Fyrir ofan bæinn Gil á Kjalarnesi er Vallárgil. Í gilinu rennur lækur sem myndar oft góð íshöft sem hafa má meira gaman af en ætla mætti í fyrstu. Höfðu Ísalparar einmitt komist að sömu niðurstöðu árið 2008. En aldrei var leiðin skráð og engar myndir voru til. Halldór og Ágúst voru búnir að keyra framhjá þessum ís í aðstæðum nokkrum sinnum en voru alltaf á leið í önnur verkefni. Svo kom þó að tímaþröng gerði þennan kost vænlegan og er því leiðin loksins skráð hér.
Aðkoma
Beygt af Þjóðvegi 1 við skilti sem vísar á bæinn Gil. Þessi vegur er keyrður framhjá bænum og svo beygt til hægri við fyrsta tækifæri (þetta er sýnt með seinni bláu örinni á kortinu). Sá slóði er keyrður að gilinu og síðasti hlutinn genginn (brotalína á korti). Gangan tekur rúmlega 30 mínútur. Í fyrstu gæti virst að hún tæki skemmri tíma en eins og alltaf þá er ísinn fjærri en hugurinn vill halda.
Klifrið
Þrjú íshöft eru í gilinu að jafnaði. Þau tvö fyrri eru nálægt hvort öðru og því hentugt að klifra þau í einni spönn. Dugir að hafa 60m línu til þess. Síðasta haftið er nokkuð ofar og þarf því að ganga í gilinu til að komast að því.
Varðandi erfiðleika þá geta klifrar valið sér leiðir eftur hentugleik. Fyrsta haftið hefði verið hægt að klifra sem WI3+ en við kusum meiri áskorun, upp brattasta hlutann þar sem stígið var út á hangandi grýlukerti í lok leiðar. Sú leið mundi flokkast sem WI4 og kannski rúmlega það. Haft númer tvö var einnig farið þar sem ísinn var brattastur og mundi það flokkast sem WI4+. Síðasta haftið var í krefjandi aðstæðum þar sem stærðarinnar regnhlíf hafði myndast efst og engin leið upp nema undir og yfir regnhlífina. Það var mikið gaman, sérstaklega þar sem ísinn var sterkur og hélt þegar hælkrókur var tekinn til að komast upp. Þetta síðasta haft sem var okkar seinni spönn flokkast því sem WI5 einfaldlega útaf síðustu hreyfingunum. Að öðru leyti var sá hluti þægileg WI4 leið.
Heilt yfir er ferð í gilið góð skemmtun og ekki skemmir alpafílingurinn fyrir. Flestir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi. Hugsanlega dregur úr skemmtun og erfiðleikum eftir því sem snjór hleðst í gilið. Kannski er heldur ekki skynsamlegt að klifra þarna í miklum snjó vegna hættu á flóði, en um það verður auðvitað hver að dæma fyrir sig.
Niðurferð
Líklega er hægt að finna niðurgönguleið í hlíðinni sunnan við gilið en við kusum að síga niður, enda höfðum við líka skilið eftir bakpoka okkar í gilinu. Þar sem við vorum bara með eina 60m línu þá þurftum við þrjár V-þræðingar til þess. Með tveimur 60m línum þá myndi fækka um eina þræðingu.
Fyrri spönn hefst á 10-15 metrum af WI4, en verður svo WI3. Það er nóg um góða stansa eftir að fyrsta haftinu sleppir. Það má því skipta leiðinni upp eins og klifrurum sýnist en við tókum hana í 50m og svo 35m spönn af WI3. Leiðin er sérstaklega heppileg þegar klifrarar eru á sitthvoru getustiginu, þannig getur annað fengið góða skemmtun af því að leiða upphafið, síðan getur hin(n) reynsluminni tekið restina.
Síga þarf niður úr leiðinni á V-þræðingum.
Þessi leið hefur ekki verið skráð áður þannig að við gefum henni nafn og gráðu. Nafnið er talið lýsa leiðinni vel þar sem hún hefst á mjög spennandi hreyfingum en svo gerist ekkert frásagnarvert eftir það. Farin af Ágústi Kristjáni Steinarrssyni og Halldóri Fannari 21. janúar 2024.
„Sigurjón“ er beint fyrir neðan fjölda tjarna og því líklegt að hann komist fljótt í aðstæður og endist lengi. Sökum nálægðar við sjó er sjaldnast of kalt og brimið skapar kósíheit. Hafa ber þó í huga að gönguleiðin er illfær á flóði en auðvelt er að klifra upp úr sektornum á aflíðandi ís sem fær líklega WI2 gráðu.
Á þessu svæði er möguleiki á að frumfara þó nokkrar leiðir. Sumar þeirra yfir 20 metra langar. Erfiðleikagráðan er líklega frá WI2 upp í WI4+/5. Mælt er með því að nota línur úr laginu um „Sigurjón digra“ til að nefna nýjar leiðir, t.d. „Komnir til að sjá og sigra“, „Með krafta í kögglum“ og „Takið af ykkur skóna!“
Ófarin
Ófarin
Bóna, bóna, bóna (WI3-)
Og bóna (WI3)
Ófarin (einfaldast að síga niður um þessa leið)
Með ballskó í bögglum (WI3+)
Ófarin
Ófarin
Ófarin
Ófarin
Eins og sést á mynd þá safnast ís fyrir ofan og mætti því setja upp akkeri þar til að síga niður í sektorinn þar sem hann er mest aflíðandi.
Svæðið er merkt B á yfirlitsmyndinni. Það er samfelldur 100m breiður ísveggur sem fékk því heitið „Digri“. Um aðkomu má lesa á yfirlitssíðunni um Hvalfjörð.
„Digri“ er beint fyrir neðan fjölda tjarna og því líklegt að hann komist fljótt í aðstæður og endist lengi. Sökum nálægðar við sjó er sjaldnast of kalt og brimið skapar kósíheit.
Hæðin er um 20 metrar og erfiðleikinn á bilinu 3 til 4 eftir því hvar er klifrað. Frábær staður til að æfinga og skemmtunar.
FF. Ágúst Kristján Steinarrsson og Halldór Fannar 10. desember 2023
Veturinn 2023 var óvenju kaldur; á suðvesturhorninu var talað um kaldasta veturinn í hundrað ár. Þetta skapaði einstakar aðstæður í Glymsgili og þá sérstaklega fyrir vatnsfallið Glym. Þann 17. janúar héldu íslendingur búsettur á ítalíu og ítali búsettur á Íslandi inn gilið, með það að markmiði að klifra eina af mörgum sögufrægum leiðum innst í gilinu. Það fór hins vegar á annan veg. Sökum einstakra aðstæðna og ruglingslegra teikninga þá klifruðu þeir nýja leið. Á meðan klifrinu stóð töldu þeir sig vera á Sacrifice (WI5+) eða tilbreytingu við Draumaleiðina (WI5+) en síðar kom í ljós að um hvorugt var að ræða.
Fyrri helmingur leiðar liggur beint up í „gin“ Glyms – þar sem flæði vatns er sterkast og fossinn er venjulega opinn og vatnið spýtist úr honum eins og úr gapandi munni. Leiðin Sacrifice er á vinstri hönd og Draumaleiðin er töluvert til hægri (hún endar á suðurbarmi gilsins). Þessi fyrri partur innihélt heila spönn af yfirhangandi blómkálshausum sem gerði tryggingar nokkuð snúnar og klifrið krefjandi þar sem hver þrívíddarþrautin tók við af annarri. Það má segja að ísmyndanir á þessum hluti hafi minnt á stórar skattar tennur í jötni, sem er afar viðeigandi. Á seinni helmingi leiðar þurfti að hliðra til hægri þar sem fossin var ennþá opinn í efri hlutanum. Nafnið „Gin Glyms“ þykir því lýsa leiðinni nokkuð vel, það er stuðlað sem er vinsæll siður í íslenskri tungu, og svo má vera að áhugi klifrara á Gin&Tonic hafi spilað eitthvað inn í.
Leiðin er sú fyrsta sem blasir við þegar komið er niður í flæðarmálið eftir lækjafarveginum (sjá myndir). Hún er janframt fyrsta leiðin sem var klifruð á þessu svæði.
Það er torvelt að komast meðfram flæðarmálinu lengra en á fyrsta svæðið sökum öldugangs. Sjávarhæð spilar hér auðvitað inn í en þegar við sóttum þessa hamra heim þá gekk sjór alveg upp að ísnum og vorum við í raun heppnir að komast upp á íssylluna áður en stærstu öldurnar gengu yfir. Þessi sylla var eins og svalir úr ís þar sem sjórinn gekk undir þær þegar hann hamaðist sem mest.
Leiðin var nefnd “Ísbað” sökum þess að seinni spönnin er í raun feitt ískerti sem myndast úr miklum ísúða. Sá úði var ennþá í fullum gangi þegar við klifruðum og gerði verkefnið meira krefjandi.
Spönn 1: Um 30 metrar WI3+, ýmsir möguleikar til að setja upp akkeri en gætið að ísmyndunum fyrir ofan ykkur. Við völdum einn skásta staðinn með þetta fyrir augum en hann mun seint kallast hættulaus.
Spönn 2: Um 12 metrar WI4+/5, byrjar á hliðrun til hægri en svo er einfaldlega farið beint upp, þar sem kertið er brattast en líka með besta ísinn. Vegna ísbaðsins er best að klifra þetta hratt og fumlaust.
FF. Halldór Fannar og Ágúst Kristján Steinarrsson 17. mars 2023
Leiðin hefst rétt til vinstri við „Bláu leiðina“ en byrjar á hliðrun til vinstri og svo er þrykkt lóðrétt upp 10m (WI4+) kafla af ís (sem getur verið þakinn þunnu snjólagi). Eftir það er hliðrað lengra til vinstri og sett upp akkeri. Þarna er góð sylla til að standa á og hefst leiðin „Kiddi“ á vinstri hönd. En í stað þess að halda þangað er farið aftur til hægri og svo beint upp 20m (WI4+) kafla sem er að mestu lóðréttur á góðum bláum ís. Eftir það eru um 30m (WI3+) þar sem skiptist á ís og snjór. Í frumferð var gerð v-þræðing undir klettinum í góðum ís og sigið niður á tveimur 60m reipum. Það var mikill snjóhengja fyrir ofan en kletturinn veitti sálrænt skjól.
60m
FF: Halldór Fannar og Ágúst Kristján Steinarrsson, 17. feb. 2022