Nú er loksins komið að myndinni sem allir hafa beðið eftir!
Myndin Free Solo fjallar um Alex Honnold, afrek hans að verða fyrstur til að einfara hinn heimsfræga vegg El Capitan og undirbúninginn sem hann þurfti að ganga í gegnum til að láta þennan draum sinn verða að veruleika.
Nýjustu fregnir herma að líkamsleifar Ísalp félagana Kristinns Rúnarssonar og Þorsteins Guðjónssonar eru komnar til byggða í Nepal.
Kristinn og Þorsteinn fundust í um 5.500 m hæð í hlíðum fjallsins Pumo Ri eftir að hafa horfið þar árið 1988.
Leifur Örn Svavarsson var hæðaraðlagaður eftir tvær gönguferðir í grunnbúðir Everest og bauð hann fram aðstoð sína við að kanna möguleika á því að koma líkamsleifum Kristinns og Þorsteins niður af fjallinu.
Þetta tókst og nú eru líkamsleifarnar í rannsókn hjá Nepölskum yfirvöldum áður en að hægt er að senda þær til Íslands.
Ísalp vill einnig benda á styrktarreikning sem hefur verið stofnaður á nafni sonar Kristinns. Reikningurinn er til þess að styrkja leiðangurinn til Nepal og annan kostnað sem hlýst af því að koma Kristni og Þorsteini til Íslands aftur.
Nýjar upplýsingar herma að leiðangur upp á fjallið Pumo Ri í Nepal hafi fundið líkamsleifar tveggja félaga Ísalp núna í síðustu viku.
Sennilegast er um að ræða Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson sem að fóru í leiðangur á fjallið í október 1988.
Þeir frumfóru leið upp suðvesturvegg fjallsins og sá ástralskt teymi til þeirra við toppinn. Eitthvað kom fyrir á niðurleiðinni og ekkert hefur til þeirra spurst í rúm 30 ár, fyrr en nú.
Beðið er eftir nánari upplýsingum frá Nepal að svo stöddu.
Kristinn og Þorsteinn voru öflugir í stafi klúbbsins. Þeir frumfóru nýjar leiðir út um allt land ásamt öðrum meðlimum klúbbsins. Þeir sátu báðir í ritnefnd klúbbsins og voru hluti þess teymis sem gerði ársrit Ísalp að því sem þau eru í dag.
Nú er komið að árlegu ljósmyndakeppni Ísalp, og erum við að vanda að leita að myndum í þrjá flokka, Klifur, Skíði og Mannlíf á fjöllum. Öllum er velkomið að taka þátt, dregnir verða út sigurvegarar í hverjum flokki og mun besta myndin príða forsíðu ársrits Ísalp 2018.
Myndin þarf að vera tekin eftir útgáfu seinasta ársrits (desember 2017), allir mega senda myndir í alla þrjá flokkana, en þó má hver mynd einungis taka þátt í einum flokki.
Allar myndir þurfa að berast á stjorn@isalp.is fyrir 2. nóvember!
Einnig erum við enn að leita að greinum og pistlum í ársritið, svo ef þú ert með hugmynd að góðu efni í ársritið og langar að deila með okkur, máttu endilega senda póst á stjorn@isalp.is.
Þann 30. október næstkomandi mun Íslenski Alpaklúbburinn sýna stór-klifurmyndina The Dawn Wall í Bíó Paradís klukkan 20:00.
The Dawn Wall er mynd sem klifurheimurinn hefur beðið spenntur eftir í yfir 3 ár, en hún fjallar um eitt af stærri afrekum klifurheimsins, þegar þeir Tommy Caldwell og Kevin Jorgeson fríklifruðu Dawn Wall vegginn á El Capitan í Yosemite, klifur sem áður þótti óhugsandi.
Þeir Tommy og Kevin toppuðu vegginn í janúar 2015, en aðdragandi áfangans var áralangur ásetningur, vinna og þrautseigju, í bland við hina ýmsu tilfinningalegu tálma í persónulífi Tommys, sem að lokum reyndust á sinn hátt hvati til þess að fríklifra Dawn Wall.
Miðverð á sýninguna
Meðlimir Ísalp: 1500kr
Aðrir: 2000kr
Í gær var aðalfundur ÍSLAP, fundargerðina er að finna í valmyndinni hér að ofan undir „Ísalp“ – „Um Ísalp“ – „Fundargerðir“. Skrýslu stjórnar fyrir síðasta starfsár má finnu á sama stað.
Fráfarandi stjórnarmenn eru
Helgi Egilsson sem hefur verið í stjórn í 8 (4 ár sem gjaldkeri og 4 ár sem formaður).
Bjartur Týr Ólafsson sem hefur verið í stjórn í 3 ár.
Við þökkum þeim báðum kærlega gott starf undanfarin ár.
Í stjórn sitja þá:
Jónas G. Sigurðsson (formaður)
Ottó Ingi Þórisson
Baldur Þór Davíðsson
Védís Ólafsdóttir
Sif Pétursdóttir
Sigurður Ýmir Richter
Matteo Meucci
Ný stjórn mun koma saman við fyrsta tækifæri og undirbúa spennandi dagskrá fyrir veturinn.
Bjórkvöld verður haldið á BarAnanas, laugardaginn 22.sept. Ætlunin er að peppa hópinn saman, skiptast á hetjusögum og hugmyndum að dagskrá fyrir veturinn. Skrúfað verður frá krananum kl. 21 og klúbburinn býður upp á bjór á meðan birgðir endast. Fyrstir koma fyrstir fá.
Hlökkum til að sjá sem flesta!
Aðalfundur Íslenska Alpaklúbbsins 2018 verður haldinn á efri hæð Klifurhússins að Ármúla 23, miðvikudaginn 26. september kl. 20:00.
Dagskrá fundarins er skv. lögum félagsins:
Kosning fundarstjóra sem síðan skipar fundarritara.
Skýrsla stjórnar.
Ársreikningar lagðir fram til samþykktar, undirritaðir af tveimur skoðunarmönnum.
Lagabreytingar.
Kjör formanns Ísalp og meðstjórnenda.
Kjör uppstillingarnefndar.
Kjör tveggja skoðunarmanna ársreikninga.
Ákvörðun árgjalds næsta árs.
Önnur mál.
Atkvæðisbær og kjörgeng eru þau ein sem greitt hafa árgjald síðastliðins árs fyrir upphaf aðalfundar.
Framboð skulu hafa borist fyrir 19. september en einnig er heimilt að bjóða sig fram í lausar stöður ef einhverjar eru á aðalfundi.
Helgi Egilsson formaður, Ottó Ingi Þórisson meðstjórnandi, Bjartur Týr Ólafsson meðstjórnandi, Jónas Grétar Sigurðsson meðstjórnandi og Baldur Þór Davíðsson meðstjórnandi eru allir að láta af hendi sínar stöður, og því mörg sæti í boði í stjórn fyrir áhugasama.
Allar tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn (stjorn@isalp.is) fyrir 19. september.
Eins og mörgum er kunnugt er Íslenski alpaklúbburinn í samstarfi við alpaklúbbana í Slóveníu og Ungverjalandi. Þeir sem tóku þátt í þetta skiptið fyrir Íslands hönd voru: Árni Stefán Halldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Esther Jónsdóttir, Helga Frímann, Jónas G. Sigurðsson, Ottó Ingi Þórisson, Sif Pétursdóttir og Védís Ólafsdóttir.
Núna í mars síðastliðnum fór íslenskur hópur til Slóveníu í fjallaskíðaferð og núna í ágúst var íslenskur hópur í Ungverjalandi og Slóvakíu að stunda klifur.
Í mars 2019 tekur Ísalp svo á móti hópum frá Slóveníu og Ungverjalandi og sýnum þeim hvað Norðurland hefur upp á að bjóða af brekkum og fossum.
Annar hluti samstarfsins hófst í Vysoké Tatry eða hærri Tatrasfjöllunum í Slóvakíu. Þar varði hópurinn þrem heilum dögum. Þar var farið í fjölspanna klifur, ýmist með eða án bolta, grjótglímu, gönguferðir og einhverjir fóru jafnvel út að hlaupa. Lesa meira →
Um þessar mundir eru 10 ár síðan Tindfjallaskáli var sóttur til Reykjavíkur og tekinn í allsherjar uppgerð, sem stóð yfir í eitt ár og viku.
Úr frétt MBL: „Skálinn á sér merkilega sögu og var reistur á fimmta áratugnum af félagsskap sem nefndist Fjallamenn en þar var fremstur í flokki Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Félagsskapurinn lagðist af en í framhaldinu tók Alpaklúbburinn sem stofnaður var 1977 við skálanum. Í vetur sem leið fóru fram miklar umræður meðal klúbbfélaga um ástand skálans og framtíð hans. Varð niðurstaðan sú að gera hann upp og hefur mikilvægum áfanga verið náð á þeirri braut með því að koma honum niður á láglendið.“
Í haust er fyrirhugað að setja nýja kamínu í skálann og klára nokkur almenn viðhaldsverkefni. Húsið er í frábæru standi eftir árin tíu enda var vandað mikið til verka í uppgerðinni.
ATH breytt plön! Dótaklifurkynningin færð upp í Stardal!
Þar sem veðrið ætlar ekki að gefa okkur neinn afslátt um helgina, og spáin lofar rigningu og roki báða dagana, ætlum við að breyta dótaklifurkynningunni. Á morgun (20. júní) verður hins vegar rjómablíða, svo í stað þess að húka inni eina góða kvöld vikunnar, ætlum við að halda upp í Stardal eftir vinnu. Sá dagur verður því líkari Stardalsdeginum í sniðum, en þó ætlum við að hafa létta kynningu þar á búnaðinum og tækni.
Eins og áður segir, er öllum velkomið að mæta, og erum við í raun bara að sameina dótaklifurkynninguna og Stardalsdaginn.
Brottför verður frá Skeljungi við Grjótháls/Vesturlandsvegi klukkan 17:30, en þó er velkomið að mæta upp í Stardal þegar fólki hentar.
———————
Nú er vel liðið á sumarið, og víða farið að sjást til skrumara að spóka sig á klettaklifursvæðum landsins. Af því leiðir að Stardalsdagurinn nálgast óðfluga, og ætlar ÍSALP, líkt og fyrri ár að halda daginn hátíðlegan, þó í þetta sinn í samvinnu við Klifurfélag Reykjavíkur.
Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er Stardalsdagurinn árlegur viðburður þar sem dótaklifurtröll fjölmenna í klifur í Stardal. Stardalur er án efa eitt glæsilegasta dótaklifursvæði landsins, með 88 skráðar klifurleiðir frá 5.2 upp í 5.11b, og ekki þykir verra að klifursvæðið er í einungis 15 mínútna fjarlægð frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.
Dagurinn verður haldinn þann 23. júní (með 24. júní til vara ef veður ætlar í hart), en hann verður með ögn breyttu móti í ár, þar sem ÍSALP ætlar með aðstoð Klifurfélags Reykjavíkur að halda kynningu á dótaklifri (e. Traditional climbing) áður.
Brottför verður svo í Stardal þann 23. júní klukkan 10:00 frá Skeljungi við Vesurlandsveg/Grjótháls (en þið megið auðvitað mæta hvenær sem er í dalinn og fara þegar ykkur listir). Fólk er að sjálfsögðu á eigin vegum og ábyrgð, og því mælum við eindregið með að þið verðið ykkur sjálf úti um klifurfélaga og búnað. Athugið að það verður ekki kennsla í Stardal, heldur erum við einfaldlega að fjölmenna í dalinn, og því er best að fólk hafi einhverja lágmarks reynslu af klifri í línu (t.d. sportklifri).
Hægt er að fylgjast betur með viðburðunum á facebook:
Nú er komið að kvikmyndarviðburði ársins þegar Íslenski Alpaklúbburinn heldur Banff hátiðina hátíðlega í Bíó Paradís, þriðjudaginn 15. maí og fimmtudaginn 17. maí. Að þessu sinni sjá Íslenskir Fjallaleiðsögumenn og GG sport um að gera þessa hátíð mögulega fyrir okkur.
Að vanda er af nægu að taka og ættu flestir útivistar- og jaðarsports iðkendur og áhugamenn að finna eitthvað við sitt hæfi. Klettaklifur, ísklifur, skíði, parkour, straumvatnskajak, paragliding, alpinismi og fleira.
Sjá nánari upplýsingar um sýningar og miðasölu eru á isalp.is/banff
Nú þarf að fara að huga að næsta ársriti, og vantar okkur snillinga til að hjálpa til við að vinna að útgáfu þess.
Það verður enginn hægðarleikur að taka við keflinu af Þorsteini og félögum eftir seinustu ársrit, enda með eindæmum vel gerð. Auðvitað var seinasta ársrit með veglegra móti, afmælistritið, svo við stefnum á að hafa ársritið 2017-2018 léttara og straumlínulagaðra, en það er engu að síður mikilvægur þáttur í starfi Íslenska Alpaklúbbsins fyrir seinasta árið.
Okkur vantar því öfluga meðlimi sem eru tilbúnir að aðstoða við útgáfu næsta ársrits (öll aðstoð er vel þegin). Við erum ekki að leita að greinahöfundum eins og er (þó svo að við tökum vel á móti öllum krassandi sögum, greinum og myndum), heldur vantar okkur fólk til að þefa uppi og veiða greinar upp úr fólki, og fylgja eftir öllu sem gera þarf til að ársritið líti dagsins ljós.
Ef þú hefur áhuga að vera með í ritnefnd ársritsins í ár, máttu endilega senda póst á stjorn@isalp.is.
Íslenski Alpaklúbburinn óskar eftir umsækjendum til þátttöku í klifurferð til Ungverjalands 4.-13.ágúst. Ferðin er hluti af Erasmus menningarsamstarfi ÍSALP og vinafélaga í Slóveníu og Ungverjalandi.
Ferðin skiptist í tvo hluta: Annars vegar klifurferð í þjóðgarðinum High Tatras í Slóvakíu 4.-7.ágúst sem er ekki formlegur hluti af prógramminu. Þátttakendur bera sjálfir kostnaðinn af þátttöku í þessum hluta þar sem í boði verður allt frá grjótglímu og upp í fjölspanna leiðir í graníti. Hópurinn ferðast sameiginlega frá Búdapest. Þessi hluti ferðarinnar er valkvæður.
Seinni hlutinn er 7.-13.ágúst í Aggtelek í Ungverjalandi, sem er nálægt Búdapest. Þar fer fram fjögurra daga klifurkeppni/-festival (https://www.facebook.com/aggtelekkupa/) sem þátttakendur geta tekið þátt í, en eru ekki skildugir til. Á svæðinu eru fjölmargar sportklifurleiðir í kalksteini, en auk þess verður boðið upp á fjölbreytt fjallaprógram, fjallahlaup, og fjallahjól eftir vilja hópsins.
Þátttakendur fá ferðastyrk upp á 500 evrur og auk þess fría gistingu og uppihald í 6 nætur, frá 7.-13. ágúst.
Alpaklúbburinn stefnir á að senda 8 meðlimi út.
Umsóknir berist stjórn ÍSALP (stjorn hjá isalp.is) fyrir 18:00 26.apríl. Í umsókn þarf að koma fram klifurreynsla umsækjenda (grjótglíma, sport, trad…), framlag til klúbbsins og rökstuðningur fyrir því hvers vegna umsækjandinn ætti að verða fyrir valinu!
Stjórn mun meta umsækjendur á grunni framlags til klúbbsins, klifurhæfni, félagslegrar hæfni og hvort viðkomandi hefur nýlega fengið styrk frá klúbbnum; en mun sömuleiðis leitast við að senda fjölbreyttan hóp út.
Við munum tilkynna niðurstöðu eins fljótt og hægt er eftir að umsóknarfrestur rennur út.
Albert Leichtfried og Benedikt Purner eru staddir á landinu eins og margir hafa eflaust tekið eftir sem fylgjast með hér á síðunni. Þeir hafa heldur betur verið uppteknir við ís og mixklifur síðustu daga en ætla núna að halda myndasýningu og fyrirlestur.
Viðburðurinn er haldinn á Center Hotel Plaza á Aðalstræti 4. 15. febrúar
Á sýnt verður frá:
Ferð þeirra til landsins árið 2016 þegar þeir klifruðu fyrstu WI 7 á landinu.
Ferðinni sem þeir eru núna að klára þar sem meðal annars frumfóru tveggja spanna M10 í Ásbyrgi.
Ísklifurferð til Noregs árið 2017
Fjallahjólakeppnum í Austurríki.
ÍSALP hefur verið boðin þátttaka í menningarsamstarfi þriggja landa; Íslands, Slóveníu og Ungverjalands og gefst klúbbnum færi á að senda sjö félaga í viku skíðaferð til Júlísku Alpanna í Slóveníu dagana 18.-24.mars þátttakendum að kostnaðarlausu.
Þema ferðarinnar er „Öryggi í vetrarfjallamennsku“ og verður megináhersla lögð á fjallaskíði.
Alpaklúbburinn óskar hér með eftir þátttakendum til fararinnar.
Kröfur til umsækjenda eru eftirfarandi:
1) Þátttakendur verða að vera meðlimir í ÍSALP
2) Þátttakendur þurfa að hafa reynslu á fjallaskíðum. Þeir þurfa að vera öruggir skíðamenn/-konur og eiga sinn eigin fjallaskíðabúnað
3) Þátttakendur þurfa að hafa þekkingu á snjóflóðahættu og viðbrögðum við snjóflóðum. Þeir þurfa að kunna að nota snjóflóðaþrennu (ýli, skóflu og stöng) og eiga sinn eigin búnað.
4) Þátttakendur þurfa að hafa áhuga á mannlegum samskiptum og geta tekið þátt í hópastarfi, umræðum á ensku og verið klúbbnum til sóma.
5) Þátttakendur skuldbinda sig til að aðstoða við móttöku fjallafólks frá Slóveníu og Ungverjalandi þegar Alpaklúbburinn verður gestgjafi í viðlíka viðburði, vorið 2019.
Verkefnið er styrkt af Erasmus+.
Umsóknir sendist á stjorn@isalp.is með eins miklum upplýsingum um umsækjendur eins og þurfa þykir með hliðsjón af liðunum 5 hér að ofan. Umsóknarfrestur er til miðnættis 15.janúar. Stjórn klúbbsins velur úr hópi umsækjenda út frá hæfni og framlagi til klúbbsins og tilkynnir niðurstöður eins fljótt og hægt er eftir að frestur rennur út.
Laugardaginn 16. desember var útgáfupartý fyrir ársrit þessa árs haldið. Glæsilegt afmælisársrit kom með jólin snemma til félagsmanna að þessu sinni. Í þessu nýja ársriti er að finna margar skemmtilegar greinar, annál sem listar flest allt sem gerðist í fjallamennsku á síðasta ári og svo glóðvolgan leiðarvísi af Múlafjalli.
Leiðarvísirinn inniheldur heilar 69 leiðir og var í vinnslu alveg fram á síðustu mínútu áður en ársritið fór í prentun.
Nú er þessi leiðarvísir aðgengilegur hér á síðunni, ásamt því að leiðaskráningin undir Múlafjalli hefur verið uppfærð.
Leiðarvísinn má finna á slóðinni: https://www.isalp.is/leidarvisar og er þar í flokknum aðrir leiðarvísar – Ís, mix og alpaklifur.
Eilífsdalur fékk sína fyrstu heimsókn á þessum vetri á laugardag en þar voru á ferðinni Gabriel og Eyþór sem heimsóttu Einfarann.
Sunnudaginn nýttu þeir einning en þá inni í Brynjudal. Ísleiðirnar framarlega í Flugugili reyndust þunnar og ekki beint tilbúnar svo að stefnan var þá tekin innar í dalinn og þar urðu fyrir valinu leiðirnar vestast í Skógræktinni. Samkvæmt leiðarvísi voru þar klifnar leiðir B1 sem ber nafnið „Árnaleið“ og annað nokkuð þétt ísþil sem þyrfti nú að merkja inn í annars metnaðarfullan leiðarvísi um Brynjudal. Snati var orðinn síður en samt ekki að ná jarðtengingu. Þyrfti fleiri góða daga til þess.
Þrándarstaðafossar voru stórir en ekki alveg lokaðir enda vatnsmiklir.
Veislan fer fram í húsnæði Arms ehf, Skeifunni 5 (við hliðina á Vínbúðinni!).
Húsið opnar klukkan 19 með fordrykk og borðhald hefst klukkan 20. Boðið verður upp á vín, bjór og óáfenga drykki en öllum er frjálst að mæta með sitt eigið.
Matseðillinn er ekki af verri endanum:
Heilgrillað Lambalæri og Grilluð Kalkúnabringa frá Grillvagninum
• Osta-Gratínkartöflur / Bakaðar kartöflur.
• Ferskt salat m/Feta.
• Léttristað grænmeti.
• Maísbaunir.
• Hunangssinnepssósa.
• Rauðvíns eða Púrtvínssósa.