefni sem hún hefur sinnt. Þessi ákvörðun kemur úr nefndinni en auk þess var haft samráð við stjórn klúbbsins og nýtur ákvörðunin stuðnings hennar.

    #61872
    Björk
    Participant

    Sæl öll
    Þetta er stór ávörðun og verið að ráðstafa helstu eignum klúbbsins. Þetta ætti klárlega að vera rætt á félagsfundi og gefa þannig félagsmönnum tækifæri á að hlusta á skýringar stjórnar og nefndarmanna ásamt að spurja spurninga. Vonandi verður það gert áður en samkomulag er undirritað, fundur um svona stórt mál um miðjan júlí er erfiður tími fyrir flesta.
    kv. Björk

    #61874
    Björk
    Participant

    Af hverju er þetta ekki borið upp á aðalfundi?

    Af hverju var farið í samstarf við FÍ frekar en einhverja aðra?

    Hverjar eru forsendurnar og er búið að áætla kostnað við að klára dæmið?

    #61876

    Hæ,

    Ég er algerlega sammála því að þetta á að ræða vel og vandlega enda mikilvægt mál. Það er eitt sem hefur strax komið út úr þessu en það er að skálinn hefur fengið athygli eins og sést á umræðunum og það er frábært. Kannski sparkið í rassinn sem þurfti.

    Aðallega vil ég fá að vita meira um þetta mál og sama gildir örugglega um miklu fleiri. Svona við fyrstu sýn eða lestur þá er maður skeptískur, í það minnsta þarf ég að fá frekari upplýsingar um málið.

    Helgi segir: “en notkunin er slöpp sem sést á því að veltan í gegnum skálann samtals árin 2010-2014 var undir 200.000 kr” Held að hér sé heldur ekki hægt að bera skálana saman. Bratti er miklu nær Reykjavík og bara það mun verða til þess að hann fái mun fleiri heimsóknir. Er líka búið að reikna inn í þessa tölu verðgildi þeirra gistinátta sem voru látnar í skiptum fyrir vinnu? Voru þær ekki allnokkrar?

    Förum rólega í þetta og gefum sem félagsmönnum færi á að verða upplýstir. Sumarið er afleitur tími til fundahalda, ég kemst til dæmis alls ekki 20. júlí.

    Takk fyrir mig.

    Kv. Björgvin

    #61878
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Hvernig litist ykkur á fund eftir verslunarmannahelgi? T.d. 10.ágúst. Við myndum þá fara vel yfir sögu málsins og forsendur fyrir þessari ákvörðun.

    Svo ég svari þeim spurningum sem upp eru komnar (Frá Björk):

    1. Það hefur ekki verið haldinn aðalfundur á þessu ári. Aðalfundir eru núna haldnir á haustin (september) í stað febrúar eins og það var. Ef þetta verður mjög umdeilt eftir fundinn í ágúst er hægt að bera þetta upp á aðalfundinum. Það er hins vegar ekki nóg að hafna bara þessari lausn. Þetta er lausnin sem nefndin komst að og ef menn sætta sig ekki við hana verða menn að taka málið að sér og klára það á annan hátt.

    Það sem ég er að segja er: Það verður ekki kosið um þessa tillögu á aðalfundi með því að svara „Já“ eða „Nei“, heldur þarf að vera einhver valkostur á móti sem skilar skálanum 100% upp í Botnssúlur.

    2. Við litum á FÍ sem áreiðanlegan aðila sem hefur mesta reynslu allra félaga á Íslandi í skálarekstri. Við litum á þá sem líklegan aðila til að klára dæmið með okkur og öflugan bandamann. Í lögum ÍSALP er til dæmis tekið fram að „Sé [ÍSALP] slitið og hætt starfsemi skulu allar eignir þess, lausa- og fastafjármunir fengnir Ferðafélagi Íslands til vörslu og umsjónar þar til Ísalp verður endurvakið“. Við rekjum sögu okkar til Ferðafélagsins og það hefur reynst okkur vel. T.a.m. hafa þeir alltaf lánað okkur salinn sinn endurgjaldslaust þegar þess hefur verið óskað. Upphaflega leituðum við að kaupanda að einni einingu af skálanum og út frá því spruttu viðræður við Ferðafélagið. Áður hafið fyrirtækið HL adventures (HL) sýnt áhuga á samstarfi. Þetta er fyrirtækið sem lét byggja skálann fyrir Land Rover, áður en hann var færður okkur. HL hafði flottar hugmyndir um nýtingu á skálanum, en það kom ekki til tals að þeir yrðu meðeigendur. Það er ekki útilokað að HL gætu nýtt skálann, þó rekstarformið og eignarhaldið á honum muni breytast.

    3. Það er búið að áætla gróflega kostnað við að klára dæmið og við getum farið yfir það á fundinum.

    #61881

    Þetta er góð og þörf umræða! Mjög gaman að heyra skoðanir allra á þessu máli.

    Ég mun sjálfur ekki komast á fund 10. ágúst en það er vert að nefna, svo það fari ekki á milli mála og fólk haldi að þessi niðurstaða hafi verið tekin í flýti, að þetta mál hefur verið lengi í vandlegri umræðu innan ÍSALP.
    Eins og Helgi nefnir þá hefur Brattanefndin setið yfir þessu máli í 1 og hálft ár og hefur þróun málsins verið ítarlega rædd þar að auki á hverjum stjórnarfundi ÍSALP. Það má líka nefna að framtíð Bratta var tekin fyrir á Aðalfundi ÍSALP í mars 2015 og aftur í september 2015…

    #61887
    gulli
    Participant

    Flott að heyra að mikil vinna og pælingar hafa farið í þessa ákvörðun og persónulega efast ég ekki um að þetta er ákveðið með hagsmuni ÍSALP að leiðarljósi. Frábært. Breytir því ekki að þetta er risastór ákvörðun og nauðsynlegt að kynna hana vel og leyfa félagsmönnum að hafa skoðanir og ræða. Vonandi mæta fleiri á þann fund en hefðbundinn aðalfund ÍSALP. Hef töluverða samúð með stjórnarmeðlimum sem þurfa að standa í þessu brasi dag frá degi og eru að reyna sitt besta en lítill áhugi hjá félagsmönnum oft á tíðum sem ekki einu sinni nenna á aðalfund. Vonandi endar þetta ekki eins og BDSM félagið Samtökin 78 ….

    #61889
    Freyr Ingi
    Participant

    Heilbrigð umræða um málið virðist vera farin af stað.
    Ég tek undir það að fundur til kynningar fyrir félaga um miðjan júlí er ekki vænlegur kostur og seinni tillagan um fund eftir verslunarmannahelgi er því mun betri kostur.
    Er það þá ekki slegið?
    Reikna með að stjórn boði á fundinn með formlegum hætti hvenær sem hann svo verður.

    Þetta mál er ekki ósvipað Tindfjallaskálamálinu þar sem ég, þáverandi formaður, lagði fram tillögu um að koma skálanum yfir á FÍ. Lítill áhugi hafði þá verið fyrir Tindfjallaskála um nokkurn tíma og hann að niðurlotum kominn vegna
    viðhaldsleysis. Í kjölfarið fór af stað atburðarrás keimlík þessarri sem endaði á því að hópur fólks tók verkefnið að sér. Sótti skálann, endursmíðaði og kom honum svo aftur á sinn stað í Tindfjöllum þar sem af honum er sómi.

    Manni finnst svona eins og það ætti í það minnsta að halda þennan kynningarfund, fá öll spilin borðið.
    Fréttatilkynning um málið kom svona þónokkuð flatt upp á mann.

    Að því sögðu þá get ég vel sett mig í spor þeirra sem eru stjórnarmegin við borðið og hafa unnið í þessu máli sem fáir hafa sýnt áhuga fyrr en á þessum tímapunkti. Það kostar þolinmæði.
    En eigum við ekki að sjá hvað kemur út úr þessum kynningarfundi og tala saman. Það liggur varla svo mikið á að skrifa undir samninginn er það?

    Freyr Ingi

    #61891
    Otto Ingi
    Participant

    Flott að það er komin af stað umræða um þetta. Styð það að halda fund um þessi mál, áður en skrifað verður undir samning við FÍ.

    Einn punktur sem mér finnst að sé ekki komin fram. Fyrst við erum að bera Bratta saman við Tindfjallaskálan þá held ég að það sé alveg stór munur á uppsetningu á þessum skálum. Tindfjallaskáli komst fyrir á vörubíl og var keyrður í einu lagi upp í Tindfjöll (endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál, ég var ekki mikið starfandi í ÍSALP á þessum tíma). Bratti er í þrem hlutum og það þarf að flytja hann með snjóbíl á sinn stað.

    Ég held að þetta samstarf með FÍ sem fín lausn. En það má að sjálfsögðu ræða aðrar hugmyndir.

    Helstu hugmyndir sem hafa verið ræddar á stjórnarfundum eru
    1. Fara með allar þrjár einingarnar upp eftir, skálinn í 100% eigu ÍSALP. Við sáum fram á að þetta væri of stórt verkefni fyrir klúbbinn, t.d. peningalega.
    2. Selja eina einingu og fara með tvær einingar upp eftir, skálinn í 100% eigu ÍSALP. Þessi hugmynd var lengi á teikniborðinu.
    3. Fara í samstarf við einhvern annan aðila og fara með allar 3 einingarnar upp eftir. Einhverskonar samstarf um eignarhald og rekstur.

    Það gæti vel verið að fleiri hugmyndir hafi verið ræddar, þetta er svona það sem stendur upp úr hjá mér að minnsta kosti.

    kv.
    Ottó Ingi

    #61893

    Ágúst er lítið betri en júlí í mínu tilfelli, kemst ekki. En það þarf að halda fund og það komast víst aldrei allir.

    Ok, ein einingin var þá aldrei seld eins og rætt var um að gera. Gott að vita.

    – b

    #61895
    Sissi
    Moderator

    Fyrir fundinn væri gott ef stjórn gæti komið helstu lykilstærðum á félagsmenn:

    * Hvert er verðmat á skálanum eins og hann stendur núna?
    * Hvert er verðmat (söluverðmæti) á annarri einingunni ef hún verður seld?
    * Eru áhugasamir kaupendur að henni?
    * Hver er kostnaðaráætlun við að klára skálann, hvernig skiptist hún í efni, vinnu og flutning?
    ** Geri ráð fyrir að þetta sé framlag FÍ
    * Hver er kostnaðaráætlun miðað við sjálfboðavinnu við innréttingar og að sveitir kæmu að flutningi gegn inneign í gistingun, líkt og í Tindfjallaskála?
    * Hvert er verðmat á lóðinni og nýtingu, þ.e. að eiga fjallaskála inni í þekktasta þjóðgarði Íslands, UNESCO World Heritage Site?
    ** Þessi liður þarf að reiknast með verðmati til að sjá hvort verið sé að selja hlutinn á undirverði
    * Af hverju þarf að blanda eignarhlut inn í verðið, er ekki hægt að leysa málið með langtíma leigusamningi við FÍ?
    * Hvaða tryggingu hefur ÍSALP fyrir því að FÍ knýi fram sölu og yfirtaki húsið á einhverjum tímapunkti? Kæmi til greina að ÍSALP ætti 51% hlut ef engin önnur leið er fær en að láta eignarhlut?
    * Hver er sjóður ÍSALP í dag?
    * Hverjar eru árlegar tekjur ÍSALP síðustu 3 árin, per ár?

    Kveðja,
    Sissi

    #61899
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Ég boða hér með til fundar um Bratta í Klifurhúsinu, Ármúla kl. 20 þriðjudaginn 9.ágúst.

    Við munum kynna sögu Bratta, vinnu Brattanefndarinnar og samkomulagið við FÍ.

    #61930
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Minni á fundinnn á morgun kl. 20!

    #61932
    Helgi Egilsson
    Keymaster

    Það verður annar fundur til að fylgja málinu eftir á þriðjudag kl. 20 (16.ágúst).

    #61937
    Sissi
    Moderator

    Athugið að fundinum er frestað um viku til 23. ágúst. https://www.isalp.is/en/news/fundur-2-um-framtid-bratta

    Á síðasta fundi kynnti Helgi tilurð samkomulagsins við FÍ. Ég fór yfir 5 kosti í stöðunni, að klára málið með FÍ, að klára málið með FÍ eða öðrum aðila með breyttu fyrirkomulagi, að félagar myndu kaupa hlutinn, að ÍSALP kláraði dæmið sjálft með 60 fm skála og að ÍSALP kláraði málið sjálft með 36 fm. skála.

    Raunhæfir kostir að mati fundarmanna voru tveir: að fá FÍ til samstarfs við að klára 60 fm hús eða að ÍSALP myndi sjálft klára 36fm hús.

    Stjórn klúbbsins mun keyra á fyrri möguleikann ef það kemur ekki fram hópur með fýsilega tillögu varðandi síðari kostinn, sem er treystandi til að klára málið.

    Þeir sem hefðu hug á að skoða síðari kostinn mættu endilega gefa sig fram fyrir næsta fund.

    Það er mjög mikilvægt að hafa tvo kosti til að skoða, að félagsmenn velji þann sem hentar betur og að breið samstaða sé um málið. Bratti er mestu verðmæti ÍSALP og ég hvet félagsmenn til að kynna sér málið, mynda sér skoðun og mæta á næsta fund, í Klifurhúsinu þriðjudaginn 23. ágúst kl. 20.

    • This reply was modified 8 years, 4 months ago by Sissi.
    #62007
    Kári Hreinsson
    Participant

    Hvernig fór þetta, er komin niðurstaða í málið?

Viewing 23 posts - 1 through 23 (of 23 total)
  • You must be logged in to reply to this topic.