Home › Forums › Umræður › Ís- og alpaklifur › Ísfestivalsflopp › Re: Re: Ísfestivalsflopp
Gott kvöld
Aðstæður til ísklifurs hafa ekki verið sérlega góðar undanfarnar vikur. Það var lagt upp með að halda ísfestival á Bíldudal, en aðrir staðir til vara. Hinsvegar hafa Vestfirðir verið eini raunhæfi möguleikinn síðustu vikur.
Við höfum verið í reglulegu sambandi við nokkra aðila á Vestfjörðum undanfarnar vikur til að kanna aðstæður fyrir ísfestival. Allar fréttir sem við höfum haft frá þessum aðilum hafa verið fremur daprar hvað varðar ís aðstæður.
Þó svo að hægt hafi verið að klifra á svæðinu þá hefur það varla verið á færi nema mjög góðra klifrara. En ísfestival þarf einmitt að vera á stað og í aðstæðum þar sem flestir ísklifrarar Isalp geta fundið eitthvað við sitt hæfi til þess að margir mæti og hafi gaman.
Það er talsvert langt og kostnaðarsamt að keyra alla leiðina á Isafjörð. Það langar engann að vera sá sem stefnir öllum vinum sínum þangað í fýluferð. En það er mjög auðvelt að gagnrýna slíka ákvörðun eftir á!
Sumum hentar vel að mæta á festival með stuttum fyrirvara, öðrum hentar betur að hafa langan fyrirvara. Það virðist þó vera að fleiri séu hlynntir því að ákveða dagsetningu og standa við hana hvað sem tautar og raular. Stjórnin tekur það auðvitað til greina. Það er ekki komið sumar enn og við höfum fullan hug á að halda festival með þessar forsendur að leiðarljósi.
Við biðjum ykkur kæru félagar að vera jákvæð og gera hlutina með okkur.
Munum að þetta er klúbburinn okkar allra, það erum við öll sem sköpum starfið og stemminguna!
Stjórnin