Í kvöld verður tímamótaviðburður, umræðufundur um slys og öryggi á fjöllum. Það er hellingur af atvikum sem hafa komið upp í gegnum árin, misalvarleg en klárlega eitthvað sem hægt er að læra af. Margir luma á frásögnum af óhöppum, næstum óhöppum eða skuggalegum aðstæðum og tími til kominn að þær líti dagsljós.
Við viljum skora á fólk að mæta og þá ekki síst þá sem hafa verið lengi í bransanum, gömlu kempurnar sem hafa migið í saltan sjó vel og lengi.
Þetta er spurning um að gera fjallamennskuna og klifrið öruggara með því að miðla upplýsingum og koma í veg fyrir að sömu mistökin séu gerð oft eða að menn geri sér grein fyrir aðstæðum sem eru varasamar.
Planið er að byrja á að skrá niður frásagnir og jafvel birta í framhaldinu skýrslur á vefnum eða í ársritinu. Á staðnum verður skjávarpi og tölva ef menn vilja sýna myndir. Svo fólk getur tekið með einhverjar myndir til að sýna ef það vill. Einhverjir hafa þegar staðfest komu sína og ætla að segja sögur.
Mæting í Klifurhúsið klukkan 20 í kvöld, kex og kaffi í boði Ísalp.