Uppfært 19.06:
ATH breytt plön! Dótaklifurkynningin færð upp í Stardal!
Þar sem veðrið ætlar ekki að gefa okkur neinn afslátt um helgina, og spáin lofar rigningu og roki báða dagana, ætlum við að breyta dótaklifurkynningunni. Á morgun (20. júní) verður hins vegar rjómablíða, svo í stað þess að húka inni eina góða kvöld vikunnar, ætlum við að halda upp í Stardal eftir vinnu. Sá dagur verður því líkari Stardalsdeginum í sniðum, en þó ætlum við að hafa létta kynningu þar á búnaðinum og tækni.
Eins og áður segir, er öllum velkomið að mæta, og erum við í raun bara að sameina dótaklifurkynninguna og Stardalsdaginn.
Brottför verður frá Skeljungi við Grjótháls/Vesturlandsvegi klukkan 17:30, en þó er velkomið að mæta upp í Stardal þegar fólki hentar.
———————
Nú er vel liðið á sumarið, og víða farið að sjást til skrumara að spóka sig á klettaklifursvæðum landsins. Af því leiðir að Stardalsdagurinn nálgast óðfluga, og ætlar ÍSALP, líkt og fyrri ár að halda daginn hátíðlegan, þó í þetta sinn í samvinnu við Klifurfélag Reykjavíkur.
Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er Stardalsdagurinn árlegur viðburður þar sem dótaklifurtröll fjölmenna í klifur í Stardal. Stardalur er án efa eitt glæsilegasta dótaklifursvæði landsins, með 88 skráðar klifurleiðir frá 5.2 upp í 5.11b, og ekki þykir verra að klifursvæðið er í einungis 15 mínútna fjarlægð frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.
Dagurinn verður haldinn þann 23. júní (með 24. júní til vara ef veður ætlar í hart), en hann verður með ögn breyttu móti í ár, þar sem ÍSALP ætlar með aðstoð Klifurfélags Reykjavíkur að halda kynningu á dótaklifri (e. Traditional climbing) áður.
Brottför verður svo í Stardal þann 23. júní klukkan 10:00 frá Skeljungi við Vesurlandsveg/Grjótháls (en þið megið auðvitað mæta hvenær sem er í dalinn og fara þegar ykkur listir). Fólk er að sjálfsögðu á eigin vegum og ábyrgð, og því mælum við eindregið með að þið verðið ykkur sjálf úti um klifurfélaga og búnað. Athugið að það verður ekki kennsla í Stardal, heldur erum við einfaldlega að fjölmenna í dalinn, og því er best að fólk hafi einhverja lágmarks reynslu af klifri í línu (t.d. sportklifri).
Hægt er að fylgjast betur með viðburðunum á facebook:
https://www.facebook.com/events/1819452701449626/
https://www.facebook.com/events/2086322648315366/