Margir hafa sennilega tekið eftir vænum ísbunkum við vegkantinn á leið í gegn um Mosfellsbæinn. Þetta verður oft vel ísað, en hvergi er það mjög hátt eða bratt.
Nú hefur aftur á móti verið sprengt duglega í bergið til þess að útbúa risavaxið bílastæði við Korputorg. Þar er hellingur af ís og þokkalega háir veggir undir flóðlýsingu frá bílastæðinu. Fljótlegt er að hlaupa upp fyrir klettinn og snara einhverju utan um ljósastaurinn fyrir ofan og taka gott æfingasession í lóðréttum ís. Leiðirnar eru allt frá lágum og vel auðveldum byrjandaís út í lóðréttan mikið kertaðan ís og mix. Hæstu leiðirnar eru líklega 8 metrar eða svo.
Snilld á virkum dögum í hádeginu, á leið heim úr vinnu eða á kvöldin.
Svo má ekki gleyma að það er pylsuvagn hinum megin við planið.