Ævintýri í Óríon

Home Forums Umræður Ís- og alpaklifur Ævintýri í Óríon

  • This topic is empty.
  • Author
    Posts
  • #47620
    Skabbi
    Participant

    Í byrjun janúar síðastliðin fórum við þrír félagar í Óríon í Brynjudal. Aðstæður höfðu verið frekar daprar framanaf vetri og ekki mikið klifrað. Það var því talsvert fagnaðarefni þegar Óríon komst í aðstæður.

    Við tókum daginn snemma eins og lög gera ráð fyrir, lögðum í malarnámunni og gengum inn Flugugil. Blessunarlega lítill snjór var í gilinu og gangan því fljótlegri en oft áður. Þar sem við höfðum nægan tíma ákváðum við að klifra aðkomuhöftin tvö. Þau eru á að giska WI3-3+, ekki mjög löng en ekki mjög stutt heldur. Hægt er að sneiða hjá þeim með því að ganga lengra inneftir Flugugili og þvera svo hlíðina til baka upp í skálina fyrir neðan Óríon sjálfan.

    Félagar mínir skiptu þessum spönnum á milli sín. Einhverra hluta vegna hafði ég skilið höfuðljósið eftir á hjálminum frá síðustu ferð. Stundum leyfi ég því að vera á hjálminum ef útséð er að ég komi til með að klifra í myrkri, þá slepp ég við að brasa við að koma því á hjálminn síðar meir. Hvað um það, þegar ég var hálfnaður upp seinni aðkomuspönnina kræktist línan í höfuðljósið og vippaði því af hjálminum, það small á ísnum fyrir neðan mig og hélt svo sína leið niður í gilbotninn. “Æja, ég fer nú ekki að slaufa klifrinu út af einu skitnu höfuðljósi hugsaði ég” og hélt áfram.

    P1020181-edit.jpg

    Óríon var í gullfallegum aðstæðum þennan dag, vel feitur, svo til snjólaus og engin hengja fyrir ofan. Þegar mikið hefur snjóað í frosti, eða fokið fram af brúninni getur ísinn í Óríon, sem og annarsstaðar, orðið sérstaklega leiðinlegur, brothættur og sundurlaus. Oft myndast líka feiknastór hengja fyrir ofan sem erfitt getur verið að vinna sig í gegnum. En því var ekki að dreifa þennan daginn. Klifrið ætti því ekki að vera erfiðara en gengur og gerist.

    Eftir stutta kaffipásu undir fossinum lagði félagi minn af stað upp neðri spönnina. Hún er á að giska 50 metra löng og vel brött mestalla leið. Eins og oft áður reyndist hún ívið strembnari en vonir stóður til. Það breytti þó engu, upp komst hann stórslysalaust og útbjó stans inni í litlu skúmaskota bakvið aðal kertið. Við hinir fylgdum svo á eftir.

    Þegar upp var komið var farið að draga verulega af öðrum félaganum. Hann hafði lent í ítrekuðum vandræðum með axirnar, fest þær í ísnum og var lengi að losa. Af þeim sökum var hann orðinn þreyttur á sál og líkama og tjáði okkur hinum að hann hyggðist láta staðar numið, skyldi bíða í stansinum á meðan við hinir kláruðum upp á brún. Það var því ákveðið að tveir okkar skyldu klifra upp á brún og síga svo niður sömu leið.

    Ég leiddi efri spönnina og leiddist það ekki. Ísinn var góður en tók að meirna er ofar dró sökum vatnsrennslis. Það skipti þó litlu máli. Fyrir ofan fossinn var talsvert vatn sem myndað hafði lón rétt við brúnina. Ég gerði megintryggingu í ísbunka sem er á að giska 15 metra frá brúninni, enda ísinn næst henni rennandi blautur og óskemmtilegur. Félaginn fylgdi svo á eftir og gekk vel. Þar sem efri spönni er styttri en sú neðri þótti okkur óhætt að gera þræðingu þetta langt frá brúninni. Félaginn seig svo aftur niður í millistansinn. Mér þótti það reyndar merkilegt hversu langan tíma það tók hann að síga en að lokum virtist það þó hafast. Ég klippti mig í línuna og seig af stað. Ætli klukkan hafi ekki verið í kringum 4 þegar ég lagði af stað niður og birtu aðeins farið að bregða. Á leiðinni áttaði ég mig á því hvers vegna hann hafði verið svona lengi. Vatnselgur frá brúninni bunaði nú niður línuna, hrímaði hana og festi víða við ísinn. Ég þurfti að rykkja og toga eins og ég gat til að losa hana í siginu. Þegar ég kom svo niðir í millistansinn losaði ég mig hratt úr línunni og fyrirskipaði að við skyldum drífa okkur í að draga hana niður, ellegar væri hætta á að hún frysi aftur. Við byrjuðum að toga og sem betur fer mjakaðist línan til okkar. Fljótlega stóð þó allt fast og hversu mikið sem við toguðum og djöfluðumst náðum við ekki með nokkru móti að losa hana.

    Sem fyrr sagði hafði höfuðljósið mitt bruggðið sér bæjarleið snemma dags. Þar sem aldimmt var orðið voru félagar mínir komnir með ljósin á hjĺamana og svona til að undirstrika gremju okkar með að festa línuna dofnaði nú annað þeirra og varð að daufri týru.

    Staðan var því þessi. Við vorum þrír í millistansinum í Óríon. Línurnar okkar (2 x 60m halfrope) voru fastar, endarnir sem við höfðum til umráða voru 15 m + 5 m. Niðamyrkur og eitt höfuðljós á okkur þrjá. Þar sem við horfðum upp eftir línunni gat maður næstum séð hrímið byggjast upp utaná henni. Björgunartól voru engin utan þess sem venjulega er hægt að finna á ísklifurrakki, engir júmmarar, shunt, T-blokk eða þess háttar, engar auka línur, bara nokkrir prússikk vöndlar, karabínur, skrúfur, sigtól og Reverso.

    Hvað var til ráða?

    Hvað hefðir þú gert?

    Framhald í næsta þætti…

    Skabbi

    #57170
    2301823299
    Member

    Skemmtileg lesning.

    Hljómar eins og einhver hafi þurft að prússik klifra upp línurnar, búa til nýja v þræðingu við brúnina með prússik í gegn, drífa sig svo aftur í stansinn og draga línurnar strax inn. Hefði líka verið hægt að prófa að rigga upp ekv pull systemi til að reyna að toga línuna inn en hljómar ólíklega miðað við fyrri tilraunir.

    Bíð annars penntur eftir framhaldinu

    #57171
    Steinar Sig.
    Member

    Spennandi. Veðja á að einhver hafi teipað símann sinn með ljósi framan á hjálminn sinn (hef sannreynt að það virkar). Það sem gerir þetta áhugaverðara en flestar jammaðar línur er að eftir því sem þú klifrar lengra upp línuna þeim mun minna af henni er frosin við fossinn og líklegra að hún losni.

    Giska því á að þið hafið fest endann sem þið höfðuð eða sett í tryggingatól. Svo hafi símamaðurinn skellt prússík á línuna og klifrað upp eftir henni á öxunum en gætt sig á að setja inn millitryggingar með reglulegu millibili milli sín og stansins. Þannig hafi sá komist alla leið upp eða nógu langt og dregið línurnar til sín og sigið niður.

    Bíð spenntur eftir framhaldi.

    #57173
    Sissi
    Moderator

    Ok hér eru menn að commenta sem vita greinilega ekkert í sinn haus. Í svona stöðu eru tveir möguleikar.

    1) Alvöru alpinisti væri alltaf með viský í stað te-sulls í kaffibrúsa (viský frýs ekki sjáið þið til). Klára viskýið og sjá svo til.

    2) Ef ekkert viský -> hringja bara strax í 113

    #57175
    Páll Sveinsson
    Participant

    Þetta er spurning um upp, niður eða hringja eftir hjálp.

    Ég veðja á að mesti töffarinn hafi komið sér upp, losað línuna og gengið niður.

    kv.
    P

    #57178
    Steinar Sig.
    Member
    Quote:
    Ég veðja á að mesti töffarinn hafi komið sér upp, losað línuna og gengið niður.

    Og hinir tveir hanga enn.

    #57180
    0909862369
    Member
    Steinar Sigurðsson wrote:
    Quote:
    Og hinir tveir hanga enn.

    Ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að hinir tveir hafa ekki verið nefndir á nafn ennþá?

    #57182
    2109803509
    Member

    Þegar upp var komið var farið að draga verulega af öðrum félaganum.

    svona til að undirstrika gremju okkar með að festa línuna dofnaði nú annað þeirra og varð að daufri týru.

    Hvað hefðir þú gert?

    Takk Skabbi fyrir að taka af skarið og deilda þessari reynslu ári síðar. Ekki síður mikilvægt að heyra af hrakförum heldur en afrekum til að læra af. Svona einfaldir hlutir eins og að vera með batterí í höfuðljósið geta skipt sköpum. Ef félagi minn hefði verið svona þrekaður hefði ég að öllum líkindum fylgt honum niður undir eins í stað þess að láta hann kólna niður í stansinum á meðan tveir klifra upp langa krefjandi spönn og koma sér niður aftur.

    Hlakka til að heyra hvernig þið leystuð þetta.

    #57194
    Skabbi
    Participant

    Annar hluti

    Takk fyrir viðtökurnar gott fólk, gaman að fá smá umræður í gang.

    Áður en ég vendi mér í framhald sögunnar ætla ég að koma nokkrum atriðum á framfæri. Þessi frásögn átti ekki að vera hetjusaga á nokkurn hátt heldur raunsönn lýsing á fokki sem við lentum í en náðum blessunarlega að leysa. Það var enginn sérstaklega töff eða ótöff, menn tóku ákvarðanir, sumar til gagns en nokkrar til ógagns. Ég stóð sjálfur fyrir mestu glappaskotunum, sem er langt frá því að vera töff í svona aðstæðum. Vonandi geta aðrir lært e-ð á þessu, ég gerði það allavega.

    Flestar self-rescue bækur og greinar sem ég hef lesið í gegnum tíðin eiga það sameiginlegt að miðast við klettaklifur og þurrviðri. Þar beita menn allskyns flottum aðferðum til að klifra upp og niður línur til að losa festur. Í mörgum tilfellum eru prússikhnútar notaðar í slíkar tilfæringar enda eiga nokkur prússikbönd að vera staðalbúnaður allra klifrara. Enn sem komið er hef ég ekki rekist á grein sem lýsir því hvernig best sé að eiga við hrímaðar og ísaðar línur. Það kom nefnilega berlega í ljós þegar við ætluðum að beita þessum þekktu aðferðum um línutog og klifrun að prússikhnútar og bönd hafa ekkert hald á ísaðri línu. Allar vangaveltur um að klifra upp línurnar með prússikhnútum eru því gagnslausar í aðstæðum sem þessum. Sama gildir um að setja upp dobblun til að toga í línurnar, það einfaldlega virkaði ekki. Þegar hér var komið sögu voru línurnar farnar að ísast það mikið að meiriháttar vandræði hefðu fylgt því að færa hvaða línutól, T-block eða júmmara eftir línunum.

    Eftir talsverðar bollaleggingar var því orðið ljóst að tveir kostir væru í stöðunni; að skera lengri endann og síga niður á ca. 15 metra stubb og skilja restina eftir, eða klifra upp aftur og losa línuna. Það hefði líklega tekið okkur amk 5 ef ekki 6 sig að komast niður neðri spönnina á stubbnum, auk þess sem við vorum ekkert sérlega spenntir fyrir því að eyðileggja eina línu og skilja hina eftir.

    Það varð því úr að við lögðum hausinn í bleyti til að finna út úr því hvernig hægt væri að komast upp aftur og losa línuna á sæmilega öruggan hátt. Að lokum komum við niður á eftirfarandi aðferð: Reverso í autoblock mode var fest í belay lykkjuna á þeim sem skyldi klifra. Tólið er því í raun á hvolfi þannig að það læsist ef klifrarinn sest í línuna en hægt er að toga línu í gegnum það ef engin þyngd er á því. Þar sem ég hafði sett upp akkerið sem varð til þess línan fraus föst tók ég þetta hlutverk að mér. Til verksins fékk ég eina höfuljósið sem ennþá virkaði.

    Fyrstu metrarnir gengu þokkalega, ég gat klifrað ca tvo metra í einu, stoppað og strákarnir togað línu í gegnum reversóið. Eftir því sem ofar dró jókst ísingin á línunni þannig að erfiðara var að ná henni í gegnum tólið. Þá var líka farið að verða verulega óþægilegt að láta toga í sig neðanfrá. Ég settist því í línuna og notaði axirnar til að skafa ísinn af línunni eins langt frá mér og ég náði. Síðan klifraði ég lengra, stoppaði og togaði sjálfur línuna í gegn. Nokkrum sinnum á leiðinni setti ég inn skrúfu til að setjast í á meðan ég vann ísinn af línunni, tók hana svo aftur úr þegar ég hélt áfram. Það þarf varla að taka það fram að þessi aðferð tók óratíma. Efst í spönninni var línan hreinlega komin á kaf í ísinn þannig að það var ljóst að við hefðum aldrei átt minnsta möguleika á því að losa hana neðanfrá. Línan hafði brotið skarð í barminn á lóninu efst þannig að vatn flæddi beint niður hana með fyrrgreindum afleiðingum.

    P1020204-edit.jpg

    Þegar upp var komið losaði ég línuna úr þræðingunni og leitaði að hentugri stað nær brúninni. Ómögulegt var að útbúa þræðingu, ísinn til hliðar við lónið var of þunnur, þannig að ég endaði með því að skilja eftir skrúfu og karabínu ofaní lóninu. Þegar ég seig aftur niður reyndi ég að koma í veg fyrir að línan legðist á brúnina eins og fyrra siginu. Svo dreif ég mig niður í stansinn til strákanna.

    Blessunarlega gátum við nú dregið línuna til okkar og komist niður. Allir vorum við orðnir svangir og þreyttir, ég af púli, strákarnir á því að norpa í stansinum í fleiri klukkutíma.

    Seinni sigin gengu vel þrátt fyrir allt og gangan út Flugugil líka. Ég fann meirað segja höfuðljósið mitt aftur fyrir neðan fyrsta aðkomuhaftið.

    Lærdómur:

    Aldrei að vanmeta nauðsyn þess að vera með höfuðljós í svona klifri, og auka batterí. Að sjálfsögðu hefði ég átt að taka mér smástund í að síga eftir ljósinu þegar ég missti það. Í þessu tilviki hefði ég líklega náð að hlaupa uppfyrir neðstu höftin og hitta strákan fyrir neðan aðalfossinn. Maður hefur komist upp með svona heimskupör áður og verður værukær.

    Þegar tveir okkar klifruðu efri spönnina í Óríon skildum við einn eftir í stansinum. Það var ekki sérstaklega skynsamlegt. Ef við hefðum lent í vandræðum í þeirri spönn eða uppi á brún hefði hann getað verið fastur í stansinum með enga línu.

    Staðsetningin á toppakkerinu var út úr kortinu í þessu tilfelli. Þegar rennslið og bleytan á toppnum var með þessu móti er fullkomið rugl að hafa akkerið svona langt frá brúninni. Ég hefði átt að sjá það þegar fyrri maðurinn seig niður í stans, og færa akkerið. Aftur eru þetta heimskupör sem maður hefur gert áður og sloppið með það.

    Sjálfsbjörgun á ísuðum línum er tómt vesen. Ég veit ekki hvort við duttum niður á bestu aðferðina, eða góða aðferð yfir höfuð, en hún virkaði allavega fyrir rest. Ég er enn ekki viss um að til góð lausn í svona stöðu en það borgar sig allavega að hugsa út í svona hluti.

    Eitthvað fleira?

    Takk fyrir að lesa

    Skabbi

    #57202
    Páll Sveinsson
    Participant

    Félagar okkar í Eyjafjöllum í dag hefðu haft gagn af að lesa þessa grein í gær en ekki í dag.

    kv.
    P

    #57204
    1108755689
    Member

    Góð lesning. Góð skilaboð. Góður penni.

    #57206
    gulli
    Participant

    Voru ævintýri í Eyjafjöllum?

    #57217
    Robbi
    Participant

    Ætli Freysi verði ekki að svara því…ég held að annar góður lærdómur sé að ef það er möguleiki á því að ganga niður þá sé það betri kostur. Það er mjög auðvelt að ganga niður úr Orion, sem og Paradísarheimt og fljótlegra. Sérstaklega þegar um 3 klifrara er að ræða. Takk fyrir góða sögu

    Robbi

    #57238

    Takk fyrir að deila sögunni Skabbi. Mér finnst þetta vera mjög vel leyst, sem sagt að nota reveso á guide-mode. Ýmsir punktar í þessari frásögn sem menn geta lært af.

    Það er nú þannig að flest óhöpp og vesen verða við sig frekar en klifrið sjálft. Svo ég held að það sé einmitt góður punktur að labba niður frekar en að síga ef það er á annað borð mögulegt.

    #57240
    0304724629
    Member

    Þetta er skemmtileg og gagnleg frásögn Skabbi. Ég hef það fyrir reglu (af biturri reynslu…) að láta þann sem sígur niður fyrst, prófa að tosa og sjá hvort allt renni ekki vel í gegnum þræðinguna. Stundum er mikil tregða og þá er hægt að laga ankerið til áður en síðasti maður sígur. Lenti einu sinni í því að festa línu á Óshlíðinni í kósí klifri að kvöldi til. Við nenntum ekki að ná henni niður. Voru orðnir seinir í eitthvað gill. Komum daginn eftir og jeremías, klakabunkarnir voru svakalegir og línan afskrifuð.

Viewing 15 posts - 1 through 15 (of 15 total)
  • You must be logged in to reply to this topic.