Dry-tool reglur Klifurhússins

ÍSALP-arar geta klifrað á ísöxum í Klifurhúsinu og hafa gert það í mörg ár. Nú er loks búið að negla niður reglur um hvenær megi klifra, hverjir eigi forgang í leiðir, hvaða útbúnaðar sé krafist o.s.frv. Reglurnar eru hér að neðan.  Við biðjum félagsmenn að fylgja þessum reglum.

Hinar heilögu BÍS reglur Klifurhússins

1. BÍSklifur er leyfilegt á eftirfarandi tímum:

  o Mánudagar 21:30 – 23:00

  o Miðvikudagar 21:00 -23:00

o Alla virka daga frá 12:45-13:30

2. Til þess að hægt sé að klifra eftir 22:00 (hefðbundinn opnunartíma) þarf að vera ábyrgðarmaður í hópnum.

o Ábygðarmaður þarf að vera samþykktur af framkvæmdastjóra og listi yfir ábyrgðarmenn er á skrá hjá vaktmanni.

o Vaktmaður gengur úr skugga um að ábyrgðarmaður sé á staðnum og skráir ábyrgðamann hverju sinni.

3. BÍSklifur er afmarkað við hellasvæði og klifurvegginn vinstra megin við leiðsluklifurvegginn.

o Engar bísleiðir annars staðar, til að lágmarka snertifleti milli klifrara og bísklifrara

4. Bísklifrarar verða alltaf með mottu undir þegar þeir klifra, til að vernda dýnuna.

5. Mikilvægt er að hafa í huga að þó að það sé skilgreindur tími fyrir BÍSklifur þá þýðir það ekki að BÍS hafi forgang. Hér gildir sama regla og áður, klifrari bíður þar til komið er að honum/henni að klifra.

o Aftur á móti, skyldi vera sérstaklega fjölmennt í Klifurhúsinu, fá klifrarar forgang.

BÍS mót (Dry-tool) á morgun, laugardaginn 24.okt

Mynd: Guðlaugur Ingi Þórisson
Mynd: Guðlaugur Ingi Þórisson

Marga er farið að klæja í fingurna eftir að grípa almennilega í axirnar enda farið að kólna í veðri. Því verður haldið fyrsta fyrsta BÍS mót vetrarins laugardaginn 24. október kl. 18 í Klifurhúsinu, Ármúla. Fullt af leiðum verða settar upp og eru allir hvattir til þess að taka þátt og vera með. Eftir klifrið verður dreypt á öli og hetjusögur sagðar frá síðasta vetri.

Búnaðarbasar í kvöld!

GrandBazaar-1
Frægasti basar í heimi (Gran bazaar í Istanbúl)

Í kvöld, fimmtudaginn 22 október kl. 20 verður hinn árlegi Búnaðarbasar Ísalp haldinn í húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar við Reykjavík. Nú er tækifærið til að gera góð kaup – eða selja útivistarbúnaðinn sem þú hefur aldrei notað! Seljendum er bent á að mæta hálftíma fyrr og stilla upp tímanlega fyrir opnun. Allir velkomnir, ekki missa af þessu og muna að koma með reiðufé. Látið orðið ganga!

Háfjallaskíði – myndasýning Halla Kristins

Halli Kristins í fullum skrúða

Á miðvikudaginn í næstu viku, 21.október. Mun Hallgrímur Kristinsson halda myndasýningu fyrir Ísalpara og aðra gesti. Hallgrimur Kristinsson hélt í júní á fjallið Muztagh Ata í Kína (7.600 m) og dvaldi þar í mánuð. Það sem meira er: Hallgrímur (Halli) reyndi að toppa fjallið á fjallaskíðum. Í ferðinni skíðaði hann hærra en nokkur annar Íslendingur.  Miðvikudaginn næsta mun hann bjóða félögum ÍSALP og öðrum upp á stórskemmtilega og fróðlega frásögn með flottum myndböndum af þessari frábæru ferð. Allir að mæta!

Uppfært: Myndasýningin tókst afar vel. Rúmlega 30 manns mættu og smituðust af ævintýraanda Hallgríms.

 

Ný heimasíða komin í loftið!

 

ÍSALP
Stardalsdagurinn 2013

(Leiðbeiningar neðst)

Um nokkurt skeið hafa heimasíðumál klúbbsins verið í lamasessi og var það fyrsta verkefni nýrrar stjórnar, þegar hún tók við í febrúar 2015, að ráða bót á þeim. Við lögðum upp með nokkur markmið:

Í fyrsta lagi langaði okkur að koma upp rafrænum gagnagrunni um ís- og alpaklifurleiðir á Íslandi, enda er það eitt af hlutverkum Alpaklúbbsins að halda utan um og varðveita sögu fjallamennsku á Íslandi. Í stað þess að finna upp hjólið var valin sú farsæla lausn að byggja síðu í samstarfi við Klifur.is, en þar má nú þegar finna leiðarvísi um klettaklifur á Íslandi. Nú þegar hafa tæplega 400 leiðir verið skráðar í gagnagrunn ÍSALP og ljóst að aðgengi að leiðaupplýsingum er orðið betra en nokkru sinni fyrr. Nú er einnig komið haldreipi fyrir ráðvillta erlenda klifrara sem eiga í vandræðum með að hafa upp á ársriti Alpaklúbbsins frá 1988 til að skoða leiðaúrvalið í Skarðsheiði o.s.frv.

Í öðru lagi bundum við vonir við að bjarga spjallþráðum af fyrri heimasíðum klúbbsins, enda mikilvæg heimild um starf klúbbsins og afrek klúbbfélaga í gegnum árin. Þetta tókst og á síðunni er nú hægt að fletta í gegnum umræður Ísalpara allt frá árinu 2002. Að vísu vantar enn umræðuna tvö síðastliðin ár, en með svolítilli handavinnu mætti bjarga henni fyrir horn. Með því að smella á stækkunarglerið á forsíðunni er hægt að leita í spjallinu.

Ný innlegg birtast á forsíðu síðunnar og á það bæði við um fréttir/tilkynningar og þegar ný leið eða klifursvæði eru skráð í gagnagrunninn. Hugmyndin á bak við það er að halda forsíðunni lifandi og að fljótlegt sé að sjá hvort eitthvað nýtt sé að „frétta“.

Frábær nýjung er dálkurinn „Nýjustu aðstæður“, en þar er komin góð og fljótleg leið til að miðla fréttum af ísklifuraðstæðum innan klúbbsins. Fréttir af aðstæðum eru skráðar sem athugasemd við tiltekna leið og birtist hún þá í aðstæðudálknum á forsíðunni. Við settum inn nokkur dæmi til glöggvunar. Dálkurinn er dálítið furðulegur eins og er, en það verður lagað!

Heimasíðuna er bæði hægt að hafa á íslensku og ensku. Skipt er á milli tungumála neðst á síðunni (í footernum). Til stendur að setja ársrit ÍSALP frá upphafi inn á síðuna á .pdf formi. Sennilega verða þau höfð ókeypis og opin almenningi.

Síðuhönnuður er Jafet Bjarkar og kunnum við honum bestu þakkir fyrir gott samstarf.

Að endingu óskum við klúbbfélögum til hamingju með síðuna!

f.h. stjórnar, Helgi Egilsson, formaður ÍSALP.

Leiðbeiningar:

  1. Ef þú áttir aðgang að gömlu síðunni er hann vonandi til ennþá (einhverjir notendur týndust í spamhaug). Til að endurvekja aðganginn ferðu í Skrá inn og síðan Týnt lykilorð? og skráir inn netfangið þitt. Þá verður nýtt aðgangsorð sent á það netfang. Ef þú manst ekki hvaða netfang þú notaðir er hægt að finna út úr því með því að hafa samband við einhvern með admin aðgang, eða senda póst á stjorn hja isalp.is
  2. Nýir notendur fara í Skrá inn og Nýskráning.
  3. Til að skrifa inn á spjallið er farið í „+Nýtt“ efst á skjánum vinstra megin.

Gestabók Hraundrangans komin til byggða

 

Bókasafni ÍSALP var nýverið afhent gestabók af tindi Hraundrangans í Öxnadal. Í bókina eru skráð nöfn þeirra sem komu við á tindinum frá jóladegi 1993 og til 24.júní 2001, en þá var blautri bókinni bjargað úr gestabókarkassanum sem hafði gefið sig. Fremst í bókinni eru upplýsingar um allar uppgöngur fram til þess að bókin var sett upp.
Bókin endaði í góðu yfirlæti hjá bjargvætti sínum, Jökli Bergmanni um árabil þar til það varð til tíðinda að Bjarni E. Guðleifsson líffræðingur, skrifaði kafla um Hraundrangann í bók sína Hraun í Öxnadal og hafði upp á gestabókinni góðu hjá Jökli. Bjarni afhenti stjórn ÍSALP síðan bókina, eftir að hafa nýtt hana sem heimild í skrif sín. Bjarni gaf klúbbnum einnig nýútkomna og glæsilega bók sína og kunnum við honum bestu þakkir fyrir!

Nú þarf að koma nýrri gestabók upp á Drangann. Stjórn óskar eftir sjálfboðaliðum í verkið.

IMG_5343

Bókarhöfundurinn Bjarni E. Guðleifsson og Helgi Egilsson, formaður ÍSALP á góðri stundu